26.11.1935
Neðri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

83. mál, bráðabirgðaverðtollur

Frsm. (Emil Jónsson):

Það var ekki mín meining að fara langt út í þau mál, þó hv. þm. Vestm. sæi ástæðu til þess. En ég get sagt hv. þm. Vestm. það, að ég tala um þessi viðskipti alveg eins og mér sýnist, hvort sem hann er riðinn við þau eða aðrir. Ég minntist ekki á Þýzkalandsviðskiptin vegna hans persónulegu afskipta af þeim, heldur af því að mönnum er kunnugt, að það er talið hagkvæmt fyrir landsmenn að losna við vörur þangað, sem ekki er hægt að selja annars staðar, og við viljum jafnvel vinna til að kaupa þaðan dýrari vörur heldur en hægt er að fá annars staðar. Því þó til séu vörur, sem hægt er að fá jafn góðar og ódýrar þaðan eins og annars staðar að, þá vita menn, að hitt er líka til. Ég minnist á þetta aðeins til að benda á, að það gæti staðið svo á, að rétt væri að borga meira fyrir vöru heldur en e. t. v. er hægt að fá hana fyrir annars staðar. - Fyrirspurn hv. þm. Vestm. viðvíkjandi málningarframleiðslu get ég svarað því, að iðnn. hefir þegar borið fram frv. á þskj. 616 um að gera tveimur málarameisturum hér í Reykjavík mögulegt að setja á stofn verksmiðju til þess að vinna málningu úr íslenzkum hráefnum. Þessir menn hafa látið fara fram rannsókn á máli og búast við að hefja þegar framkvæmdir, ef frv. fæst samþ. Einnig má geta þess, að það hefir verið framleidd málning, að vísu í smáum stíl, að nokkru leyti á vegum málarameistara og efnafræðings nokkurs hér í bænum. Það er því enginn vafi á, að þetta er hægt að gera, og ég veit að það verður gert, og það því fremur, ef þessi tollur verður samþ.