19.12.1935
Sameinað þing: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

1. mál, fjárlög 1936

Frsm. meiri hl. samvn. samgmn. (Gísli Guðmundsson):

Samgmn. beggja d. hafa haldið sameiginlega fundi um úthlutun styrks til flóabáta og hafa getið út sameiginlegt nál., sem hér er á þskj. 858. ásamt brtt. við heildarupphæðina til flóabátaferða, þar sem lagt er til, að styrkurinn verði hækkaður úr 75 þús. kr. upp í 76 þús. kr. og stendur þannig á því, að þegar n. höfðu úthlutað styrknum til hinna einstöku báta, eftir því sem þeim fannst ástæða til, þá varð heildarupphæðin 1 þús. kr. hærri heldur en sú, sem áætluð er í frv., og þótti því rétt að gera till. um þessa hækkun. — Ég skal taka það fram, að nm. eru sammála um að skipta bátastyrknum eins og hér er gert í nál., að því undanskildu þó, að hv. þm. N.-Ísf. og hv. þm. Ísaf. hafa skrifað undir það með fyrirvara. Hv. þm. N.-Ísf. hefir gefið út sérstakt nál., þar sem hann gerir grein fyrir sínum ágreiningi við n., sem er aðeins um eitt atriði. Og hv. þm. Ísaf. mun væntanlega gera grein fyrir því, í hverju hans fyrirvari er fólginn.

N. hafði við úthlutun styrksins tekið til athugunar þær skilagreinar og reikninga frá flóabátunum yfir árið, sem er að líða, sem lágu fyrir hjá forstjóra skipaútgerðar ríkisins, en í fjárl. þessa árs var sett sú aths. við flóabátastyrkina, að slíkar skilagreinar skyldu afhendast skipaútgerð ríkisins, og að hún hefði yfirumsjón flóabátaferðanna. Samkv. þessum upplýsingum, sem fyrir lágu, gerði n. sínar till. Heildarupphæðin er nú lækkuð frá því, sem var í fyrra, úr 82 þús. kr. niður í 76 þús. kr., eftir því, sem n. leggur til, og við það varð að miða skiptinguna.

N. leggur til að Norðurlandsbáturinn verði hækkaður um 2 þús. kr., úr 11 þús. kr. upp í 13 þús. kr. Stafar það af því, að gerð hefir verið rækileg grein fyrir því, að útgerð þessa báts hefir engan veginn borið sig. Þeir menn, sem þennan bát eiga, vinna á honum sjálfir, og það hefir komið tilfinnanlega niður á þeim, að reksturinn hefir ekki borið sig. Þess vegna hefir n. ákveðið að hækka þennan styrk. Hinsvegar hefir n. lagt til að fella niður styrki til Lagarfljótsbáts, Grímseyjarbáts og Rauðasandsbáts. Rauðasandsbátur er ekki starfræktur lengur, og Lagarfljótsbátur hefir verið lagður niður vegna annara samgangna, sem þar eru komnar. Grímseyjarbát taldi n. rétt að styrkja ekki lengur, heldur vill leggja þá kvöð á Norðurlandsbátinn að fara nokkrar ferðir árlega til Grímseyjar. N. hefir ennfremur lagt til — til þess að ná þeirri niðurfærslu, sem nauðsynleg þótti — að færa niður styrkinn til Borgarnesbáts, úr 20 þús. kr. niður í 15 þús. kr. Þessi till. er byggð á því, að Alþ. hefir nýlega lagt fram allmiklu styrk til þess félags, sem heldur uppi þessum ferðum milli Reykjavíkur og Borgarness, og gert því mögulegt að eignast skip, sem er á margan hátt hentugra til þessara ferða heldur en það skip, sem það áður hafði. Það má því gera ráð fyrir, að afkoma verði þar af leiðandi betri, enda sýna reikningar félagsins það nú þegar. Annars má geta þess, að lögð var sú kvöð á þetta félag að fara nokkrar ferðir á ári til Breiðafjarðar. Ég veit, að þetta er mjög óþægilegt, og vil segja það sem mína skoðun, að ef þrengist um fyrir félaginu vegna hins lækkaða styrks, þá ætti að létta þessari kvöð af, enda efast ég um, að hún hafi komið að því gagni, sem til var ætlazt.

Þá er í till. n. ýmsar smávægilegar tilfærslur milli einstakra báta, sem ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um. Ég sé heldur ekki ástæðu til að fara neitt út í þann ágreining, sem hv. þm. N.-Ísf. hefir gert út af Djúpbátnum, þar eð hann hefir ekki enn mælt fyrir sínum till. En ég vil aðeins taka það fram, sem menn sjá í nál., að Djúpbátnum er ætlaður hæsti styrkurinn af flóabátunum. Honum eru ætlaðar 20 þús. kr., en þeim mesthæsta aðeins 15 þús. kr.