16.12.1935
Efri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (3109)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Það hefir verið talað um, að meðferð þessa máls sé einkennileg, þar sem við þessa einu gr. er tengdur svo langur hali. Ég vil hreyfa hér svipuðum aths. eins og ég gerði við annað mál, sem svipað stóð á um, því að við það var í rauninni tengt alveg nýtt mál með brtt., og taldi ég slíkt höggva nærri ákvæðum stjskr. um það, að hvert lagafrv. skuli ræða í 3 umr. í hvorri deild. En það verð ég að segja, að í meðferð þessa frv. hér enn meira á þessari óþinglegu aðferð, og man ég ekki eftir því, að nokkurntíma hafi átt sér stað jafnfrekjuleg meðferð á frv. eins og á þessu. Við þetta frv. eru tengdir fjölmargir liðir, sem allir orka miklu meir tvímælis en hið upphaflega efni frv. sjálfs. En það er ekki nóg með það, heldur er l. breytt í ný l., þar sem frv. er um breyt. á l. nr. 63 28. jan. 1935, um útflutningsgjald, en á að verða breyt. á l. nr. 85 26. apríl 1935, um bráðabirgðabreyt. nokkurra laga. Það er að vísu ekki tekið fram í stjskr., hvað brtt. megi vera víðtækar, en ég hygg þó, að tilgangur stjskr. með því að ákveða 3 umr. um hvert frv. í hvorri deild hljóti að vera sá, að fullkomlega ný mál verði að ræða á þann hátt, sem stjskr. gerir ráð fyrir. Og ætti að fylgja ákvæðum stjskr., þá hygg ég, að hæstv. forseti ætti að vísa þessu máli frá, eða a. m. k. að bera það undir þingið, hvort slík brtt. sem þessi skuli leyfð. Ég er ekki lögfróður maður og skal því ekki skera úr því, hvar draga á takmörkin í þessu efni, en mér er það ljóst, að einhversstaðar hljóta þessi takmörk að vera, en frá mínu leikmannssjónarmiði finnst mér eðlilegt, að þessi takmörk séu við það miðuð, að frv., sem eiga að vera breyt. á einhverjum vissum lögum, séu í raun og veru breyt. á þessum sömu lögum; minna má ekki vera.

Um einstök atriði og brtt., sem fyrir liggja, er búið að segja flest af því, sem ég mundi hafa kært mig um að taka fram. Viðvíkjandi till. um prentun þingtíðindanna, sem ég býst við, að sé fallin úr sögunni eftir atkvgr. um fjárl., vil ég taka það fram, að ég hefi alltaf verið efablandinn í því, hvað gera ætti í þessu efni, en ég get sagt það, að það er eitt atriði í þessu máli, sem ég tel mjög stórt atriði, og það er það, að með því að fella niður prentun þingtíðindanna setjum við okkar þing á dálítið annað stig heldur en löggjafarþingin í nágrannalöndunum eru á; og það er ekki þýðingarlaust fyrir álit þingsins. Samt hefi ég við atkvgr. um fjárl. fallizt á þessa till., bæði af sparnaðarlegum ástæðum og eins af hinu, að ég er þeirrar skoðunar, að þingtíðindin yrðu betri heimildir en áður, ef umræðuparturinn væri felldur burt. Byggi ég þessa skoðun ekki á vantrausti á því, hvernig ræðum þm. er náð af skrifurum, eða á því, hvort þm. leiðrétta ræður sínar - ég hefi ekki leiðrétt mínar ræður í nokkur ár -, heldur byggi ég þessa skoðun mína á eigin reynslu við að nota þingtíðindin. Ég hefi tvisvar átt kost á því að fara í gegnum þingtíðindin frá því að þingið var endurreist og fram á þennan dag í sögulegum tilgangi viðvíkjandi banka- og kirkjumálum. Við þá rannsókn duldist mér ekki hinn mikli munur á pörtum þingtíðindanna sem sögulegum heimildum. Skjalaparturinn er stutt, en ákveðin, örugg og mikilsverð söguleg heimild, en umræðuparturinn er hinsvegar ótrúlega lítils virði. Framsöguræður og ef til vill einstakar aðrar ræður geta orðið nokkurs virði, en yfirleitt eru ræðurnar sumpart endurtekningar á grg. frv. eða nál. að meira eða minna leyti, og sumpart eru svo miklar umbúðir utan um þetta og svo mikið umstang við að fara í gegnum þetta, að umræðuparturinn verður óhjákvæmilega afarlítils virði. Ég hefi líka athugað þetta í öðru sambandi; ég hefi lesið ræður mælskra þm., eins og t. d. Benedikts Sveinssonar, og vil ég skora á hvern þann, sem vill kynnast mælsku hans, að lesa ræður hans og finna, hversu mælskur hann hefir verið. Það myndi engum detta í hug eftir þá rannsókn, að þessi viðurkenndi mælskumaður hafi verið vel máli farinn. Þetta getur hafa stafað af því, að hann hafi talað hart og verið erfitt fyrir þingskrifara að ná ræðum hans niður.

Ég skal ekki segja, hvort mjög mikill sparnaður fengist við það að hætta að prenta umræðupartinn, en hafa í þess stað ýtarlegri grg. og nál., en ég er sannfærður um, að þingtíðindin yrðu miklu merkilegri söguleg heimild við það heldur en þau eru nú. En þá kem ég að því stóra atriði, sem alltaf er verið að tala um, og það er það, að með þessu sé verið að loka þinginu fyrir þjóðinni, og að kjósendur úti inn land eigi ekki kost á að sjá, hvernig fulltrúar þeirra hafa snúizt við málunum. Mér finnst þessi ástæða fara að verða nokkuð brosleg við hliðina á þingskapabreytingunni, sem gengur út á að loka munninum á öllum þingheimi. Það finnst engum neitt við það að athuga, þótt fram sé borin till. um breyt. á þingsköpum, sem hefir tað í för með sér, að það er aðeins einn frsm. fyrir hvern flokk, sem fær að tala í málum. Hvernig eiga kjósendur að kynna sér undirtektir sinna fulltrúa, ef þm. er bannað að taka til máls. Í nágrannalöndum okkar er þessu þannig háttað, eins og kunnugt er, að í öllum stærri málum talar aðeins einn maður fyrir hvern flokk, venjulega flokksforinginn, en í öðrum smærri málum bendir flokkurinn á frsm., en aðrir fá ekki að tala. Hvar eru þessi opnu þing? Ég sá það að vísu í einhverju blaði bæjarins nýlega, að þingskrifarar væru allt eins góðir fulltrúar fyrir þingið eins og þm. sjálfir. En hvað eiga þingskrifararnir að skrifa, ef þm. fá ekki að tala? Eiga þeir að búa til ræður fyrir þá þm., sem ekki fá að tala af því að þingsköp banna þeim það? Það getur verið. Ég efast ekki um, að margir þingskrifarar gætu vel reifað mál, en ég er hræddur um, að mönnum líkaði ekki vel, að þingskrifararnir semdu ræðurnar alveg. Ég get ekki samrýmt þetta tvennt; annarsvegar hneykslast menn á því, að það eigi að loka þinginu með því að hætta að skrifa þingræður, en hinsvegar finnst mönnum ekkert athugavert við þá breyt., sem farið er fram á að gera á þingsköpunum, þótt vitanlegt sé, að við það er munni þm. að mestu lokað. En ég verð að segja, að ég held, að flestir þm. hafi það sterkt traust hjá kjósendum sínum, að þeir trúa einhverju af því, sem þeir segja á þingmálafundum; annars mundu kjósendur varla trúa því, sem stendur í þingtíðindunum. En fyrir mér er það sem sagt stórt atriði, að þingið skuli ekki geta tollað í þessari tízku, sem hér um ræðir, því að það er einu sinni svo, að það er dálítið litið á hlutina eftir því, hver siður er í hverju landi, og það væri hálfleiðinlegt, ef Alþingi Íslendinga væri skoðað sem einskonar hreppsnefnd, sem ekki prentar umr. sínar, eins og tíðkast á öðrum löndum. En nú er þessi ótti óþarfur, því að þessi till. um niðurfellingu í prentun umræðupartsins hefir verið felld við atktvgr. um fjárl., og mun eiga að prenta þingræður áfram, þótt flestir séu sammála um, að þingtíðindin séu sára lítils virði eins og þau eru nú. Það þarf einkennilegt upplag til þess að geta verið að blaða í þingtíðindunum, sem koma út ári eftir að umræðurnar hafa verið haldnar og eftir að ný mál eru komin á dagskrá, svo að enginn hefir lengur í huga það, sem í þingtíðindunum stendur. Eigi að prenta umræðupartinn áfram, þarf að taka upp nýja aðferð. Sú aðferð ætti að vera fólgin í því, að þingræðurnar verði prentaðar jafnóðum. Engin nauðsyn hér til þess, að hvert mál sé haft út af fyrir sig, heldur koma ræðurnar í tímaröð. Góð og ýtarleg registur ættu að gera fært að rekja hvert mál. Með þessu móti yrði vitanlega ekki hægt að raða þingmálunum niður í rædd mál og óútrædd, samþ. og ósamþ., enda er sú skipting ekkert sáluhjálparatriði. En á þennan hátt gætu þingræðurnar orðið einskonar tímarit, sem út kæmi síðari hluta þings. Þingmenn leiðréttu miklu frekar en áður, ef ræðan væri lögð fyrir þá í próförk eftir 2-3 daga, og þeir vissu, að ræður þeirra yrðu lesnar. Nú vita þeir, að ræður þeirra eru ekki lesnar, og þess vegna leiðrétta þeir ekki. Ég hefi áður stungið upp á þessu fyrirkomulagi, en ekki fengið áheyrn. Því hefi ég hallazt að þeirri skoðun, að réttast væri að fella umræðupartinn niður, bæði til þess að spara og til þess að fá betri skjalapart en áður.

Viðvíkjandi því, sem hv. 10. landsk. sagði um niðurfellingu liðsins til bókasafna prestakalla, verð ég að segja, að ég tel þá till. svo hlægilega smávægilega, að ekki sé orðum að henni eyðandi. Styrk þennan hefir undanfarið sjaldnast verið hægt að skrifa með 4 tölustöfum.

Mér finnst það líka dálítið skrítin sparnaðarrástöfun, að ætla að leggja niður 1. bekk kennaraskólans. Það má auðvitað gera við hvaða skóla sem er, að skella aftan eða framan af honum nokkrum bekkjum. Það kostar nemendurna bara það, að læra utanskóla, sem oftast verður þeim dýrara og erfiðara. Það mætti alveg eins leggja til að hafa aðeins einn bekk í menntaskólanum, eða bara próf. Það hafa verið til háskólar, sem enga kennslu hafa haft, heldur aðeins próf. En slíkt hefir þótt gefast illa, og því fljótlega verið fallið frá því aftur. Ég sé ekki ástæðu til þess að taka hér kennaraskólann út úr. Hér er um kostnað að ræða, sem ekki verður komizt hjá, því að fráleitt fá nemendurnir utanskólafræðslu ókeypis.

Hv. þm. Dal. hefir minnzt í 7. brtt. Hvað sem um hana má segja, er þetta framtíðarbreyting á gömlum stórum og merkum skóla, sem ekki á heima í bráðabirgðalögum.

Ég skal ekki segja mikið um 5. brtt., sem gengur í þá átt að takmarka aðgang að deildum háskólans. Þetta mál var fyrir nokkru á döfinni í háskólanum sjálfum. Menn voru þá klofnir um það, og yfirleitt virtist það verða því óvinsælla sem meira var um það talað Hvað eiga líka þessir menn að gera, sem búnir eru að búa sig undir sérskólanám í 6 ár. Um árið var talað um nýjar leiðir - atvinnudeild, sem tæki við þeim stúdentum, sem ekki komast að í núv. deildum eða fýsti þangað ekki. En hvað skeður? Svokölluð skipulagsnefnd kemst í þetta mál og gerbreytir því og gerir úr öllu saman þessa rannsóknarstofu, sem tekur einhverntíma og einhverntíma til starfa, en stúdentar eru engu bættari en áður. Og svo kemur hér annað til greina. Hverjir eiga að velja stúdentana inn í deildir háskólans? Á að líta þá ganga undir inntökupróf, eða eiga einkunnir við stúdentspróf að ráða? Samkv. þeirri reglu hefði Niels Finsen verið vísað frá á sínum tíma. Gott stúdentspróf er ekki einhlítt til sérnáms, og segir sízt til um það, hvernig mönnum hefir notazt í náminu.

Hitt er mér vel ljóst, hvílík hætta getur stafað af offramleiðslu t. d. í læknadeild, vegna þess, hve þeir, sem þaðan útskrifast, eru einangraðir frá öðrum störfum eftir langt nám. Allt öðru máli gegnir um lögfræðingadeild. Þeim, sem þaðan koma, bjóðast mörg tækifæri, þótt þau séu ekki beinlínis í þessari sérgrein.

Ég held því, að framkvæmd þessa máls sé erfið, og sparnaðinn fyrir ríkissjóð af slíkri framkvæmd er mér ekki unnt að sjá. Ekki yrði hægt að fækka kennurunum, minnka húsnæði, né heldur lækka námsstyrki frá því, sem nú er. Ég verð að fá jafnmikið fyrir mína fyrirlestra, hvort sem ég held þá fyrir 15 eða 50 stúdentum. Kennslustofurnar þarf jafnt að hita upp, hvort sem stúdentarnir eru fleiri eða færri o. s. frv. Ef á nú líka að fara að blanda inn í þetta frv. ýmsu, sem alls ekki kemur sparnaði við, þá finnst mér nú skörin fara að færast upp í bekkinn. (JJ: Það mætti lækka húsaleigustyrkinn). Húsaleigustyrkurinn hefir ekki hækkað í sama hlutfalli og nemendum hefir fjölgað. Húsaleigustyrkur sá, sem nú er, væri því alls ekki of hár, hve mjög sem nemendum yrði fækkað. Stúdentar hafa að loknu námi flestir safnað skuldum, eytt beztu árum sínum og margir stórspillt heilsu sinni með áreynslu og óhollum húsakynnum. Kjör stúdenta verða því að breytast mikið til batnaðar til þess að hægt verði að lækka náms- og húsaleigustyrk stúdenta frá því, sem nú er.

Um prófin er það að segja, að mér finnst, að enginn herbrestur þyrfti að verða, þótt enginn prófdómari væri. Í Svíþjóð eru t. d. engin guðfræðipróf til í okkar merkingu. Lærisveinninn fer aðeins heim til prófessors síns, sem segir síðan til um það, hvort hann telur hann hæfan eða ekki. En hitt er auðvitað, að við aðalpróf, eins og stúdentspróf og burtfararpróf, vilja kennararnir gjarnan varpa af sér þeirri ábyrgð að úrskurða um próf nemenda sinna. Þannig er í sumum deildum háskólans enginn kennaranna prófdómari. Það fyrirkomulag getur að vísu verið gott, en þó held ég, að þessi brtt. sé nú ekki svo voðaleg, að ekki sé óhætt að prófa hana.

Brtt. hv. 4. þm. Reykv. við þessa brtt., um prófdómendur við burtfararpróf við menntaskólana, tel ég réttmæta og eðlilega.