20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (3015)

133. mál, framfærslulög

Magnús Guðmundsson:

Það var alveg rétt, sem hv. frsm. allshn. sagði, að ég mætti ekki á þessum fundi n., sem haldinn var til meðferðar þessa máls, og það er líka rétt, að ég gerði það af ásettu ráði, af því að ég taldi það aðeins málamyndarmeðferð í n. að taka lagabálk eins og þennan og lesa hann yfir eins og eldhúsróman og leggja svo til, að hann sé samþ. óbreyttur. Þetta vissi ég, að átti að vera þannig, ef málið átti að ná fram að ganga, og ég kærði mig ekki um að taka þátt í þessu. Það hafði ekkert að segja, hvort ég mætti á þessum fundi eða ekki. Ég verð að segja það, að ég er ekki svo gáfaður, að ég geti, með því að lesa langt frv. eins og þetta einu sinni yfir á nefndarfundi jafnhratt og skáldsaga væri, tekið á mig neina ábyrgð á því, að öll ákvæði þess geti staðizt eða séu forsvaranleg. Þess vegna verð ég að taka undir það, sem hv. frsm. n. sagði, að það er hreinasta óhæfa, að það skuli ekki vera ætlaðir meira en tveir sólarhringar til meðferðar þessa máls hér. Þó væri ef til vill hægt að þola þetta ef þetta væri eina málið á þessu þingi, sem þannig er ástatt um, eða ef ekki þyrfti að athuga önnur mál samtímis, en því fer fjarri, að svo sé, því að nú er dag eftir dag kastað hér inn í deildina stórum málum, sem stjórnarflokkarnir eru búnir að semja um, að skuli ganga fram, og þegar þau koma hingað að lokum, þá er orðið svo áliðið þingtímans, að þá verður að ákveða, að þau skuli ganga fram breyt.laust, jafnvel þótt á þeim finnist stórvægilegir smíðagallar, eins og kom fram fyrir skömmu, þegar frv. um tryggingar var til meðferðar. Að öllu þessu athuguðu hefi ég fyrir mitt leyti ekki talið neina ástæðu til þess að sækja þann eina nefndarfund, sem haldinn var um þetta mál. Ég er hræddur um, að það sé ekki útilokað, að eitthvert ósamræmi hafi orðið við atkvgr. í Nd. við 3. umr., því að það munu víst hafa legið fyrir milli 50 og 60 brtt., en svo er manni sagt, að það megi leiðrétta gallana á frv. á næsta þingi, sem er að vissu leyti rétt, en það er þó ekki sem skemmtilegust lagasmið og ekki frambærileg rök fyrir lagasetningum hér á hv. þingi. Annars býst ég við að allir hv. þm. séu sammála um, að nauðsynlegt sé að fá nýja löggjöf í þessu efni, þó það væri ekki af öðru en þeim vandræðum, sem sveitarfélögin eiga við að stríða. Þeirra hagur er svo bágborinn, að það lítur út fyrir, að þau telji, að varla geti verra tekið við en það, sem þau hafa nú, og er það algengt hugarfar hjá þeim, sem eru komnir í veruleg vandræði.

Hv. frsm. n. benti á eina aðalbreyt. þessa frv., sem er sú, að sveitfestistíminn er nú afnuminn. Það er sjálfsagt að reyna þetta fyrirkomulag, en ef menn halda, að með þessu séu deilur að miklu leyti fyrirbyggðar um það, hvar framfæra eigi þennan eða hinn, þá verða menn fyrir vonbrigðum, því að það er áreiðanlegt, að nú byrjar togstreita um allt annað efni en áður. Áður var oft reynt að halda mönnum uppi á meðan þeir voru að vinna sér sveit, en nú mun það sýna sig, að gerðar verða tilraunir til þess að koma mönnum burt og fá þeim fastan dvalarstað áður en þeir þurfa að liggja, og út af þessu rís áreiðanlega mikið stapp og þref. Ég er viss um, að 12. gr. sker ekki nægilega úr um þetta, enda er það svo, að hjá okkur vantar lög um lögheimili. Í þessari gr. (12. gr.) stendur, að þar sé lögheimili manns, er hann hefir aðsetur sitt og greiðir almenn gjöld. En ef maðurinn greiðir engin gjöld og hefir fast aðsetur tíma og tíma á mörgum stöðum, hvar á hann þá framfærslurétt?

Eitt af nýmælum þessa frv. er um framfærslunefndir, sem eiga a. m. k. að vera í kaupstöðunum. Mér skilst, að þetta séu ekki n., sem eiga að koma í stað fátækrafulltrúanna, sem nú eru, t. d. í Rvík, en þá skil ég ekki vel, hvert er hennar verkefni. -Annars vil ég segja það um þetta mál, að síðan því var vísað til n., hefi ég ekki haft neinn tíma til að fara í gegnum það, og get ég því ekki tekið ábyrgð í afgreiðslu þessa stórmáls, sem kemur hingað síðustu daga þingsins, enda er alveg tilgangslaust að leggja vinnu í að leita að göllum í frv., þar sem því er lýst yfir, að frv. eigi að ganga fram breytingalaust í þessu þingi og ef gallar komi fram í því, þá verði að leiðrétta þá á næsta þingi. Í slíkri aðferð um lagasetningu vil ég engan þátt eiga.