19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (3118)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég á hér brtt. á þskj. 881 og eru þær sama efnis og brtt., sem fluttar voru við þetta frv. í Ed., en voru felldar þar við atkvgr.

Ég mun ekki, vegna þess hvað orðið er áliðið kvölds, lengja umr. um málið, en legg það til, að felldur verði niður 3. liður frv., um að fella niður prentun á umræðuparti Alþt., og 11. liður, sem fjallar um samdrátt á barnafræðslunni, samsteypu fræðsluhéraða og fækkun barnakennara. Ennfremur legg ég til, að 14. liður frv. verði felldur úr því, en hann fjallar um breytingu á Kennaraskólanum í Rvík.

Við 13. lið. sem heimilar stj. að selja tvö varðskip og vitabátinn Hermóð, hefir komið fram brtt. frá hv. 3. landsk., um að ekki verði heimiluð sala á Þór. Ég fellst á þá brtt., hún er betri en till. mín, og mun ég því taka hana aftur. En það, sem vakir fyrir okkur báðum, er þetta: Við teljum það alls ekki verjandi að hafa aðeins eitt varðskip (Ægi) hér við land, sérstaklega með tilliti til Vestmannaeyja. Enda hefir það sýnt sig, að þegar ekkert eftirlitsskip hefir verið við Eyjarnar, þá hafa orðið þar mannskaðar á vertíðinni, en hafi skipið verið þar yfir vertíðina, þá hafa engir mannskaðar orðið við Eyjar. Það er líka kunnugt, að á þeim fiskistöðvum er stærsti vélbátafloti hér við land. Þó að hæstv. fjmrh. álíti hægt að láta Ægi vera björgunarskip við Vestmannaeyjar samhliða landhelgisgæzlunni, þá teljum við það ekki hugsanlegt. Ég geri ráð fyrir, að hv. 3. landsk. geri að öðru leyti grein fyrir brtt. sinni.

Viðvíkjandi prentun á umræðuparti Alþt. erum við Alþflm. sömu skoðunar og fram kom í atkvgr. við 2. umr. fjárl., og ég vænti þess, að sá meiri hl., sem þá kom hér fram í Nd. gegn þeirri till., sé einnig til staðar nú.

Hæstv. fjmrh. virðist hallast að því, að umr. frá þessu þingi og því næsta yrðu ekki prentaðar fyrst um sinn, og tók þar undir brtt. hæstv. forseta uni að fresta prentun þingtíðindanna. Um þessa frestunartillögu verð ég nú að segja það, að fyrst þó á samt sem áður að hafa fyrir því að skrifa ræðurnar, þá minnkar þessi umtalaði sparnaður allverulega, og svo þegar aðeins er nú orðið um það að ræða að fresta prentun á þingræðunum, þá verður sparnaðurinn enginn. Framkvæmd verksins og prentunarkostnaðurinn er aðeins flutt frá einu ári til annars. Og hv. þdm. verða að gæta þess, að það er ekki nóg að hafa ræðurnar í handritum skrifaranna og geyma þau í skápum, þar sem enginn maður getur komizt að þeim; þau eru ekki vélrituð af þingskrifurum, og þess vegna alls ekki aðgengileg fyrir almenning eða aðra, sem þurfa oft nauðsynlega að grípa til þeirra. Mér finnst þessi till. um frestun. á prentun Alþt. vera sú allra hlægilegasta, sem flutt hefir verið í þessu máli. Ég er því á móti brtt. hæstv. forseta, eins og ég er líka mótfallinn 3. lið á þskj. 862. Og ég vænti þess, að hæstv. forseti láti atkvgr. fara þannig fram, að hægt sé að greiða atkv. um hvern lið út af fyrir sig.

Þó að ekki sé búið að tala fyrir þeim brtt., sem hér liggja fyrir, af flm. þeirra og skýra þær, þá verð ég að segja það um brtt. hæstv. forseta, þó undarlegt sé, að hún virðist ekki vera gerð til annars en að koma í veg fyrir, að hægt sé að greiða atkv. um hina einstöku liði frv., hvern út af fyrir sig.