26.11.1935
Neðri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (3037)

83. mál, bráðabirgðaverðtollur

Frsm. (Emil Jónsson):

Iðnn. hefir borið fram tvær brtt. til viðbótar við fyrri brtt. sínar um þetta mál, og eru þær prentaðar á þskj. 614. Þær eru aðallega leiðréttingar, sem bornar eru fram í samræmi við ósk hæstv. fjmrh. Við 1. gr. er gerð sú brtt. að á eftir orðunum „húfur allskonar“ í b-lið, komi nema enskar húfur“. Byggist þessi brtt. á því, að n. þótti rétt að reyna að styrkja nýjan vísi til iðnaðar, sem sé tilbúning á enskum húfum. Það hefir þó komið í ljós við nánari athugun, að samkv. milliríkjasamningum, sem gerðir hafa verið fyrir landsins hönd, er ekki leyfilegt að hækka tollinn frá því, sem er, á þessari vörutegund. - 2. liður fyrri brtt. fer fram á það, að orðin „reykrör“ og „kröfsur“ í D.-lið verði felld niður, þar sem þetta þótti of óákveðið, til þess að geta staðizt. Þetta getur valdið misskilningi. eins og það er í frv. Það er upphaflega komið inn í frv. samkv. till. járniðnaðarmanna, og þar sem það getur ekki talizt sérlega þýðingarmikið atriði í frv., en getur hinsvegar valdið nokkrum misskilningi, er lagt til, að þessi orð verði felld burt úr frv. N. hefir einnig gert smáorðabreyt. við síðasta lið 1. gr. frv., og leggur hún til, að í stað orðanna „vélar, sem eingöngu eru notaðar til innlendrar framleiðslu, og varahluta til þeirra“, eins og stendur í frv., komi orðin: „vélar, sem eingöngu eru notaðar til iðju og iðnaðar, og varahlutar til þeirra.“ Þetta er einungis orðabreyt. - Í 2. brtt. er farið fram á það, að ákvæðin um gengisviðauka nái einnig til þessara l. - Ég hygg, að ég þurfi ekki að fara frekari orðum um þessar brtt. Þær eru aðallega leiðréttingar og ættu ekki að geta valdið ágreiningi.

Um brtt. á þskj. 564 vil ég segja nokkur orð. Þar er farið fram á það, að kaðlar, færi, fiskilínur, öngultaumar og þorskanet verði undanþegið frá þeirri 5% tollaálagningu, sem frv. gerir ráð fyrir. Það er nú svo, að það er ekki hægt að hlífa einum atvinnuvegi við tolli, án þess að það verði á kostnað einhvers annars, ef tollálagningin er óhjákvæmileg nauðsyn. Hinsvegar skal ég viðurkenna, að sjávarútvegurinn er ekki fær um að standa undir miklum skattaálögum, eins og nú standa sakir. En þess hér einnig að gæta, að þessar álögur eru mjög litlar, þar sem ekki er farið fram á meira en 5% toll á þessum vörutegundum. En á hinn bóginn er sjávarútveginum jafnnauðsynlegt og öðrum atvinnugreinum að koma sér upp innlendum iðnaði til þess að framleiða þær vörur, sem hann þarf að nota til atvinnurekstrarins. Mér hefir verið sagt, að Íslendingar hafi greitt um milljón kr. fyrir útgerðarvörur á þeim hluta ársins, sem liðinn er. Ef hægt er að lækka þennan kostnað að einhverju leyti, þá sparast á þann hátt töluverður gjaldeyrir. Þá væri stigið spor í rétta átt, og þetta frv. miðar einmitt að því að gera innlendri veiðarfæragerð kleift að keppa við þær erlendu. Þetta er sérstaklega nauðsynlegt, ef það er satt, sem mér hefir verið sagt af mönnum, sem vita góð skil á þessum hlutum, að erlendir keppinautar okkar á þessu sviði hafi bókstaflega undirselt íslenzkar vörur hér, til þess að eyðileggja hina íslenzku framleiðslu. Við höfum átt slíkum söluaðferðum að venjast úr þessari átt, og það er talið sannanlegt, að þessar erlendu vörutegundir séu seldar hér með lægra verði en gangverð þessara vörutegunda er erlendis. Sé þetta satt, þá verður árangurinn vitanlega sá, að innlenda fyrirtækið, sem þessa framleiðslu rekur, verður að leggja starfsemi sína niður, þegar þau eru undirseld, ef ekkert er að gert, og afleiðingin verður svo, að sjávarútvegurinn verður að kaupa þessar vörur hærra verði en annars, ef heilbrigð samkeppni hefði getað staðizt á þessu sviði milli innlendrar og erlendrar framleiðslu. Það getur því verið vafasamur hagnaður fyrir sjávarútveginn, að þessi 5% tollur verði afnuminn. - Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Mér þykir líklegt að hv. þdm. sjái, að það getur verið varasamt að leggja þennan toll niður, ef það yrði svo til þess, að þessi atvinnugrein, sem hér um ræðir, yrði lögð niður.

Rétt í þessu er verið að útbýta brtt. á þskj. 619, frá hv. þm. Vestm. Að sjálfsögðu hefi ég engan tíma haft til þess að athuga þær, en í fljótu bragði sé ég, að 1. brtt. er samhljóða 1. brtt. okkar á þskj. 614. 2. brtt. er þess efnis, að umbúðakassar, unnir og hálfunnir, verði felldir niður úr frv. Þetta stingur allmjög í stúf við till., sem hann ætlaði að bera fram í fyrra til stuðnings kassagerðinni, því að hann taldi hana alls góðs maklega þá.

Ég vil svo að endingu mælast til þess, að brtt. iðnn. verði samþ., en ég tel aftur mjög varhugavert að samþ. brtt. á þskj. 564, ekki aðeins vegna þeirrar hliðar, sem snýr að iðnaðinum, heldur og einnig þeirrar, sem veit að sjávarútveginum.