19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (3066)

83. mál, bráðabirgðaverðtollur

Páll Zóphóníasson:

Ég held, að það væri misráðið að samþ. þessa till. því er að vísu haldið fram af ýmsum sjómönnum, að þessar vörur megi fá ódýrari frá Noregi en innlendar. Það er sennilega eitthvað til í þessu, en á hitt ber líka að líta, að séu vörurnar búnar til hér, þá er efni í þær keypt frá Ítalíu, og það skiptir hundruð þús. kr. að verðmæti. Séu vörurnar aftur keyptar tilbúnar frá Noregi, þá er efnið í þær keypt þangað frá Ítalíu. Nú fer það meðal annars eftir því, hve mikið við kaupum af Ítölum. Hve mikinn fisk við megum selja þangað, og sama gildir um Norðmenn. Með því að samþ. þessa till., myndum við þá hjálpa Norðmönnum til að útvega sér markað í Ítalíu fyrir fisk sinn, en annars hjálpum við sjálfum okkur. Ég veit ekki, hvað hér er um miklar upphæðir að ræða, hefi ekki tölur um það, en það er að minnsta kosti þýðingarmikið mál fyrir okkur að afla markaðs á Ítalíu fyrir vörur okkar. Ég held, að það væri meira virði en hitt, að við fengjum þessar vörur eitthvað ódýrari frá Noregi.