13.12.1935
Efri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2126 í B-deild Alþingistíðinda. (3098)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Við höfum stundum áður í fjvn. reynt í sparnaðarskyni að koma okkur saman um þær sjö till., sem hér liggja fyrir á þskj. 794.

Um 1. till. vil ég taka það fram, sem áður hefir verið minnzt á, að það er í raun og veru aðkallandi, að gerð verði breyt. á fræðslulögunum. Fyrir fjvn. lágu kröfur um það, að hún skyldi leggja til sparnað, sem næmi a. m. k. 1 millj. kr. Höfum við nú gert hér nokkrar till., sem við álítum, að stefni í rétta átt. Ein þeirra er sú, að fræðslumálastjórnin eigi þar, sem það á við, að sameina fræðsluhéruð þar, sem fá börn eru hjá hverjum kennara. Við höfum haft skýrslu frá fræðslumálastjóraskrifstofunni, og af henni er auðséð, hvað núv. fyrirkomulag er fjarri lagi. Það eru til héruð, þar sem eru ekki nema 7 börn, og rétt þar hjá er kannske hreppur, þar sem eru ekki nema 7-10-13 börn. Að hafa einn kennara yfir svo fáum börnum er óhugsandi fyrir héraðið og ríkissjóðinn, og í raun og veru fyrir kennarann líka, því að það eru engin vinnubrögð að vera kennari með 7-10 börn. En við höfum reynt að orða þessa till. svo varlega, að það væri auðvelt fyrir yfirstjórn skólans að koma þessu fyrir. Auðvitað er það sumstaðar, t. d. á Hornströndum, þar sem fólkið er ákaflega dreift, sem við gerum ekki ráð fyrir, að hægt væri að koma slíkri sameiningu við, en víða, bæði í kaupstöðum og sveitum, væri þetta hægt.

2. liður till. miðar að því, að landssíminn hafi það eftirlit, sem er lögskipað að haft sé með raforkuvirkjum. Hér er stefnt að því að hafa ekki fleiri sjálfstæðar skrifstofur en þörf er fyrir. Það er svo með þessar nýju skrifstofur, að þær sýnast hafa möguleika til þess að hlaða utan á sig, og þótti það varhugavert kostnaðarins vegna.

Þá er 3. brtt., sem ég geri ráð fyrir, að verði borin upp í þrennu lagi. Ég get nú glatt hv. þm. með því, að ég hefi séð í dag nýkomið skeyti frá sendiherranum í Kaupmannahöfn til stj. hér, þar sem hann skýrir frá því, að nokkrir möguleikar séu til þess, að sænska tollstjórnin vilji ef til vill kaupa Óðin, en það er einmitt það skip, sem erfiðast er að selja, vegna þess að það hefir komið í ljós við athugun, að það er ómögulegt að gera úr Óðni annað en varðskip.

Um Þór ætla ég ekki að fara fleiri orðum. Þetta ár kostar landhelgisgæzlan ríkissjóð yfir 600 þús. kr., og það má búast við, að svo verði áfram, ef þrjú varðskip verða meira og minna í gangi allt árið. Þennan lið verður að skera niður á fjárl. um allt að 300 þús. kr., og það verður ekki gert með öðru móti en því, að Óðinn verði seldur, eða látinn liggja allt árið. En hinsvegar er talið, að það muni kosta ríkissjóð um 50 þús. kr. árlega að halda við vél skipsins, þó það sé aðgerðalaust. M. ö. o., það kostar ríkissjóð jafnmikið að hafa Óðinn aðgerðarlausan eins og að halda úti vopnuðum varðbát í Faxaflóa allt árið.

Ef varðskipunum yrði fækkað, þá ætti að hafa Ægi fyrir sunnan land á vetrarvertíðinni og við Vestmannaeyjar.

Vitaskipið Hermóður kostar ríkissjóð um 70 þús. kr. í rekstri á ári. Það er orðið lélegt skip og að líkindum helzt nothæft til línuveiða. Ætti því tvímælalaust að selja það eða leigja. Hinsvegar ætti að styðja Skaftfellinga með því að láta Skaftfelling annast flutninga til vita meðfram suðurströnd landsins, en strandferðaskipin gætu aftur á móti flutt efni til annara vita umhverfis landið.

Í 14. lið frvgr. er ætlazt til þess, að 1. bekkur kennaraskólans verði felldur niður. Venjulega eru mjög fáir nemendur í 1. bekk skólans; en fólk úr öðrum ungmennaskólum tekur próf upp í 2. bekk kennaraskólans. Með því að þyngja það próf má algerlega spara þennan bekk, og mundi þá skólinn sleppa við að greiða sem svarar a. m. k. einum kennaralaunum árlega.

Þá ætla ég að fara nokkrum orðum um stúdentafjöldann í sérfræðdeildum háskólans, af því að ég geri ráð fyrir, að sumum hv. þdm. sé það ekki fyllilega kunnugt, út í hvaða öfgar þar er komið. Þar hefir nú í nokkur ár verið svo ástatt, að t. d. í læknadeildinni einni eru útskrifaðir á hverju ári svo margir kandidatar, sem þarf til þess að fullnægja þörfum læknishéraða hér á landi í tíð einnar kynslóðar - eða um mannsaldurs skeið. Það er ákaflega dýrt fyrir þjóðfélagið að kosta til náms og ala upp svo marga lækna, eða 12-14 á hverju ári, sem svo verða að leita til annara landa um atvinnu, þegar þeir geta ekkert fengið að gera hér heima. Sama er að segja um lagadeildina; þar eru útskrifaðir árlega miklu fleiri kandídatar en nokkrar líkur eru til, að geti fengið hér atvinnu við lögfræðistörf. Fjvn. hefir skrifað háskólaráðinu bréfum þá nauðsyn, að takmörkuð verði til mikilla muna inntaka stúdenta í háskólann. Og niðurstaðan af því hefir orðið sú, að rektor háskólans hefir, fyrir hönd háskólaráðs, óskað eftir því, í samráði við kennslumrh., að fá heimild til að takmarka tölu stúdenta í tveimur deildum háskólans, lækna- og Lögfræðingadeildunum. En guðfræði- og heimspekideildir háskólans óska ekki eftir slíkum takmörkunum. Aðsóknin er ekki talin að vera of mikil að þeim deildum. Þetta er í samræmi við þær óskir, sem læknadeild háskólans hefir áður borið fram, og gert er ráð fyrir, að þessar takmarkanir verði settar samkv. reglugerðarákvæði af háskólaráðinu sjálfu, er kennslumálaráðh. staðfestir. Ég fer ekkert út í það nú, á hvern hátt þessar takmarkanir verði settar. Sumir tala um, að það veri gert með inntökuprófi eða samkv. vottorðum, er stúdentar leggi fram.

Ég hefi heyrt það haft eftir landlækni, að það þurfi ekki að útskrifa kandidata í læknisfræði í næstu 6 ár. Þó að ekki megi búast við, að nám læknanna verði stöðvað með öllu um nokkurra ára bil, þá bendir þessi vitnisburður landlæknis á, að það er ekkert vit í, eins og nú standa sakir, að eyða svo miklu fé sem nú er gert til embættisnáms fyrir stúdenta algerlega að óþörfu.

Samkv. 16. lið frvgr. er lagt til, að felldir verði niður prófdómendur við ýmsa opinbera skóla, sem njóta ríkisstyrks. Laun til prófdómenda eru talsverður útgjaldaliður fyrir ríkissjóð, og mun því verða að þessu nokkur sparnaður. Við suma skóla er ekki hægt að komast hjá því að hafa sérstaka prófdómendur, en við aðra skóla er engin nauðsyn á því. N. hefir gert undantekningu um sérskólanna og um burtfararpróf við menntaskólana og embættispróf í háskólanum. Ætlast hún til, að þar verði launaðir prófdómendur eftir sem áður, en við aðra skóla ætlast hún til, að kennararnir hjálpist að og aðstoði hverjir aðra við próf. Ég vil skjóta því til hæstv. kennslumálarh., að í símtali, sem ég átti við Sigurð Guðmundsson skólameistara á Akureyri, kom í ljós, að, hann var ekki ánægður með þessar ráðstafanir.

Í menntaskólanum í Reykjavík er tekinn upp sá síður, að ef nemendur hafa ákveðinn stigafjölda yfir meðaleinkunn eftir veturinn, þá þurfi þeir ekki að ganga undir próf til þess að færast á milli bekkja á vorin. Þetta er ein af þeim leiðum, sem hægt er að fara til þess að spara kostnað við prófin; og fjvn. óskar, að kennslumrh. geri allt, sem unnt er, til þess að greiða fyrir kennurum að flytja nemendur á milli bekkja, svo að vinna við vorprófin hverfi úr sögunni, sem ekki virðist sérlega nauðsynleg.

Þá kem ég að síðasta lið frvgr. Fjvn. stendur ekki öll á bak við þá till. Sjálfstæðismenn í n. eru henni mótfallnir, en við hinir vildum sýna fulla viðleitni til sparnaðar einnig að því er snertir framlög úr ríkissjóði til kvennaskólans í Reykjavík. Og það því fremur, sem n. barst í dag bréf frá framkvæmdanefnd stúdentagarðsins, með tilkynningu um, að fallin væri á ríkissjóð ábyrgð á 28 þús. kr. láni vegna Stúdentagarðsins, sem ekki hafði verið búizt við, að kæmi til greiðslu úr ríkissjóði. Þannig er full ástæða til þess fyrir hv. þdm. að fyrirlíta ekki þann sparnað, sem þessi till. hefir í för með sér. Ég ætla að útskýra þetta nokkru nánar, af því að útlit er fyrir, að sjálfstæðismenn muni vera þessari till. andvígir. Till. fer fram á það, að frá 1. júlí 1936 hætti kvennaskólinn í Reykjavík að vera sérstæð stofnun, og að eftir það gildi um hann hin almennu ákvæði laga um gagnfræðaskóla, nr. 48 19. nóv. 1930, þó þannig, að skólinn heldur áfram að starfa eingöngu fyrir konur, og kennslumrh. getur heimilað, að núv. skólanefnd haldi áfram að stjórna skólanum á sama hátt og áður. Skólinn fær nú um 28 þús. kr. árlegan rekstrarstyrk frá ríkinu. En ef honum væri skipað undir sömu reglugerð og gildir um gagnfræðaskóla, þá mundi hann fá rekstrarstyrk bæði úr ríkissjóði og bæjarsjóði Reykjavíkur. Það hefir verið athugað, eftir aðsókn að skólanum, hvaða styrk hann gæti fengið, og breytingin er engin fyrir skólann að því er upphæðina snertir. Nú eru árlega um 100 nemendur í skólanum, og ef þessi till. verður samþykkt, þá fær skólinn 11 þús. kr. styrk frá ríkinu árlega, og hinn hlutann frá Reykjavíkurbæ. Þó að till. verði samþ., þá er ekki gert ráð fyrir neinni röskun á fyrirkomulagi skólans og rekstri, annari en þeirri, að 3/5 rekstrarkostnaðarins verði framvegis greiddir úr bæjarsjóði Reykjavíkur. Kennslukraftar verða hinir sömu og nú, og að því er snertir bæði tekjur og annað, þá á kvennaskólinn ekki að hafa nein óþægindi af þessari breyt. Hér er aðeins um formsbreyt. að ræða á rekstrarstyrk til skólans. Enda sýnist þetta sem fullkomið sanngirnismál, þar sem skólinn starfar svo að segja eingöngu fyrir Reykjavíkurbæ.

Því hefir verið haldið fram í fjvn., að þar sem lögin um gagnfræðaskóla frá 1930 geri aðeins ráð fyrir einum gagnfræðaskóla í hverju bæjarfélagi, þá muni þessi till. fara í bága við þau. En Alþingi hefir nú fengið fullkomna reynslu fyrir því, að hér í Reykjavík virðist það ekki vera nóg að hafa einn gagnfræðaskóla. Þess vegna hefir verið stofnaður annar skóli hér í bænum, gagnfræðaskóli Reykvíkinga, sem bæjarsjóður kostar að mestu leyti og leggur honum árlega til 17-18 þús. krónur í rekstrarstyrk, en úr ríkissjóði hafa verið greiddar árlega 2-3000 krónur. Kennaraskólinn mundi því verða álíka dýr fyrir bæjarsjóð og gagnfræðaskóli Reykvíkinga. Ég sé því enga ástæðu á móti því, að hér í bænum komi þriðji gagnfræðaskólinn, því fremur sem hann verður eingöngu fyrir konur. Síðustu árin hefir kvennaskólinn ekki verið annað en gagnfræðaskóli fyrir reykvískar stúlkur, og úr því að bæjarfélagið hefir fremur kosið að stofna hér nýjan skóla, heldur en að stækka hinn lögákveðna gagnfræðaskóla í bænum, þá er heldur ekkert á móti því, að bærinn sjái sóma sinn í því að borga kvennaskólanum rekstrarkostnað fyrir sínar eigin stúlkur.

Það getur verið, að sumir líti þannig á, að kvennaskólinn sé að einhverju leyti sérfræðiskóli fyrir stúlkur, en ég mótmæli því gersamlega, því að skólinn hefir aðeins haldið uppi tveimur matreiðslunámskeiðum á ári, sem hvort fyrir sig hafa staðið í 4 mánuði. En þeim má vitanlega koma undir fyrirmæli laganna um styrk til námskeiða úr ríkissjóði. - Ég vil benda á það í þessu sambandi, að við héraðsskólana hafa oft verið haldin ýmiskonar námskeið íþróttum, matreiðslu o, fl., sem notið hafa styrks úr ríkissjóði, og haft þeir ekki verið kallaðir sérskólar þrátt fyrir það. - Í kvennaskóla Reykjavíkur hafa að öðru leyti verið kenndar almennar námsgreinar, íslenzka, danska, saga, reikningur, náttúrufræði o. s. frv.; að vísu hefir þar einnig verið kennt eitthvað í handavinnu. En smíðar fyrir pilta og ýmiskonar handavinna fyrir stúlkur hefir einnig verið kennt við héraðsskólana, eftir því sem húsrúm hefir leyft. Sú röksemd nær því alls ekki til kvennaskóla Reykjavíkur, að hann sé sérfræðiskóli fyrir stúlkur, eins og húsmæðraskólarnir á Hallormsstað, Laugum, Blönduósi og Staðarfelli. En þeir eru réttnefndir sérfræðiskólar kvenna, einkum í verklegum efnum. Hinsvegar er kvennaskólinn alveg hliðstæður héraðsskólunum og gagnfræðaskólum kaupstaðanna.

Ég gæti skilið mótspyrnu einstakra þdm. gegn þessari till., ef farið væri fram á að rýra að einhverju leyti kosti kvennaskólans, en svo er ekki. Hér er aðeins farið fram á að leiðrétta villu, sem ríkt hefir síðustu árin um rekstur skólans. Þegar kvennaskólinn var stofnaður fyrir 50 árum síðan, áttu konur yfirleitt ekki aðgang að öðrum skólum. Ég hygg, að þær stúlkur, sem ólust upp t. d. á heimilum efnamanna hér í bænum, hafi ekki átt þess kost að fara í menntaskólann, eins og bræður þeirra; þá var það ekki venja. Nú er þetta gerbreytt fyrir nokkrum árum síðan. Nú eiga konur aðgang að öllum skólum jafnt og karlmenn; gagnfræðaskólum, iðnskólum og verzlunarskólum o. s. frv. Og þá er kvennaskólinn orðinn unglingaskóli fyrir Reykjavíkurbæ. Hann er að nokkru leyti eins og forngripur frá þeim tíma, er konur voru réttlausar í þessu efni, og hefir nú ekki sérstakt verksvið. Skólanum hefir verið haldið vel við af myndarlegri skólastjórn og reksturinn verið í góðu lagi. En sú breyt., sem hér er fyrirhuguð, er einungis mjög eðlileg, úr því að skólinn er ekki sérmenntaskóli og konur þurfa ekki á honum að halda sem slíkum, og úr því að þær hafa aðgang að öllum öðrum skólum til jafns við pilta, þá er kvennaskólinn aðeins gagnfræðaskóli fyrir Reykvíkinga, sem ríkissjóður á vitanlega að veita styrk til, þó ekki meira en til gagnfræðaskólans sjálfs. - Það virðist óþarft, að borgarar höfuðstaðarins séu að afneita dætrum sínum og fara fram á óeðlilegar gjafir frá ríkinu til þess að greiða námskostnað þeirra. Bæjarfélagið á að bera hann sjálft að sínum hluta.

Ég hefi þá lýst hverri einstakri till. fyrir sig, sem hér liggja fyrir frá fjvn. Það var fullt samkomulag í n. um flestar þeirra. En eins og till. um að hætta að prenta Alþt. og spara á kostnaðinum við Alþingi féll, af því að einn þingflokkurinn var henni andvígur, þá getur farið á sama hátt um síðustu till. af því að Sjálfstfl. er á móti henni. En þó að einn flokkur hafi algerlega neitað um þann sparnað, sem kostur er á með breyttu fyrirkomulagi þingtíðindanna, samkv. till. meiri hl. fjvn., áleit ég rétt, að það kæmi í ljós við atkvgr. í þinginu, hverjir vilja bera ábyrgð á þeim óþarfa kostnað við þingtíðindin. Á sama hátt álít ég rétt, að það sjáist við atkvgr., hverjir vilja neita um þann sparnað, sem felst í síðustu till., af því að hún verður ekki felld með rökum, heldur með atkvæðamagni.