16.12.1935
Efri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2144 í B-deild Alþingistíðinda. (3106)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Það hefir verið sagt um þetta frv., að því væri líkt háttað og bandorminum, að fyrst hafi verið lítill haus, og svo hafi margir liðir myndazt. Liðirnir eru nú orðnir 16 alls, að því er mér skilst, á eftir litla hausnum, og er fyrirsögnin um útflutningsgjald, en síðasta till. er um kvennaskólann í Rvík, og gætu menn fljótt á litið ímyndað sér, að hér væri um útflutningsgjöld af stúlkunni að ræða. Um þann lið hefir nokkuð verið talað, og ætla ég ekki að koma inn á það.

Ég ætla, að það verði ekki hjá því komizt að gera nokkra breyt. á þeim lið, sem fjallar um prófdómendur við ríkisskólana, ef frv. á fram að ganga. Ég teldi það óforsvaranlegt að hafa ekki prófdómendur við stúdentspróf og gagnfræðapróf, því þau próf veita mikil réttindi, og ég lét ekki, að nægileg trygging fást í þeim prófum nema prófdómendur utan skólanna standi líka að þeim. Að öðru leyti má ná þessum sparnaði, sem hér er um að ræða, með einfaldri stjórnarráðstöfun kennslumálaráðh. Mér skilst það á hæstv. ráðh., að honum væri það ekki fjarri skapi að koma á sparnaði í þessu efni, eftir því sem fært þætti. Og þar sem nánari ákvæði um tilhögun prófanna eru ekki í l., heldur í reglugerð, þá mætti ætla, að þessu mætti ná með bráðabirgðabreyt. á reglugerðum skólanna, og mætti þá koma því fram, sem ætlizt er til með þessum lið.

Um takmörkun á tölu nýrra nemenda í einstökum deildum háskólans ætla ég ekki að ræða. Ég efast um, að nokkrum verulegum sparnaði megi ná með þessu ákvæði í 5. lið á þskj. 794.

Með því að leggja niður 1. bekk kennaraskólans finnst mér, að mætti koma við nokkrum sparnaði. Og ef sá kennari skólans, sem á sæti í fjvn., er því meðmæltur, þá ætti að mega taka nokkurt tillit til þeirrar heimildar.

Ég get að mörgu leyti verið samþykkur 3. lið á þskj. 791. Hv. 4. þm. Reykv. benti á, að þau ákvæði, sem eru í þál., sem samþ. var í Sþ. fyrir skömmu, myndu nægileg í þessu efni.

Um 2. lið á sama þskj. verð ég að segja það, að mér er ekki ljóst, hvort þar er um nokkurn sparnað að ræða, þó að hann yrði samþ. Ég ætla, að þó að eftirlitið falli undir landssímann, þá verði að hafa sömu starfsmenn, ef það á ekki að falla niður með öllu. Það er ef til vill ekki loku fyrir það skotið, að síminn reikni sér þóknun fyrir eftirlit með jafnóskyldu starfi.

Um 1. liðinn á sama þskj. skal ég ekki eyða neinum orðum. Hæstv. kennslumálarh. hefir bent á vankantana, sem verða á því í framkvæmdinni, og það liggur líka fyrir þinginu frv., sem hnígur í svipaða átt. Og það frv. er borið fram með það fyrir augum, að jafnframt því, að skólar eru reistir, þá verði svona fyrirkomulag í þessu efni gert mögulegt.

Um 10. lið á þskj. 755 er það að segja, að ég ætla, að sýslurnar treystist yfirleitt ekki til að leggja fram öllu hærra gjald en þar er gert ráð fyrir til sýsluvegasjóða, og get ég því verið þeim lið samþykkur að því leyti. En ef svo vill til, að svo bráð þörf er á um lagningu sýsluvegar í einhverri sýslu, að hún vill leggja á sig hærra gjald, þá er að vísu ekki sanngjarnt að neita viðkomandi sýslufélagi um lögbundinn styrk á móti.

9. liðurinn á þskj. 755 er um það, að á árinu 1936 leggi ríkissjóður ekki fram fé til bókakaupa prestakalla. Ég get ekki skilið, að þetta eigi að gera í sparnaðarskyni, þar sem ekki er um að ræða öllu meira en 1-2 þús. kr. á ári. Og stundum hefir það verið minna, eins og t. d. eitt árið, þá var það ekki nema rúmar 300 kr., og það munar því ekki mikið um þessa sparnaðartill. En hinsvegar er það hart, ef prestur býðst til þess að leggja fram 1/4 af andvirði bóka, sem keyptar eru til þess að koma upp bókasafni í prestakalli hans, að þá sé honum neitað um framlag úr ríkissjóði á móti. Ég veit um eitt bæjarfélag, sem hefir boðizt til þess að leggja fram nokkra upphæð úr bæjarsjóði, til þess að mögulegt væri að auka slíkt bókasafn hjá því. Þetta sýnir, að jafnvel utan prestastéttarinnar er nokkur áhugi fyrir slíkum bókasöfnum. Þessi bókasöfn hafa verið smávaxin hingað til, en þau ættu að geta stækkað.

Um lækkunina á styrk til áburðarkaupa, sem um ræðir Í 8. lið á þskj. 755, vil ég taka það fram, sérstaklega eftir að borin hefir verið fram brtt. frá ríkisstj. um að lækka hann enn meira, eða niður í 28 þús. kr., að mér virðist þá nokkuð nærri gengið. Þar sem þingið hefir ekki viljað fallast á, að bændur væru styrktir til þess að koma upp betri áburðargeymslum en þeir hafa haft, svo að þeir gætu betur hagnýtt sér hin innlendu efni, sem notuð eru til áburðar, þá finnst mér það vera nokkuð kuldalegt sem að lækka styrkinn til þess að afla áburðar með þessu móti.

Um lækkunina á fjárframlögum til búfjárræktar er hið sama að segja, en þar er bót í máli, að hæstv. fjmrh. hefir lagt til í brtt. við þennan lið, að styrkurinn sé ekki lækkaður meira en niður í 42 þús. kr., og mætti þá ætla, að ekki væru skertir aðrir liðir til búfjárræktarinnar en það, sem gengið hefir til sýninganna. Og ef svo er, þá má kannske við það una.

Ég hafði ætlað eftir þau orð, sem fallið hafa hjá hæstv. ríkisstj., að hún myndi ekki lækka aftur styrkinn til verkfærakaupa, en svo er lagt til í 6. lið á þskj. 755. Við lauslega athugun virðist mér, að sú lækkun, sem þar er lagt til að verði gerð, muni nema eitthvað yfir 20 þús. kr., og munar hún því allmiklu.

Um það, að fella niður starf gengisnefndar og launagreiðslu til hennar, hefi ég ekkert annað að segja en það, að mér hefði þótt betur við eiga, að l. um gengisnefndina hefði verið breytt svo, að fulltrúar frá atvinnuvegunum hefðu haft þar atkvæðisrétt og að þeir hefðu haft áhrif á gengisskráninguna. En eins og tilhögun gengisnefndar er nú, þá er ef til vill ekki skaði að því, þó starf hennar sé fellt niður.

Þá er 4. liður á þskj. 755, en hann er um það, að fella niður embættiskostnað sóknarpresta um hér um bil helming. Það er fært sem ástæða fyrir þessu, að þetta séu ný lög. Þessi l. eru ekki eldri en frá árinu 1934. En það mun ekki almennt álitið, að ný l. hafi minni rétt á sér en gömul l., enda ættu þau að vera síður úrelt og, meira miðuð við ástand nútímans en eldri l. Um embættiskostnaðinn sjálfan er það að segja, að upphæðin mun hafa verið byggð á útreikningi þeim, sem fylgdi frv. frá höndum kirkjumálanefndar, þegar það var borið fram á þingi 1930. En sú grg., sem þar kom fram, var samin af séra Jóni Guðnasyni og séra Sveinbirni Högnasyni, og munu þeir hafa stuðzt við reynslu þá, sem þeir sjálfir höfðu um embættiskostnaðinn. Og það má sjá það af nál. því, sem fram kom, þegar um málið var fjallað á þinginu 1931, að n. hefir fallizt á þá grg. og farið eftir henni. Samkv. þeim upplýsingum, sem þar komu fram, var sýnt, að embættiskostnaðurinn í meðalprestakalli er yfir 500 kr., og meiri í erfiðum prestaköllum. Ég hygg, að það liggi fyrir fjvn. upplýsingar um það, að í einu erfiðu prestakalli norðanlands hafi embættiskostnaður 2-3 undanfarin ár numið talsvert á annað þús. kr. Það virðist ekki neitt meiri sanngirni að fella niður nærri helming af embættiskostnaði presta heldur en af þingfararkostnaði okkar þm. Og því síður er ástæða til þess, þar sem þar er játað af flm., að laun þeirra manna, sem í hlut eiga, eru ekki há. Byrjunarlaun flestra presta eru 2000 kr., og hækka svo á 15 árum upp í 3000 kr. Ég ætla, að ekki séu aðrir lægra launaðir, miðað við námskostnað og námstíma, sem mun vera 10-11 ár. Það hefir nýlega verið á það bent, að aðsókn að guðfræðideild háskólans sé of lítil. Það er kunnugt, að það, sem aðallega hefir valdið því, að aðsóknin hefir minnkað, eru hin lágu launakjör presta, sem fæla stúdenta frá því að ganga inn á þá braut. Það hefir ekki verið hægt að komast hjá því um ýmsa aðra embættismenn, svo sem lögreglustjóra o. fl., að endurgreiða þeim kostnað þann, sem fylgir embættunum. Það er ekki meiri sanngirni, að fella niður embættiskostnað presta en að fella niður embættiskostnað sýslumanna eða hliðstæðra embættismanna.

Um þá till., að dýrtíðaruppbót sé greidd eftir sömu reglum árið 1938 og árið 1935. vil ég taka það fram, að þar sem hagur ríkissjóðs er erfiður, þá get ég fallizt á þá till. Þótt þessi ákvæði gefi hinsvegar ríkisstj. hina glöggustu áminningu um að gæta þess, að laun annara manna, sem ekki taka laun eftir launalögum ríkisins, en eru þó í opinberri þjónustu, séu færð til samræmis við þau laun, sem menn fá samkv. launalögunum, þegar dýrtíðaruppbótin fellur að mestu niður á öllum hærri launum.

Um það, að leggja niður framlag úr ríkissjóði til ræktunarsjóðs, vil ég segja það, að ég tel þann sjóð tæplega mega við því að missa þetta gjald, eins og nú er högum háttað, en það verður kannske að líta á fleira en þörf ræktunarsjóðs í þessu efni. En um 3. lið brtt. á þessu sama þskj., prentun þingtíðindanna, verð, ég að segja það, að ég hefi haft mikla freistingu til þess að vera með þeirri till., sparnaðarins vegna, og ekki sízt með þeirri till., sem hæstv. fjmrh. hefir borið fram um þetta efni, en hinsvegar verð ég að játa, að ég hefi að nokkru leyti látið sannfærast fyrir hin skýru rök, sem hv. 4. landsk. las hér upp úr ræðu eftir hv. þm. S.-Þ. um þetta efni.