19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (3070)

83. mál, bráðabirgðaverðtollur

Sigurður Einarsson:

Ég mun ekki fara að deila um þessa till. mína með neinum stóryrðum. Till. var aðeins gerð og borin fram vegna kvartana frá ýmsum mönnum, og meðal annars frá mínum kjósendum, um erfið viðskipti við Veiðarfæragerðina. - Það hefir verið tekið fram, að gjaldeyrisnefndin hafi í höndum sér, að innflutningur á veiðarfærum verði ekki meiri en þörf er á. En mér er ekki grunlaust um, að þessi tollhækkun, sem ég hefi ekki trú á, að verði mikil tekjulind, verði skjólgarður fyrir gróðafyrirtæki, sem hefir þá aðstöðu, að það þarf hans ekki með og á ekki að fá meiri vernd en það nýtur nú, vegna þess að sú vernd væri óholl fyrir almenning. Ég get ekki seð, að miklu væri tapað fyrir ríkissjóð, þótt þessi vara væri undanþegin verðtolli, og gjaldeyrisnefnd hefir vald til að takmarka innflutninginn. Ég get ekki heldur séð, að þessi tollaukning mundi auka innkaup á hampi frá Ítalíu svo nokkru nemi umfram það, sem gjaldeyrisnefnd getur ákveðið. Ég get ekki sannfærzt um annað en þessi till. mín hafi fullan rétt á sér. Ég mun svo ekki segja meira um þetta, þótt frekar yrði um það rætt.