20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (3017)

133. mál, framfærslulög

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég vildi gera grein fyrir mínum fyrirvara. Ástæðan til þess, að ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, er sú, að ég tel ekki hægt og ekki forsvaranlegt fyrir neinn þann mann, er í þingnefnd situr, að skrifa fyrirvaralaust undir nál. um lagabálk sem þennan, sem telur yfir 100 gr., þegar ætlazt er til, að n. afgreiði málið á nokkrum klukkustundum, jafnvel einni klukkustund, eins og nú á sér stað um hvert stórmálið á eftir öðru, sem þessa dagana hrúgast inn í þessa hv. d. frá hv. Nd. í einni kös, og svo þegar á að afgreiða þetta mál út úr d. á tveimur sólarhringum. Þetta er svo hroðvirknisleg meðferð, að ekki er hægt annað fyrir mann í n. en skrifa undir með fyrirvara, jafnvel þó hann komi ekki auga á neina galla við fyrsta yfirlestur á svo löngum lagabálki, þá getur hann ekki treyst því að svo langur lagabálkur sé gallalaus. Ég tel það gangi svo langt með þessi hroðvirknislegu vinnubrögð, að nærri höggvi, að ætla megi, að ráðamenn þingsins telji hv. Ed. óþarfa, því það getur ekki verið tilgangur stjórnarskrárinnar eða þingskapanna, að verkum sé svo hagað á Alþingi, að önnur d. sé svo að segja útilokuð frá því að hafa áhrif á þingmálin. Þetta er fyrsta ástæðan fyrir mínum fyrirvara. Það stóð svipað á með annan lagabálk, sem afgreiddur var hér í hv. d. fyrir skömmu, það var tryggingarfrv., sem ég var í höfuðatriðum fylgjandi, að einum kafla þess undanskildum. Þessu frv. var hraðað svo gegn um hv. d., að enginn tími var til athugunar á frv., enda kom í ljós, að fyrir þeim, er samið höfðu frv., vakti allt annað en það, sem stóð í frv., og varð ráðh. því að gefa sérstaka yfirlýsingu um það, að allt annað væri meint en orðin sögðu. Því er það ekki tilefnislaust, að ég hefi undirskrifað frv. með fyrirvara.

Nú hefir af öðrum hv. þdm. verið bent á ýms atriði í frv., sem ljóst er, að endilega er þörf að breyta, og jafnvel í sambandi við þá gr. frv., sem felur í sér þá höfuðbreytingu, sem gerð er með lagabreytingu þessari, nefnilega í 12. gr., þar sem lagt er til, að í stað eldri ákvæða skuli hver maður eldri en 16 ára hafa framfærslurétt í heimilissveit sinni. Er þar í sömu gr. brugðið frá þeim ákvæðum, sem eru í öðrum lögum en fátækralögunum, og sett ákvæði, sem brjóta í bága við þau lög og gera ekki annað en villa. Það hefir verið á það bent, hve það er villandi að hafa slíka skilgreiningu og er í 1. mgr. 12. gr. Þar segir svo: „Sérhver íslenzkur ríkisborgari eldri en 16 ára á framfærslurétt í heimilissveit sinni, en heimilissveit er sá kaupstaður eða hreppur, þar sem maður á lögheimili.“ Lögfræðingurinn, sem síðast talaði, hefir sýnt fram á, hve áberandi smíðisgalla hér væri um að ræða. Svo segir í 2. mgr.: „Verði eigi upplýst um lögheimili manns, er leitar framfærslustyrks, þá skal sú sveit, er hann dvelur í, þegar hann verður styrkþurfi, teljast framfærslusveit hans.“ Þetta má gera ráð fyrir, að geti valdið allmiklum örðugleikum í framkvæmdinni, og þarf vafalaust mikið meiri vinnu en þessi hv. þd. getur í té látið, til þess að koma lagfæringu á þessi ákvæði, því það er augljóst, að fjöldi manna dvelur á mörgum stöðum á hverju ári, á einum stað yfir vorið, öðrum eða jafnvel tveimur yfir sumarið, fjórða staðnum fram að vertíð, eða kannske heldur hann sér uppi yfir þann tíma með því að ganga milli góðbúanna, kannske viku eða ekki það í hverju sveitarfélagi og svo er hann á fimmta staðnum á vertíðinni. Ég hygg, að ákvæði 12. gr. reynist óheppileg gagnvart þessum mönnum og muni valda allmiklum vandræðum í framkvæmdinni, en hinsvegar er ekki tóm til að gerhugsa breytingu á þessum ákvæðum og ganga svo frá þeim, að trygging sé fyrir því, að þau séu forsvaranleg. Í hv. Nd. kom fram till. um ákvæði til bráðabirgða, sem áttu að gilda þar til ákveðið væri í lögum um byggðaleyfi. Ég gæti hugsað mér, að þær kröfur kæmu víðsvegar að, að sett yrði einhver takmörkun fyrir því, hversu menn skipta um lögheimili milli sveitarfélaga, en út í það skal ég ekki fara hér. - Hv. 2. þm. Rang. hefir réttilega bent á ósamræmi milli 3. og 14. gr. frv., og hefi ég engu við það að bæta. - Í 16. gr. eru ákvæði, sem ég hygg, að þyrftu athugunar við. Þar er talað um barn, sem verður munaðarlaust, „en munaðarlaust telst það barn, sem engan lögskyldan framfæranda á, þann er vitað sé um er til verði náð, og er þá sveitarstjórn í dvalarsveit barnsins skylt að annast framfæri þess fyrst um sinn, þar til úr því er skorið, hver sé hin rétta framfærslusveit þess samkvæmt lögum þessum og skal sú sveit þá taka við framfærslu barnsins.“ Þarna er sagt, að sveitarsjóður dvalarsveitar eigi að framfæra barnið þar til úr því er skorið, hver sé hin rétta framfærslusveit o. s. frv.,“, þá verði sveit sú að taka barnið að sér, hér þyrfti, að ég hygg, ákvæði um það, að dvalarsveit ætti rétt til endurgreiðslu á framfærslukostnaði barnsins frá framfærslusveit. Ég er hræddur um, að ef þau ákvæði vantar, þá freistist viðkomandi framfærslusveit til þess a. m. k. að tefja fyrir afgreiðslu málsins sem lengst, til þess að geta losnað við framfærslubyrðina, á meðan á málinu stendur. Auk þess veit ég ekki, hvort talizt getur sanngirni, ef það sannast, að önnur framfærslusveit sé barnsins rétta framfærslusveit, þá skuli dvalarsveit verða að greiða framfærslukostnað, meðan framfærsluþurfi dvelur þar aðeins af því, að ekki er þegar í stað hægt að upplýsa, hver sú rétta framfærslusveit er. Hv. 2. þm. Rang. spurðist fyrir um það, í sambandi við ákvæði í 17. gr., hvort íslenzkir ríkisborgarar njóti sama réttar í Danmörku sem hér er gert ráð fyrir, að danskir ríkisborgarar heimilisfastir hér á landi, eigi að njóta hér. Mig minnir, að þetta kæmi lauslega til umtals í n., og ég veit ekki, hvort frsm. n. hefir kynnt sér þetta síðan, en æskilegt væri, að það upplýstist. Réttara hefði verið að bæta aftan við 1. málsgr., sem hljóðar svo: „Danskir ríkisborgarar, heimilisfastir hér á landi, eiga sama framfærslurétt sem íslenzkir ríkisborgarar meðan þeir dvelja hér“, því að jafnvel þó að svona ákvæði muni vera í dönskum l. sem stendur, er engin trygging fyrir því, að það ákvæði haldist. Reyndar munu löggjafnaðarnm., sem sæti eiga hér í d., geta upplýst þetta atriði. - Ég verð að taka undir orð hv. 2. þm. Rang. um ákvæði 20. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að framfærsluþurfi geti sezt að, samkv. tilvísun ráðherra, í hvaða sveit, sem hann til þess kýs. Hann getur náttúrlega kosið sér þessa eða þessa sveit fyrst til að byrja með og tilkynnt hreppsn. þeirrar sveitar fyrirætlun sína, og þá gefst tilefni til viðskipta, sem gætu, ef þetta væri framkvæmt við eina sveit af annari, orðið undirrót að verzlun í stórum stíl, sem gæti orðið allhagkvæm fyrir framfærsluþurfa, en ég veit ekki, hvort löggjafarvaldið á að opna dyr fyrir þessháttar verzlunarháttum. - Við 22. gr. hefir verið gerð breyting í Nd., sem ég ætla, þótt lítil sé, að komi mjög einkennilega og jafnvel óviðurkvæmilega fyrir. Í 2. málslið 22. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Leita skal valdsmaður álits hreppsn., þar sem ekkjan á heima, um hagi hennar áður en úrskurður er upp kveðinn“. Er þarna verið að opna dyr fyrir valdsmann til þess að ganga framhjá því, að leita álits framfærslun. Hv. frsm. n. hvíslar að mér, að þetta sé prentvilla, og þykir mér vænt um, að það eigi að skoðast sem prentvilla. Geri ég ráð fyrir, að d. samþ. án atkvgr., að svo skuli vera, enda er ákvæðið svo hlálegt, að ekki verður hjá því komizt, að reynt verði að leiðrétta það. - Ég hafði í n. talað um, ásamt fleiru, þessi atriði, sem ég hefi bent á. - Þá eru ákvæðin í 2. málsgr. 28. gr., þar sem talað er um, að ef sveitarstj. fari fram á uppskrift allra fjármuna þeirra, sem skulda sveitinni fyrir framfærslustyrk, og ef þinglýst er eftirriti af upp-skriftargerðinni, þá leggist veðband á hina uppskrifuðu muni skuldinni til tryggingar, er gangi fyrir öllum öðrum kröfum. Það eru svo margar forgangskröfur og þær svo réttháar, að ekki getur komið til álita að setja þetta veðband fram fyrir öll þau veðbönd. Hvað er þá orðið úr veðkröfum og hvað fara þá að gilda veðsamningar yfirleitt, ef slík ákvæði sem þetta verða framkvæmd. Það hefir verið talað um það frá sjónarmiði bankanna og annara stofnana, sem eiga veðkröfur á menn, svo og ýmsar fleiri kröfur, eins og t. d. vinnukaup. Það yrði ekki hvetjandi fyrir fólk til að hjálpa bágstöddu fólki með vinnu sinni, sem sjaldan myndi verða hægt að greiða út í hönd, ef sveitin gæti þannig sett veðband á vinnukaup, og veðband sveitarinnar gengi fyrir öllum öðrum kröfum. Það hefir verið bent á, af þeim hv. þm., sem síðast talaði, hvílík firra hafi komizt inn í 48. gr. Ég skal ekki fara út í það, en aðeins óska þess, að meiri hl. d., stjórnarmeirihl., fallist á það að leiðrétta þetta, þar sem trygging er talin fyrir því, að ekki verði neitað um afbrigði, og frv. getur því náð fram að ganga eftir sem áður. Þessi breyting, sem hér er gerð, getur e. t. v. talizt stjórnarskrárbrot, þar sem embættismönnum eða opinberum starfsmönnum er falið að framkvæma úrskurði, sem heyra beint undir dómsvaldið. Ef haldið væri áfram á þeirri braut, gæti komið önnur löggjöf, sem gengi bara dálítið lengra í því að svipta menn einum hluta lögræðis. Maður gæti t. d. hugsað sér, að næst kæmi það, að ráðherra gæti svipt mann lögræði almennt. - Í 50. gr. eru og ákvæði, sem ekki geta talizt viðurkvæmileg eða heppileg að mínum dómi. Þar segir í 1. málsgr., með leyfi hæstv. forseta: „Sá, sem þiggur framfærslustyrk og er þó vinnufær, er skyldur að fara í viðunanlega vist og vinna hverja þá vinnu, sem sveitarstjórn ákveður og honum er ekki um megn og greidd er með venjulegu kaupgjaldi á þeim stað, meðan hann er ekki fær um án sveitarstyrks að framfleyta sér og þeim, er hann á fram að færa að lögum“. Hér er komið inn á samskonar ákvæði eins og í 5. kafla tryggingarlöggjafarinnar um atvinnuleysistryggingarnar, að allt er miðað við kauptaxta verkalýðsfélaganna á þessum og þessum stað. En þetta getur orðið mjög óheppilegt ákvæði, a. m. k. í þessu tilfelli, en ég skal nú ekkert tala nánar um hitt tilfellið. Það getur staðið svo á, að maður sé vinnufær að meira eða minna leyti, þótt hann sé það ekki að öllu leyti. Hann getur t. d. verið kominn yfir sextugt og er þá ekki talinn fullvinnufær eða þá að hann getur verið innan við tvítugt. Í hvorugu tilfellinu telst hannað öllu leyti vinnufær. En nú eiga allir, að mér skilst, að geta átt kröfu um að fá venjulegt kaupgjald. Reyndar skal ég ekki segja, að það hafi verið endilega meining þeirra, er sömdu frv., að þetta nái til þessara manna. Það geta verið menn, sem geta unnið eitthvað upp í framfærslukostnað sinn, þó að þeir séu ekki fullvinnufærir. Hitt getur líka komið fyrir, að maður sé líkamlega vinnufær, en hafi þá skapbresti, að menn vilji ekki taka hann fyrir fullt kaup. -Í 53. gr. segir svo, að ef framfærsluþurfi sýni mikla óhlýðni eða þrjózku við sveitarstjórn, þá megi sveitarstjórn taka til sinna ráða. Ég efast um, að hér séu talin upp öll þau ákvæði, sem gætu komið til mála og eru nauðsynleg í þessu sambandi. Ég veit ekki, hvort orðin „illindi“ og „óknyttir“ taka fyllilega yfir þá bresti, sem gætu hugsazt í fari framfærsluþurfa. Hér gæti komið fleira til greina, svo sem ósæmileg framkoma að öðru leyti, sem ekki kannske þyrfti beint að teljast til illinda, t. d. leti og drykkjuskapur. Það getur verið svo ástatt um manninn, þótt ekki sé hægt að saka hann um þetta fernt, þá hafi hann einhvern þann ósæmilegan brest í sínu fari, að sveitarstjórn geti ekki komið honum fyrir á neinu venjulegu heimili og að það sé jafnvel ekki forsvaranlegt að koma honum þar fyrir. Þá virðast þessi ákvæði ekki vera nægilega tæmandi í þessu efni og sveitarstjórn þurfi að hafa nokkuð rýmra vald heldur en hér er gert ráð fyrir.

Í 62. gr. er nokkur ónákvæmni, að því, er snertir 1. lið. Þar er talað um, að sveitarstjórn hafi ekki rétt til að krefjast endurgreiðslu á styrk, sem veittur er af sveitarfé mönnum til greiðslu á nauðsynlegum bókum eða kennsluáhöldum handa börnum undir 14 ára aldri. Þetta er ekki fyllilega tæmandi ákvæði, því að undir vissum kringumstæðum geta börn verið skólaskyld og þurft á bókum að halda lengur en til 14 ára aldurs. Það hefði þurft að orða þennan lið betur, til þess að gr. hefði getað orðið tæmandi. Auk þess veit ég ekki, hvort það er algerlega sanngjarnt gagnvart framfærslusveit að hafa svona almennt og undantekningarlaust ákvæði, sem hér er í 7. 105 gr., þar sem svo er á kveðið, að sveitarstjórn eigi ekki rétt á að krefja endurgreiðslu á styrk veittum af sveitarfé til framfærslu manna 60 ára eða eldri. Mér finnst hér of fast að kveðið, að hafa þetta undantekningarlaust. Það geta í ýmsum tilfellum verið þær ástæður fyrir hendi, t. d. ef 60 ára manni tæmist stór arfur, að ekki sé ósanngjarnt, að framfærslusveit geti endurkrafið veittan framfærslustyrk. - Ég skal nú ekki fara lengra út í þetta efni, með því að ég kvaddi mér hljóðs aðallega til þess að gera grein fyrir mínum fyrirvara við frv. Ég er meginhugsun þess algerlega fylgjandi, og ég skrifaði ekki undir nál. með fyrirvara af þeirri ástæðu, að ég væri því ósamþykkur í aðalatriðum. En ég þykist með þessum aths. hafa gert nokkra grein fyrir því, af hverju ég taldi ekki forsvaranlegt að skrifa undir nál. án fyrirvara. Það getur vel verið, að ef maður hefði haft tómstundir til þess, þá hefði verið hægt að finna mörg fleiri atriði, sem ábótavant var, en þar sem þetta er mesti annatími þingsins, þá hefir maður ekki haft tíma til að fara rækilega í gegnum þetta frv.