19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (3067)

83. mál, bráðabirgðaverðtollur

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Það getur verið, að það væri að sumu leyti heppilegra að taka hamp frá Ítalíu, en það er engan veginn útilokað, þó að ekki sé samþ. verðtollur á þessar vörur. Hann hefir ekki úrslita áhrif á það, að Veiðarfæragerðin geti haldið áfram að starfa hér. Sumar sortir línu hafa kostað frá Noregi 80 kr. tylftin, en Veiðarfæragerðin hefir selt tylftina á 103 kr., og gjaldeyrisn. er svo harðdræg í garð sjómanna, að eftir því, sem forstjóri Veiðarfæragerðarinnar sagði mér í gær, neitaði n. um gjaldeyri fyrir bunka af veiðarfæraefnum, sem búið var að kaupa og komið var hér í höfn. Og svo er mönnum sagt að kaupa hjá Veiðarfæragerðinni.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að það væri gott að geta keypt sem mestan hamp frá Ítalíu. En þegar hann og hans samherjar eru búnir með hverskonar álögum og fjandskap hér á Alþingi að taka bjargarmöguleikana frá þm. sem fiskveiðar stunda, þá þýðir ekki að tala um að selja Ítölum sem mest og kaupa hamp þaðan. Aðalatriðið er, að sjávarútveginum sé gert fært að lifa. En eftir allt, sem á undan er gengið, væri ekki mikið, þó að höfuðið væri bitið af skömminni og samþ. tollur í færi, öngultauma og þess háttar. Það er engin nauðsyn að vernda Veiðarfæragerðina á þann hátt. Gjaldeyrisnefndin sér svo um, að þeim mönnum, sem nú reka útgerð með sannanlegu tapi, er gerður nauðugur sá kostur að kaupa veiðarfærin hér hærra verði en hægt er að fá þau erlendis. Síðast í dag varð að rifta kaupum, sem gerð voru í Noregi, á veiðarfærum, til þess að þau yrðu keypt fyrir hærra verð af Veiðarfærageðinni hér. Ég bið alla þá sem ekki eru blindir fyrir því, hve lengi megi vega í þennan knérunn, að styðja að till. hv. 9. landsk. og kippa þessu aftur í það lag, sem það var í, þegar það fór frá þessari hv. d. Það er ekki til of mikils mælzt fyrir þá, sem hlut eiga að máli, þótt hv. Nd. geri yfirbót á því ranglæti, sem hv. Ed. lét sér sæma að gera.