20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (3016)

133. mál, framfærslulög

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Það kemur í ljós við meðferð þessa máls, hve mjög óheppileg sú tilhögun er, að það skuli koma fyrir þessa hv. d. svo seint, að heita má útilokað, að það nái fram að ganga, ef því verður nokkuð breytt. Um þetta virðast allir hv. þdm. sammála. Ég hefi ekki kvatt mér hljóðs til þess að tala gegn þessu frv., því ég tel að þær breytingar í fátækralögunum, sem í því felast, í öllum höfuðatriðum til bóta. Sérstaklega tel ég, að ákvæði 12. gr., um það, að framfærslusveit og dvalarsveit falli saman, vera til bóta, því það er þegar komið svo, að fjöldi sveitarfélaga megna ekki lengur að sjá fyrir þeim þurfamönnum sínum, sem dvelja utan sveitarfélaganna, og ekki sízt, ef þeir dvelja í kaupstöðunum, þar sem kostnaðurinn er hærri. En þó ég telji frv. í höfuðatriðum til bóta, þá blandast mér ekki hugur um það, að í frv. eru svo stórir ágallar, að ég tel öldungis óhjákvæmilegt að lagfæra þá, áður en frv. verður að lögum. Út af þessu hefi ég átt tal við hv. formann sjálfstæðisflokksins, og hefir hann lofað því fyrir flokksins hönd að samþykkja hverskonar afbrigði fyrir málið, til þess að hægt veð að afgreiða það á þessu þingi, þó á því verði gerðar breytingar. Væri þá hægt að taka frv. til síðustu umr. hér í morgun og í hv. Nd. í mánudag, en það mun nú ákveðið, að þing standi þangað til á mánudag. Það er fyrst og fremst eitt atriði, sem ég tel óumflýjanlegt að breyta og ég ætla, að ekki muni vera neinn ágreiningur um, og er sýnilega komið inn af vangá, en það eru allmörg fleiri atriði, sem ég rek augun í, þó minna séu skaðleg en þetta eina, og skal ég nú víkja að nokkrum þeirra. Í 12. gr. segir: „Sérhver íslenzkur ríkisborgari eldri en 16 ára í framfærslurétt í heimilissveit sinni, en heimilissveit er sá kaupstaður eða hreppur, þar sem maður í lögheimili“. Svo kemur skýring á því, hvað sé lögheimili: „Verði eigi upplýst um lögheimili manns, er leitar framfærslustyrks, þá skal sú sveit, er hann dvelur í, þegar hann verður styrkþurfi, teljast framfærslusveit hans“. Ég er í miklum vafa, hvort þessi lögskýring er nægileg, og yfirleitt, hvort þetta er nokkur lögskýring. Ég geri ráð fyrir, að almennt sé svo álitið, að lögheimili manns sé þar, sem hann greiðir sveitarútsvar, en þegar gætt er að, hvað segir í lögum um útsvör, þá stendur þar í 8. gr.: „Þar skal leggja útsvar á gjaldþegn, sem hann hefir heimilisfang vitanlega eða samkvæmt manntali næst á undan niðurjöfnun“. Útsvarslögin ganga út frá því, að heimilisfang sé nægileg skilgreining á hugtak, til þess að ákveða útsvarsskyldu. Það er því ákaflega lítil skýring í lögheimili manns, þó sagt sé, að það sé, þar sem hann hefir aðsetur eða greiðir almenn gjöld. Ég tel þessvegna nauðsynlegt að ákveða það nánar í framfærslulögum, hvað útheimtist til þess, að maður eigi lögheimili á tilteknum stað.

Þá tel ég í 14. gr. nokkurt ósamræmi við önnur ákvæði frv. Þar segir svo: „Ef hjón skilja eða sé sambúð þeirra slitið, á barnið framfærslurétt í heimilissveit þess foreldris, er foreldraráðin hefir eða það fylgir, og helzt sá framfærsluréttur, þótt foreldrið deyi“, og í 2. mgr. segir, að hafi ekki verið úrskurðað um foreldraráð yfir barni foreldra, sem eru skilin, og hjá hvorugu þeirra dvelur, eigi barnið framfærslurétt í heimilissveit föður síns eða þeirri sveit, er hann átti síðast lögheimili í, sé hann látinn. Ef þetta er borið saman við 3. gr., þá segir þar: „Skylt er foreldrum í félagi og hvoru fyrir sig að framfæra og ala upp börn sín þangað til þau eru 16 ára“. hér virðist allmikið ósamræmi. Ef faðirinn deyr, flyzt framfærsluskyldan yfir í móðurina, en þó foreldrar skilji, þá er það ekki svo, heldur í framfærslusveit föðurins að framfæra þau börn þeirra, sem faðirinn hafði foreldrarétt yfir, þó móðirin gæti framfært barnið eða börnin og hefir framfærsluskyldu til samkv. 3. gr. Mér sýnist leiðin eiga að vera sú, að börnin fylgi framfærslusveit foreldranna, hvort þeirra, sem lifir.

Þá er í 17. gr. eitt atriði, sem mér er ekki ljóst, þar er kveðið svo í, að danskir ríkisborgarar eigi framfærslurétt sem íslenzkir ríkisborgarar, meðan þeir dvelja hér. Ég tel víst, að þetta atriði standi þarna vegna jafnréttisákvæða 6. gr. Sambandslaganna, en ég vil spyrja hv. n., hvernig þessu er háttað í Danmörku, því að sjálfsögðu verður að telja þessi réttindi danskra ríkisborgara hér í landi óeðlileg, nema íslenzkir ríkisborgarar njóti sömu réttinda í Danmörku. Ég skal játa, að mig brestur vissu um þetta atriði, en er þó hræddur um, að þessi réttindi séu ekki fyrir íslenzka ríkisborgara í Danmörku, og ef svo er, þá er þetta ákvæði í 17. gr. ekki réttlátt.

Þá eru það ákvæði 20. gr., sem mér sýnast vafasöm, um að ráðherra vísi framfærsluþurfa, sem kemur frá útlöndum, í þá sveit, er framfærsluþurfi kýs sér. Það liggur í augum uppi, að þetta ákvæði er hægt að misnota. Maður getur hugsað sér, að framfærsluþurfi geti kosið sér fleiri eða færri framfærsluhéruð, þannig að þau keyptu hann fyrir eitthvert gjald, til þess að hann ekki teldi sig til heimilis í þeim héruðum, mér þykir það næsta ólíklegt, að ekki sé hægt að finna eitthvert betra fyrirkomulag en þetta.

Í 48. gr. er ákvæði, sem ég ætla að sé dálítið varhugavert. Þar er talað um, að sveitarstjórnir geti látið skrifa upp alla fjármuni þess manns, sem skuldar sveitinni fyrir þeginn framfærslustyrk. Svo segir: „Ef þinglýst er tilhlýðilega eftirriti af uppskriftargerðinni ásamt útdrætti úr sveitarbók, að því, er styrkinn snertir, leggst veðband á hina uppskrifuðu muni skuldinni til tryggingar“. Ég ætla, að það geti ekki verið meiningin, að þessi veðbönd gangi fyrir öðrum veðkröfum sem á lausafé þurfamanns kunna að hvíla. Það má benda á það, að á síðari árum hefir ekki lítill hluti af lausafé landsmanna verið selt að veði fyrir vissum lánum, og gæti því þessi veðréttur, ef hann á að ganga fyrir öðrum og eldri veðböndum, gert ekki svo litla truflun á lánastarfseminni í landinu, og satt að segja finnst mér ólíklegt, að það sé meiningin að skapa hér nýjan forgangsrétt, a. m. k. verður það að teljast mjög óeðlilegt. Þó máske megi segja, að hér sé ekki um stórt atriði að ræða, þá tel ég þó öldungis ómögulegt annað en breyta þessu ákvæði.

Í 49. gr. stendur: „Sannist það fyrir ráðherra, að sá, er þiggur eða þegið hefir framfærslustyrk, sem enn er eigi endurgoldinn eða gefinn eftir, fari ráðlauslega með efni þau, er hann hefir undir höndum, skal ráðherra, eftir beiðni sveitarstjórnar og tillögum lögreglustjóra svipta hann fjárráðum með úrskurði og setja honum fjárráðamann.“ Svipting lögræðis, hvort sem er svipting fjárræðis eða fullkomins lögræðis, er tvímælalaust dómsathöfn, samkvæmt lögum frá 14. nóv. 1917, sem héraðsdómari einn getur framkvæmt, og má vísa slíkri dómsathöfn til hæstaréttar, sem hefir endanlegt úrskurðarvald um málið. Nú er það öllum hv. þm. kunnugt, að ráðh. hefir ekki dómsvald, og getur hann því ekki fellt slíkan úrskurð sem þennan, enda er ég hræddur um, að honum yrði þá hnekkt með dómi, og er þá slíkt ákvæði sem þetta markleysa ein. Ég sé því ekki annað en það verði að breyta þessu ákvæði um sviptingu lögræðis, ef á að hafa eitthvað um það áfram, því ég fæ ekki betur séð en það sé alveg óviðeigandi, eins og það er, hrein og bein fyrirmunun, að slíkt skuli hafa komizt inn í frv. og má segja til þeirra, er sömdu það, að skýzt, þótt skýrir séu. Sitt hvað fleira er í frv., sem tilhlýðilegt hefði verið að gera aths. við, en af því ég vil ekki tefja málið, hefi ég hlaupið yfir minni atriðin, en ég vil beina því til hv. frsm., að Sjálfstfl. mun samþ. hverskonar afbrigði fyrir málið, ef hv. frsm. vildi athuga, hvort ,n. gæti ekki fallizt á að breyta þeim ákvæðum, sem ég hefi nú minnzt á, sérstaklega þó ákvæðum 12. gr. Okkur er ljóst, að málið verður að ganga fram á þessu þingi, og höfum því enga tilhneigingu til þess að tefja fyrir því að óþörfu.