19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (3172)

190. mál, málning úr íslenzkum hráefnum

Frsm. (lngvar Pálmason) [óyfirl.]:

Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og gekk í gegnum þá hv. deild mótstöðulítið, eða að minnsta kosti án nokkurrar sérstakrar mótspyrnu. Þegar svo frv. kom til þessarar hv. d., virtist svo sem annað hljóð væri komið í strokkinn, því að strax fóru þá að streyma til iðnn. óskir um viðtöl um þetta frv. Strax sama daginn og máli þessu var vísað til n. tók n. á móti heimsóknum tveggja manna, Péturs Guðmundssonar, forstj. verzlunar hér í bænum, sem heitir Málarinn, og Trausta Ólafssonar. Erindi þessara tveggja manna til n. var það að leitast fyrir um, hvort n. vildi ekki fallast á að veita þessum tveimur mönnum sérleyfi. Þessi fundur stóð nálægt tveim tímum, og meira var ekki gert í málinu á þeim fundi. Þessu hélt svo áfram. Síðar kom þriðji aðilinn, sem ég ætla að hafi heitið Ólafur Jóhannesson, í sömu erindagerðum. Hann vildi líka fá einkaleyfi á þessu. Á endanum taldi n. rétt að kalla til viðtals þá, sem nefndir eru í þessu frv., sem báðu um þetta einkaleyfi, sem í frv. er getið um. Átti n. allýtarlegt tal við þá. Áður en n. fór nokkuð að athuga málið var auðséð, að sækja átti áróður á móti því. Það er náttúrlega ekki nema gott og blessað, að n. fái upplýsingar í málinu. Og þær n., sem ég hefi starfað í á Alþ., hafa lekið vel upplýsingum, en venjulega óskað eftir því, að þeir, sem upplýsingarnar veittu, gæfu þær skriflega, því að slíkt er miklu hentugra upp á vinnubrögð n., að upplýsingarnar séu skrifaðar, og enda betur viðeigandi.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að þau 14 þing, sem ég hefi setið, hefir aldrei borið eins mikið á áróðri á n., af mönnum héðan úr bænum aðallega, um þingmál eins og á þessu þingi. Og þetta er orðin hreinasta plága, því að það er eins og mönnum nægi það ekki lengur að senda sín skjöl til þingsins um mál, sem þeir láta sig varða, og láta þar uppi það, sem þeir vilja, að komi fram með eða móti málum. Það hefir farið svo mjög í vöxt nú á þessu þingi, að menn hafa tafið n. við störf, að ég álít, að það horfi ískyggilega við, ef slíkt fær að halda áfram. Fyrir slíkt verður að taka. Það getur ekki gengið, að allur fundartími n. fund eftir fund fari í að ræða um málin við utanþingsmenn, auk þess sem þetta er óviðeigandi, því að þingmál eru öllum opin og menn geta með því að senda erindi eða skrifa í blöð gert við þau sínar aths. Ef utanþingsmenn til að hafa viðræður við n. á nefndafundum, getur það alveg eins leitt til þess, að nm. eigi erfiðara með að glöggva sig á málunum. - Þetta var nú útúrdúr. En ég notaði tækifærið nú til þess að geta þess arna, vegna þess að eitt af þeim málum, sem þessu framferði af utanþingsmönnum var beitt sérstaklega við, er einmitt þetta mál.

Eftir allar þessar heimsóknir og viðtöl fór svo n. að athuga málið. Það var auðséð, að þeir, sem heimsóttu n., töldu velta á miklu, hvernig mál þetta færi. En n. hafði litið svo á, og lítur svo á enn, að hér sé ekki um stórmál að ræða. Svo fór n. að bera saman upplýsingar, sem hún hafði fengið frá þessum umsækjendum, og vildi hún sérstaklega fá að vita, hvort litir unnir úr íslenzkum jarðefnum gætu orðið nothæfir til málningar. Ég hygg, að umsækjendurnir hafi allir svarað n. því, að þeir hafi verið búnir að vinna í mörg, ár að tilraunum í þessa átt. Einn þeirri mun hafa sagt, að hann væri búinn að fáist við þetta síðan fyrir 14 árum. Ég skal ekki draga það neitt í efa, að menn þessir hafi skýrt rétt frá. En einu umsækjendurnir, sem sýndu n. svart á hvítu, ef svo mætti orða það, árangur af starfi sínu, það voru umsækjendurnir, sem nefndir eru í þessu frv. Þeir sýndu n. liti í dufti, sem þeir tjáðu, að væru unnir úr íslenzkum jarðefnum. Þeir sýndu einnig n. þessa liti færða á tré. N. virtist því, að hvað sem um tímalengd viðvíkjandi starfi umsækjendanna að þessari litarvinnslu væri að ræða, þá væri árangurinn beztur af tilraunum þeirra tveggja manna, sem nefndir eru í frv.

Rétt er í þessu sambandi að geta þess, að n. stakk upp á því við þá forstjóra Málarans og Trausta Ólafsson, hvort ekki væri rétt að kalla þá aðila báða, sem nefndir eru í frv., fyrir n. og láta þá ræðast alla við þar, og vita, hvort þeir gætu ekki sjálfir fundið lausn á þessu máli sín á milli. En þeir óskuðu ekki eftir því. N. sá það strax, að þó að málið í sjálfu sér sé, eða virðist vera, frá leikmanns sjónarmiði séð, ekki mjög stórvægilegt, þá var ákaflega mikið kapp í umsækjendunum út af þessu máli. Hélt n. því uni þetta nokkra fundi næði, til þess að athuga það, sem fyrir lá í málinu, og það, sem n. gat fengið upplýst. Og niðurstaða n. varð sú, að hún legði til, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, yrði samþ. þessum mönnum, sem þar eru nefndir, yrði veitt einkaleyfi í 5 ár til þess að vinna málningu hérlendis úr ísl. hráefnum. En þar sem skilyrði er sett uni það, að einkaleyfishafar eigi að hafa notfært sér leyfið að verulegu leyti innan 2 ára, þá tel ég hvað það snertir nægilegan varnagla. Af þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið með að vinna málningu úr íslenzkum jarðefnum, virðist árangurinn beztur hjá þeim málarameisturunum Ósvald Knudsen og Einari Gíslasyni, og því mælir n. með, að þeir fái einkaleyfið. Um hina mennina er það að segja, að n. var það ljóst, að hvað snertir t. d. forstöðumann Málarans, þá er þar aðeins um verzlunarfróðan og eflaust duglegan mann að ræða, og enda þótt með honum væri efnafræðingur, sem vitanlega er gott, þá sá n. samt ekki ástæðu til að taka þá fram yfir málarameistarana, sem báðir eru taldir mjög vel að sér í sínu fagi, og leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt. N. sá ekki heldur, að málningarverzluninni væri neinn sérstakur ógreiði gerður, þó að einkaleyfið væri veitt öðrum, þar sem hún er í fullum gangi og því engin ástæða út af fyrir sig að fara að styrkja hana. Hinsvegar hélt forstöðumaður hennar því fram, að það gæti haft slæm áhrif fyrir verzlunina, ef það væri notað sem gyllingar af seljendum innlendu málningarinnar, að þeir einir hefðu innlenda framleiðslu á boðstólum. Þessi ástæða virtist n. ekki veigamikil, þegar líka fyrir lá yfirlýsing frá þeim E. Gíslasyni og Ó. Knudsen um það, að ef hin innlendu málningarefni reyndust sæmileg, myndu þeir fúsir til að selja verzluninni þau til blöndunar.

Annars verð ég að taka það fram í sambandi við þetta mál, að ég hefi aldrei vitað dæmi þess, að mál væri sótt á þann veg sem þetta mál. Það hefir verið sífelldur áróður á n. af þeim mönnum, sem vildu spilla fyrir, að frv. þetta næði fram að ganga í þeirri mynd, sem það er nú, og ég býst við, að þegar áróðrinum var hætt á n. hafi honum verið haldið áfram við einstaka þm. Ég verð hreinskilnislega að taka það fram, að ég hefi aldrei átt neinu slíku að venjast síðan ég kom á þing. Ég sætti beinlínis ákúrum fyrir að taka þá afstöðu til þessa máls, sem ég tók. Þegar svo langt er gengið sem hér, að þm., sem bera ábyrgð gerða sinna fyrir Alþingi og þjóðinni, fá ákúrur frá óviðkomandi áróðrarmönnum og þeir fara beinlínis að segja heilum þingnefndum fyrir verkum, þá veit ég hreint og beint ekki, hverskonar stofnun fólk heldur, að Alþingi sé. Ég fyrir mitt leyti þoli slíkt ekki. Það er því komið svo fyrir tilstilli þessara undirróðrarmanna, að mér, sem þar alveg sama um þetta mál, er ekki orðið sama um það nú. Ég vil, að það nái fram að ganga í þeirri nefnd, sem það er nú, því að þó ég ekki sérfræðingur í þessum sviðum, þá tel ég athuganir n. réttar og því miður farið, nái málið ekki fram að ganga. Að ég óska þess, að mikið nái fram að ganga, er ekki sakir þess, að ég í raun og veru telji það svo mikilsvert, heldur er það sökum þess, að afdrif málsins eru vitni þess, hvernig undirróðrarmönnum tekst að róa hér á Alþingi. Að ég hefi sagt þetta hér er m. a. vegna þess, að ég vil fá þetta staðfest í þingtíðindunum, því að það má gjarnan vera lýðum ljóst, hvernig reynt er nú í tímum, bæði leynt og ljóst, að hafa áhrif á þm. hér í Reykjavík.