13.12.1935
Efri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (3100)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Magnús Guðmundsson:

Ég skal byrja með því að segja svipað og hæstv. atvmrh., að mér þykir þetta frv., sem í byrjun var svo fyrirferðarlítið, ætla að fara að verða nokkuð langt og líka ósamkynja. Skal ég svo svara hv. 4. landsk. viðvíkjandi þingtíðindunum. Honum finnst það vera ákaflega miklum vandkvæðum bundið að hætta prentun þeirra og ber oss saman vita önnur lönd í því efni. Þar er því til að svara, að þar er þessu hagað þannig, að haldi maður ræðu í dag, liggur prentað uppkast eða próförk að henni við sæti manns á morgun, og þar er það látið liggja einn eða tvo daga. Sé það ekki leiðrétt á þeim tíma, er það tekið og fullprentað. Auk þess fást ekki aðrir við þingskriftir þar en viðurkenndir hraðritarar og þingtíðindin koma út í hverri viku, nokkrar arkir í einu, eftir því hvað mikið er talað. Hér er það aftur á móti þannig, að frá þinginu, sem hófst 15. febrúar í fyrra vetur, er ekki farið að prenta einn einasta staf af umr. Umræðuparturinn kemur þannig ekki út fyrr en einu eða tveimur árum ettir að ræðurnar eru haldnar, og þá eru allt önnur mál komin upp á teninginn, sem vekja áhuga í landinu, svo enginn hefir lengur „interessu“ fyrir þessum gömlu umræðum. Þegar svo þar við bætist, að þingræðurnar eru prentaðar að mestu leyti eins og skrifararnir ganga frá þeim, með einstaka leiðréttingum á málvillum og þessháttar, þá er heldur lítið orðið á þessu að byggja.

Ég skal svo ekki þræta meira um þetta atriði, en snúa að brtt. á þskj. 755 og 794, frá hv. þm. S.-Þ. Það er alveg rétt, sem hann hefir tekið fram um brtt. á þskj. 755, að meiri hl. fjvn. stendur á bak við hverja þeirra fyrir sig, en þó ekki alltaf sömu mennirnir. Þar af leiðir, að ekki er hægt að búast við, að allir nm. greiði öllum till. atkv.; e. t. v. eru sumir hlutlausir, en sumir munu greiða atkv. á móti einhverju af till.

Ég býst við, að það verði alveg samkomulag um brtt. þá, sem hæstv. fjmrh. flytur; þar er aðeins að ræða um færslu milli liða, sem ég get viðurkennt að er til bóta, og þarf því ekki að fjölyrða um það atriði. Ég fyrir mitt leyti verð að segja það viðvíkjandi 4. brtt. á þskj. 755, um niðurfærslu á embættiskostnað presta, að mér finnst ákaflega hart að gengið að lækka þann lið um helming nú, þegar vitað er, að prestar landsins eru verr launaðir heldur en kolamokarar á fiskiskipi. Ég Held, að það hafi ekki neinn liður verið skorinn eins harkalega niður eins og einmitt þessi.

Þá vil ég benda á það, að við 10. brtt. á sama þskj. flyt ég skrifl. brtt., sem aðeins fer fram á að leiðrétta ranga tilvitnun til l. Það er mér að kenna, að þessi ónákvæmni komst inn í till., því ég mundi ekki eftir, að þau l., sem þarna er vitnað til, voru endurskoðuð og prentuð upp í heild árið 1933, og gengur skriflega brtt. aðeins út á, að vitnað sé til þeirra nýju laga í stað hinna gömlu.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 794. Um þær get ég að mörgu leyti tekið undir það, sem hæstv. atvmrh. sagði. Um 1. brtt. viðhafði hæstv. ráðh. nákvæmlega sömu orð sem ég hafði viðhaft um hana í fjvn. Sparnaðurinn, sem af þessu mundi leiða, yrði mjög lítill á árinu 1936, og ég álít, að það væri miklu heppilegra að koma með till. í þessa átt á þingi í vetur, sem þá væri betur undirbúin og fram borin að meira athuguðu máli heldur en þessi óneitanlega er. Þó sé ég raunar ekki, að það spilli neinu, þó þessi till.samþ. nú. En ég er sannfærður um, að málið verður samt sem áður tekið upp á næsta þingi í vetur til frekari athugunar, og þá nánari ákvæði um þetta sett, svo samþykkt þessarar till. yrði eiginlega ekki annað en ábending til hlutaðeigenda um, að þetta mál þyrfti athugunar við fyrir næsta þing, og með þeirri „motiveringu“ gæti ég verið samþykkur till., en ekki af því, að ég búist við nokkrum sparnaði af henni fram yfir það, sem yrði þó hún væri ekki samþ. fyrr en á næsta þingi, því skólahaldi þessa árs, sem stendur fram í maí, mun þegar rástafað að öllu leyti.

Það má vera, að það sé rétt, að ekki verði mikill sparnaður að því að fela rafmagnseftirlitið landsímanum, en n. hefir áður skotið því til hæstv. stj., hvort ekki væri rétt að gera þessa breyt., og hefir þá álitið, að þannig mætti koma þessu eitthvað ódýrara fyrir.

Viðvíkjandi till. um sölu varðskipanna hefi ég ekki annað að segja en það, að hún fer ekki fram á annað en heimild til handa ríkisstj. til þess að selja eða leigja þessi skip; hún getur selt sum og leigt sum, eða látið það vera, allt eftir því, hvernig kjör bjóðast. Mér finnst ekki rétt að sæta neinum smánarboðum í þessi skip, hvorki eitt þeirra né neitt, það sé þá betra að eiga þau heldur eitt árið enn; en ég er með því að selja hvert þeirra sem er, ef almennilegt verð fæst.

Þá er 4. brtt. um niðurfellingu 1. bekkjar kennaraskólans. Þar um er það að segja, að einn af kennurum skólans á sæti í fjvn., og hafði hann ekkert við till. að athuga. Það er auðsætt, að eitthvað dálítið hlýtur að sparast við að leggja niður þennan bekk. En af því leiðir vitanlega það að gera verður allstrangar kröfur til þeirra, sem ganga inn í 2. bekk.

Um 5. brtt., viðvíkjandi takmörkun á tölu nemenda, sem teknir eru inn í deildir háskólans, er það að segja, að engan sparnað leiðir af henni í næsta ári. Hvað síðar kynni að verða, skal ég ekki segja, en hitt er víst, að hér er farið út fyrir þau takmörk, að draga úr útgjöldum mesta árs með bráðabirgðabreytingum.

Þá er 6. brtt. í n. var ég mótfallinn því að hætta að hafa prófdómara við skóla yfirleitt, en hinsvegar munu mínir flokksmenn ekki vera mér sammála í því efni, a. m. k. ekki allir. Ég tel ekki heppilegt að hindra það, að skólar hafi utanskóla prófdómendur, því ég álít, að það geti verið gott fyrir hvern skóla. Það er einnig trygging fyrir nemendurna í því fólgin, að utan að komandi menn séu prófdómendur, því það kemur ekki svo sjaldan fyrir, að nemendur verða ósáttir við einstaka kennara, sem þá ef til vill vilja ná sér niðri á nemendum þeim, sem í hlut eiga, og er þá gott tækifæri til þess við próf. Réttur nemenda er óneitanlega betur tryggður, ef utanskólamenn eru prófdómendur, auk þess sem það er líka betra fyrir skólann sjálfan, ef prófdómendurnir bera honum vitni um góða kennslu. Ég greiði því atkv. á móti þessari brtt., þar sem ég tel hana til hins verra.

Þá er 7. liður brtt., sem ég er algerlega mótfallinn. Hann er svo langt utan við þann ramma, sem frv. er sniðið eftir, að það er þá eins hægt að seilast til hvaða löggjafar sem er á þennan hátt, ef hann er samþ. Mér skildist á hv. Inn. S.-Þ., að þetta ákvæði viðvíkjandi kvennaskólanum ætti að hans áliti aðeins að gilda árið 1936, en ég vil benda honum á, að till. byrjar þannig: Frá 1. júlí 1936 gilda um kvennaskólann í Reykjavík o. s. frv. Það er alveg ótakmarkað hvað lengi, svoleiðis að þetta hlýtur að eiga að gilda áfram. Svo þykir mér hv. þm. nokkuð djarftækur til atkv. í n., þegar hann er að skýra frá, hverjir fylgi till. Ég man, að hann spurði báða flokksmenn sína í n., hvort þeir væru með þessari till., annar lét í ljós, að hann kynni að verða með henni, en hinn sagðist vera mjög smeykur við hana. Engin atkvgr. fór fram. Það er vitað, að 4 nm. eru á móti þessari brtt. (JJ: Eins og ég sagði frá). Já, það var til sinna flokksmanna, sem ég átti við, að hv. þm. hefði verið djarftækur, en hann veit nú kannske, hvað hann má bjóða sér í þeim efnum. Ég tel mjög hæpið, að meiri hl. fjvn. standi bak við þessa till. Það skiptir að vísu ekki miklu máli, hv. þm. hefir vitanlega rétt til að flytja hér till., sem fjvn. er ekki samþykk, en ég vildi bara benda á það, að um þessa till. gegnir allt öðru máli heldur en hinar flestar eða allar.

Um innihald þessarar brtt. er það að segja, að samkv. henni flytjast 3/5 af kostnaðinum við kvennaskólann hér í Reykjavík af ríkinu yfir á bæjarsjóð Reykjavíkur, eins og hv. þm. tók líka fram. En eins og nú er heldur ríkið þessum skóla uppi að mestu leyti. Nú finnst mér það harla undarlegt, að setja slíka skólalöggjöf inn í þetta frv. Það lítur óneitanlega dálítið „komískt“ út, að þetta er viðaukatill. við frv. um útflutningsgjald, og svo er verið að gera með henni ákvörðun viðvíkjandi kvennaskólanum í Reykjavík. Þó þetta sé e. t. v. ekki veigamikil ástæða, þá er hitt veigameira, að hér er þverbrotin sú meginregla, sem sett er með l. um gagnfræðaskóla frá 1930. Þar er beinlínis gengið út frá, að í hverjum kaupstað skuli vera einn gagnfræðaskóli, og gagnfræðaskóli Reykjavíkur hefir þegar verið settur hér upp samkv. þeim l. En svo er hér annar gagnfræðaskóli, líka kostaður af bænum að mestu leyti, eða að því leyti sem rekstur hans byggist ekki á skólagjöldunum, sem eru mjög há. Sá skóli var settur á stofn hér vegna þess að hv. þm. S.-Þ. lokaði, er hann var ráðherra, að nokkru leyti menntaskólanum fyrir nemendum héðan úr Reykjavík. Ég segi þetta ekki honum til ámælis, en hann gerði þetta, og afleiðingin varð sú, að Reykvíkingar töldu sig til neydda að setja upp annan skóla, sérstaklega til þess að undirbúa menn undir menntadeild menntaskólans. Þetta er því skóli, sem hefir allt annað markmið heldur en aðrir gagnfræðaskólar, og ég skal ekki um það þrátta, hvort rétt er að kalla hann gagnfræðaskóla eða ekki, en hitt er óumþráttanlegt, að hann er sniðinn fyrir allt annað markmið og kennir þar af leiðandi annað heldur en aðrir gagnfræðaskólar, þar sem hann á að annast undirbúning undir ákveðið framhaldsnám, og er settur upp á kostnað Reykjavíkurbæjar til þess. Ef þessi skóli á að ganga undir gagnfræðaskólaheitinu, þá eru hér tveir gagnfræðaskólar, sem Reykjavík heldur uppi. Nú kemur hv. þm. S.-Þ. og vill heimta af Reykjavíkurbæ, að hann haldi uppi þriðja gagnfræðaskólanum. Þetta finnst mér ekki sanngjarnt, nú á elleftu stundu og án nokkurs undirbúnings. Ég hygg, að í kvennaskólanum séu fleiri nemendur utan af landi hlutfallslega heldur en í öðrum skólum hér. Svo er annað, og það er það, að þessi skóli lifir ekki eingöngu af því fé, sem hann fær frá ríkinu. Hann hefir há skólagjöld; ég hefi ekki leitað mér upplýsinga um, hvað þau nema mikilli upphæð, - það gæti ég gert, ef umr. verður frestað, sem ég geri ráð fyrir; en ég hygg, að það sé ekki undir 10 þús. kr., sem þessi skóli fær inn í skólagjöldum; þau eru sem sé hærri þar heldur en við gagnfræðaskólana.

Ég álít, að ef fara ætti einhverja svipaða leið og hér er lagt til, þá væri rétt, eins og hæstv. ráðh. drap á, að taka málið á miklu breiðari grundvelli og athuga t. d., hvort ekki væri hægt að hafa einn stóran gagnfræðaskóla fyrir Reykjavík. Hitt kemur mjög svo ankannalega við, að bæta við l. um gagnfræðaskóla, þar sem stendur, að gagnfræðaskólarnir skuli vera samskólar, að hér í Reykjavík skuli vera annar skóli eingöngu fyrir kvenfólk. Svo er það, að þetta ákvæði á ekki að öðlast gildi fyrr en 1. júlí næstkomandi, en þá verður næsta þing vitanlega hjá liðið, þannig að ég sé ekki, að þessari brtt. liggi nokkurn skapaðan hlut á. Það er e. t. v. gott, að hún kom fram, til þess að sýna hug hv. þm. S.-Þ. í þessu efni, en hún getur ekki haft hina minnstu þýðingu fyrir tímabilið frá lokum þessa þings og til loka næsta þings, og frá formsins sjónarmiði skilst mér till. vera óframbærileg. Ég mun því greiða atkv. á móti þessum lið brtt., og reyndar líka sumum öðrum af þessum till., en verði hann samþ., munu a. m. k. renna á mig tvær grímur um það, hvað ég á að gera uni frv. í heild sinni á eftir.