16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2067 í B-deild Alþingistíðinda. (3007)

133. mál, framfærslulög

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Það er örstutt, og það er líka óþarft að fara mörgum orðum um þetta.

Ég skal aðeins benda á það, sem hv. frsm. virtist misskilja. Hann heldur, að þetta „eða annara kunnugra“, sem hann hefir sett í till. á þskj. 789, þýði það, að sjálfsagt sé eins fyrir það að leita umsagnar nefndarinnar. En það er ekki. Sá, sem úrskurðar, getur með þessu ákvæði gengið fram hjá nefndinni og komið sér saman við aðra menn, sem hann felur, að geti gefið upplýsingar og farið eftir þeirra umsögn. Þetta getur ekki verið tilætlunin. Það er ómögulegt, að það eigi að láta Pétur og Pál ráða slíku eftir eigin geðþótta. Og þó að hann sé ekki bundinn við álit þeirra, þá er þó skylt að leita umsagnar hreppsnefndar eða annara kunnugra.

Viðvíkjandi till. um niðurfellingu 26. og 61. gr. þá skal ég geta þess um 61. gr., sem mönnum hefir orðið tíðrætt um, að ef hún yrði felld burt, þá er það í raun og veru svo, að þá ætti það að gilda um þau börn, sem eru talin munaðarlaus samkv. 60. gr., að það yrði haldið áfram að gefa með þeim af heimilissveit foreldra, enda þótt annar maður kæmi til með að taka konuna að sér, svo að börnin væru þá ekki lengur munaðarlaus. Það stangast því á að fella niður 61. gr., nema þá 60. gr. yrði felld niður líka. En þessar gr. sóma sér vel eins og þær eru. 61. gr. og 26. gr. gera algerðan jöfnuð milli kvenna, eins og hafði átt að vera milli giftra kvenna, hvort sem þær hafa verið áður gefnar eða ekki.

Hirði ég svo ekki að fara frekar orðum um það. Ég vona, að hv. þm. séu því vaxnir að skera úr þessu með atkv. sínum. Mætti mikið vera, ef svo illa tækist til, að þær yrðu felldar.

Ég lét hjá líða áðan að gera aths. við það, sem hv. 6. landsk. var að tala um. Hann var að verja það, að sá, sem kemur frá útlöndum og er ríkisborgari hér, ætti þess kost að kjósa sér sveit. Þetta á að vera til þess, að með því að hann hafi þennan rétt, þá sé hann jafnsettur þeim, sem heima eru, því að ef menn hugsa sér hömlur settar við því, þá gilda þær vitanlega gagnvart þeim, sem væru innanlands, en svo kæmi maður utanlands frá og hann stykki yfir allar hömlur, stykki „yfir hringinn margfaldan“. Það er ekki rétt að gefa honum rétt til slíks forleiks. Hann á að vera jafnsettur öðrum, og er þá rétt að binda hann við það lögheimili, sem hann hafði eða þá hans foreldrar. Hitt er í raun og veru óhæfa, að nokkur maður geti með einu orði ráðið, hvar hann setur sig niður sem sveitfastur.