21.12.1935
Efri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (3024)

133. mál, framfærslulög

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það væri mikill munur á meðferð stóru málanna hér í d., þó að nefndir hafi haft lítinn tíma til athugunar, ef þau væru yfirleitt rædd eins ýtarlega og sanngjarnlega af framsögumönnum og hv. 1. þm. N.-M. hefir gert hér. Það er mikilsvert að fá slík svör og útskýringar sem þau, er hv. þm. hefir látið í té. - Ég ætla mér ekki að fara að tefja umr. með því að fara út í einstök atriði málsins, en ég gleymdi við síðustu umr. að taka þetta fram: Í 5. gr. frv. segir: „ ... og verður eigi krafizt framfæris og uppeldis af sönnum foreldrum barnsins, nema kjörforeldrin þrjóti.“ Mér þykir lakari þessi síðustu orð: ,nema kjörforeldrin þrjóti“. Um kjörbörn er það að vísu oftast svo, að þau eru orðin sem náttúrleg börn kjörforeldranna. Ég skal ekki fara út í það, sem ákveðið er í III. kafla frv., að meðlag með börnum falli niður, ef ekkja giftist aftur. Það er rétt hjá hv. frsm., að styrkurinn ætti að réttu lagi að falla niður. En þetta gæti þó stundum haft óheppilegar praktískar afleiðingar. Það gæti orðið til þess, að fólk, sem ganga vildi í hjónaband, kysi heldur að lifa í sambúð, sem þjóðfélagið hefir ekki fallizt á, að sé heppileg. Það verður líka að taka tillit til þess, hverja þjóðfélagslega þýðingu hjónabandið hefir. Væri illt, ef slíkt ákvæði í l. yrði til þess að skerða þessa þjóðfélagslegu þýðingu hjónabandsins. En þetta getur hæglega komið fyrir hjá persónum, sem ekki hugsa mjög stórt.

Það var aðallega út af 73. gr., að ég hreyfði andmælum, um jöfnun framfærslukostnaðarins. Ég hreyfði því við 2. umr., að þetta atriði gæti legið nærri að athuga, er því sú regla er tekin upp að jafna milli sveitarfélaga. Það gæti legið nærri að greiða eitthvað umfram jöfnunarsjóð, en það dugir ekki að taka alveg hvötina frá sveitarfélögunum um að spara, það er ekki atveg óhugsandi, þegar sveitar- eða bæjarfélögin eru komin niður fyrir markið og þau eru látin greiða gjöld til annara hreppa. T. d. í sumar á ferð minni um Norðurland kynntist ég ástandi í 2 hreppum, sem eru þannig settir, að þeir hafa engan ómaga, eða annar hefir raunar 1 ómaga, sem hann hefir grætt á. Þegar þannig er ástatt, þá gæti verið, að hægt væri að finna leið, til að láta slíka hreppa greiða í jöfnunarsjóðinn, en vitaskuld er verkefni n. að athuga þetta og hún hefir kannske gert það. viðvíkjandi Reykjavík, þá skal ég kannast við það, að hún fær ýms fríðindi sem höfuðstaður, t. d. að þar safnast saman menn, sem fá laun fyrir starf sitt hjá ríkinu. En hvað því viðvíkur um verzlunina, sem hér safnist saman, þá viðurkenni ég ekki, að það sé fyrir neinn óeðlilegan aðstöðumun, heldur er það vegna þess, að Reykvíkingar eru margir dugandi menn, og þess vegna hefir bærinn náð þessari stærð, sem hann hefir, og skapað sér sjálfur með dugnaði einstaklinganna og góðri bæjarstjórn þá aðstöðu, sem af sumum er ranglega nefnd fríðindi, er ríkið eða aðrir landshlutar hafi skapað. Ég hreyfði því líka, að sú breyting, sem gerð væri með því að afnema sveitfestitímann, hlýtur að koma allþungt niður á kaupstöðunum, og þó sérstaklega þeim stærri. vænti ég þess, að allir geti fallizt á, að það sé hart aðgöngu, að sá staðurinn, sem af þessu hlýtur þyngstan bagga, Reykjavík, skuli svo líka sviptur réttindum til uppbótar úr jöfnunarsjóði. Það var bent á það af hv. þm., að ef tillagið í jöfnunarsjóð, 250 þús. kr., ekki nægði til að fullnægja þörfinni til jöfnunar, þá væri enginn munur á Reykjavík og öðrum bæjar eða sveitarfélögum, og yrði þá hækkuð jafnt jafnaðartalan hjá öllum sveitarfélögum, þannig að meðaltalið hækkaði fyrst, að mér skildist, um 5% og svo aftur um 5% o. s. frv., þar til jöfnunartillagið hrykki. Mér hefir skilizt, að meðalframfærslukostnaðurinn ætti að vera vísitalan, sem gengið yrði út frá að frádregnum 10%. Mér skilst því, að sé Reykjavík tekin með, þá annaðhvort hækki hún eða lækki meðaltöluna, og hvort heldur sem er, þá er réttlátt að hún njóti sömu hlunninda og önnur sveitar- eða bæjarfélög, ef á annað borð þessi regla er sanngjörn og réttlát. Ég skal svo ekki, af því ég sé ekki ástæðu til að tefja fyrir framgangi þessa máls, tala um fleiri atriði.