26.11.1935
Neðri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (3040)

83. mál, bráðabirgðaverðtollur

Frsm. (Emil Jónsson):

Ég ætla að svara nokkru því, sem hv. þm. Vestm. og hv. 9. landsk. færðu fram sínum skoðunum til stuðnings. Ég kemst ekki hjá því að drepa nokkuð á þau höfuðsjónarmið, sem frv. byggist á. Ég hélt, að allir væru sammála um það höfuðsjónarmið, að það beri, meðan hinn ungi iðnaður er að vaxa, að leggja nokkurn toll á inn fluttar vörur sömu tegundar og þær, sem framleiddar eru, en létta aftur á móti tollum af hrávörum til framleiðslunnar. Þess vegna er þetta frv. ekki fyrst og fremst tekjuöflunarfrv. Sú hlið þess er algert aukaatriði, en aðalatriði frv. er að hjálpa hinum unga iðnaði. Þess vegna skil ég ekkert í þeirri kenningu hv. þm. Vestm., að það eigi að varast að styrkja iðnaðinn í byrjun. Ef einhver iðngrein er ósamkeppnisfær, þá fellur hún af sjálfu sér. En það vita allir, að erfiðleikarnir fyrir iðnaðinn eru mestir í byrjun, meðan hann er að vinna markaðinn og sigrast á fleiri erfiðleikum, þá er líka þörfin brýnust fyrir hjálp. Ég skil þess vegna ekki, hvernig það á að vera varasamt að styrkja iðnaðinn í byrjun. Ég tel einmitt þörfina þá langsamlega mesta. Ég skal þá fara nokkrum orðum um brtt. hans, sem útbýtt var hér fyrir skömmu, þó ég hafi þess vegna ekki getað athugað þær gaumgæfilega, en ég vil taka það fram, að tollgreiðsla á þessum vörum þarf ekki endilega að þýða það, að þær þurfi að verða dýrari fyrir útgerðarmenn, heldur hitt að vernda iðnaðarmennina fyrir því, að vörurnar þrengi sér inn á markaðinn. Um blokkir, sigurnagla o. fl. er það að segja, að þær hafa hér á landi verið framleiddar í stórum stíl, meira að segja togblokkir, sem eru hinar stærstu, sem notaðar eru, en þær hafa alltaf verið smíðaðar ein og ein í senn, en ekki í „massafabrikation“, eins og þyrfti að vera, ef keppa ætti við erlendan iðnað. Presseningar eru einnig framleiddar hér á landi í stórum stíl, en sá iðnaður á einnig í vök að verjast gegn erlendri samkeppni. Um umbúðakassana e það alveg áreiðanlegt, að sú framleiðsla á rétt á sér, enda minnir mig, að hv. þm. vildi í fyrra styrkja hana og teldi kassagerðina þarft fyrirtæki. Sama ætla ég að segja megi um tunnugerðina, hún á að fullnægja allri eftirspurn í landinu. Þó ekki hafi borgað sig fyrir Vestmannaeyjar að fá kassa senda frá kassagerð Rvíkur, og þó að umbúðirnar utan um eitt skpd. af fiski hafi orðið kr. 2.50 dýrara þaðan en útlend vara sömu tegundar, þá sannar það ekkert. Það þarf að kosta kapps um það að smíða kassana á þeim stöðum, þar sem á að nota þá, vegna þess hve þeir eru erfiðir í flutningum. Ef Vestmannaeyjar þurfa á kössum að halda, þá er sjálfsagt að smíða þá þar. Til þess þarf ekki mikinn útbúnað, aðeins einfalt smíðaverkstæði. Það sannar ekkert um það, að kassagerð sé óframkvæmanleg hér á landi, þó kassar frá kassagerð Rvíkur séu örlítið dýrari úti um land heldur en kassar frá útlöndum, sem keyptir hafa verið og fluttir inn í flekum og hafa reynzt engu betri en hinir innlendu. Tollur á hinni erlendu vöru á ekki að verða til þess, að notendur þurfi að borga hana hærra verði, heldur hins fyrst og fremst, að halda erlendu vörunni burtu af markaðinum. En ég vil bara í sambandi við óánægju hv. þm. Vestm. og hv. 9. landsk. út af innlendu veiðarfærunum benda á það, að ef þau verða seld hærra verði en erlend veiðarfæri, þ. e. a. s. ef eitthvað verður keypt frá útlöndum tollfrítt, þá verður ekki minni óánægjan heldur en ef veiðafærin verða öll framleidd innanlands. Það er þá aðeins um tvennt að velja, hvað veiðarfærin snertir. Annaðhvort verður að útiloka erlendu veiðarfærin með tolli, með því fæst jafnt verðlag á vörunni, eða þá að selja innlendu og erlendu veiðarfærin með mismunandi verði, en það mun hafa í för með sér meiri óánægju heldur en hitt. Í 2. gr. frv. stendur, að fjmrh. sé heimilt með reglugerð að lækka eða fella niður verðtoll af útlendum vörum samskonar og framleiddar eru í landinu, ef verðið á þeim reynist við rannsókn, er ráðh. lætur framkvæma, ósanngjarnlega hátt miðað við verð á hinum erlendu vörum. Það er með öðrum orðum, ef innlenda framleiðslan verður dýrari en erlendar iðnafarvörur, þá hefir ráðh. heimild til þess að taka í taumana. Þetta er gert með hliðsjón af því, að verndartollar geti í einstöku tilfellum orðið varasamir, en þá getur ráðh., ef ástæða er til, annaðhvort lækkað þá eða fellt alveg niður. Þetta ætla ég, að sé hæfileg trygging fyrir því, að ekki sé okrað í innlendum iðnaðarvörum.

Ég veit ekki, hvort það voru öllu fleiri atriði í ræðum hv. þm., sem ég þarf að svara, en ég skal taka það fram, að mér þótti það mjög hart af hv. þm. Vestm. að segja, að við sýndum með þessu frv., að við værum haldnir einskonar blindu, þar sem við vildum hlaða háa tollmúra til þess að skapa okur. Mér þykir þetta mjög þung orð í garð þeirra manna, sem eru að reyna að koma upp nýjum atvinnugreinum á þeim tímum, sem hvorugur aðalatvinnuvegur landsmanna hér sig, sem eru að reyna að gera þann iðnað innlendan, sem keyptur hefir verið frá öðrum löndum, eru að reyna af auka lífsmöguleika í landinu. Það má ekki taka þetta mál allt of einhliða. Það þarf að líta til beggja hliða, og mér finnst það afarómaklegt af hv. þm. að vera að bera á okkur blindu í þessu máli, þó við getum ekki viðurkennt hans þrönga sjónarmið. - Hv. 9. landsk. þarf ég ekki að svara frekar, ég get vel skilið það, að bezt er fyrir neytendurna, að vörur séu sem allra lægstar í verði, en á það er líka að líta, að þjóðinni er það farsælast, að geta framleitt sem mest af þeim vörum, sem hún þarfnast. Hv. þm. Vestm. hélt því fram, að erlendu verksmiðjurnar undirseldu ekki sína vöru. Ég skal ekkert um það fullyrða, en hitt veit ég, að ef innlendi iðnaðurinn hyrfi úr sögunni, þá yrði sá erlendi ekki lengi að hækka. Þá var hv. þm. að tala um, að innlendu verksmiðjurnar þyrftu að hafa conkurance. Þetta er alls ekki rétt. Ef fer að bera á því, að innlendar iðnaðarvörur, sem tollaðar eru, hækka óeðilega, er heimild til þess að lækka tollinn eða fella hann niður. Það er á valdi fjmrh. að gera þetta, ef undangengin rannsókn sýnir, að þess sé þörf.