21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2116 í B-deild Alþingistíðinda. (3080)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Ólafur Thors:

Hv. form. fjhn. beindi þeirri fyrirspurn til hv. 3. þm. Reykv. og mín, sem báðir eigum sæti í fjhn., hvort við vildum gerast meðflm. þessa frv. En við færðumst undan því, og frv. er þar af leiðandi ekki flutt af fjhn., eins og hv. frsm. orðaði það, heldur af meiri hl. hennar, eins og hann mun að sjálfsögðu hafa ætlað að segja og frv. hér með sér. En ástæðan fyrir því, að við höfum ekki viljað gerast meðflm. frv., er m. a. og fyrst og fremst sú, að við flytjum, nokkrir sjálfstæðismenn hér í d., frv. um að fella niður með öllu þetta útflutningsgjald. Liggur þá í hlutarins eðli, að meðan við vitum ekki um afdrif þess máls, getum við ekki verið að eiga þátt í því, að nokkrum hluta þessa gjalds sé varið fremur á einn hitt heldur en annan. Sem sagt, við væntum þess þangað til annað kemur í ljós, að gjaldið verði fellt niður. Þegar af þessari ástæðu höfum við ekki viljað gerast meðflm. þess frv., sem hér liggur fyrir, og munum a. m. k. ekki fyrst um sinn fylgja því, meðan ekki er útséð um, hvernig okkar frv. um niðurfellingu gjaldsins reiðir af. Og þar sem þessi eina ástæða er fullgild skýring á afstöðu okkar, hirði ég eigi um að gera þetta frv. að frekara umræðuefni á þessu stigi málsins.

Ég vildi þó gjarnan mega beina þeirri fyrirspurn til hv. flm., af því mér er ókunnugt um. hvernig málið er í pottinn búið, á hvern hátt ríkisstj. hefir útvegað og mun útvega ræktunarsjóði markað fyrir tilsvarandi upphæð í vaxtabréfum eins og gert er ráð fyrir.