19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (3173)

190. mál, málning úr íslenzkum hráefnum

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég hafði því miður ekki tíma til að hlusta á alla ræðu hv. frsm., því að ég var einmitt að tala við þá menn, sem hann var að tala um. Mál þetta stendur þannig nú, að miklar líkur eru fyrir því, að samkomulag náist um það höfuðatriði, sem togstreitan stendur um. En áður en ég vík að því vil ég minnast á ákvæði frv., sérstaklega það, að veita 5 ára einkaleyfi fyrir þessari framleiðslu. Ég best við, að flestir séu þeirrar skoðunar, að þegar veita á einkaleyfi, þá verði það að gerast með mestu varúð. Hér er þó nokkuð öðru máli að gegna en um mörg önnur einkaleyfi, þar sem það er veitt til þess að vinna úr innlendu efni. Annars er reynsla okkar í þessu efni sú, að þegar einhver er búinn að brjóta ísinn og koma á fót nýjum iðngreinum, þá koma margir í eftir og um þá fer á ýmsan hátt. Má í því sambandi minna á ölgerðina. Þegar hún virtist komin yfir byrjunarörðugleikana, reis hér þegar upp annað fyrirtæki í sömu iðngrein, reisti stórt hús og byrjaði á framleiðslu, en sá sinn kost vænstan eftir tiltölulega stuttan tíma að hætta og sameinast því fyrirtæki, sem fyrir var í þessari grein. En stórhýsið stendur autt síðan.

Þá má og minna á smjörlíkisgerðirnar. Að samkeppnin yrði til þess að gera verkið á smjörlíkinu lægra, sannaðist ekki þar, því að smjörlíki er dýrara hér en nokkursstaðar, sem við þekkjum til. Verksmiðjurnar urðu nfl. að koma sér saman um að hafa verðið á smjörlíkinu svo hátt, að þær gætu allar lifað. Sama reynslan er og um súkkulaði- og konfektgerðirnar. Af þessum ástæðum verður því að álítast forsvaranlegt að gefa svona fyrirtæki einkaleyfi um stuttan tíma, á meðan það er að brjóta ísinn, og þá sérstaklega þegar svo stendur á eins og í þessu tilfelli, að ekki er um erlent efni að ræða til framleiðslunnar. En erlent efni verður flutt inn meðan hið innlenda verður ekki samkeppnisfært.

Það er að sjálfsögðu ekki nema eðlilegt, að þeir menn, sem brjóta ísinn í þessu efni og kosta til þess miklu fé, vilji fá það tryggt, að þeir þurfi ekki strax að lenda í samkeppni, sem þeim sem byrjendum í þessum iðnaði gæti orðið mjög erfið. Frv. gengur því í þá átt að gera þeim mönnum, sem vilja byrja í þessu, það mögulegt, og jafnframt er séð fyrir því, að fyrirtæki þeirra selji með sanngjörnu verði, þegar jafnan verður keppt á móti því með erlendu efni, að tekið er vel í þetta mál nú, er alveg í samræmi við það, sem gert var í fyrra að því er snerti sérleyfið með vikurinn.

Erfiðleikar þeir, sem mál þetta hefir átt við að stríða nú, stafa af því, að þegar umsóknin var komin frá hinum tveimur fyrstu, sem teknir eru upp í frv., komu aðrir tveir menn, sem töldu sig vera búna að vinna að þessum rannsóknum jafnlengi og hina, og auk þess töldu þeir sig hafa keypt vélar, sein eftir rannsóknum hafa sýnt það, að þær myndu nægja til þess að framleiða næga málningu fyrir landsmenn fyrst um sinn. Nú ber þess að gæta, að annar þessara manna, sem vélarnar keyptu, er efnafræðingur, en hinn er forstjóri fyrir stærstu málningarvöruverzlun landsins, en hinsvegar eru tveir þekktustu málarameistarar landsins, þá er ekki nema eðlilegt, að maður vilji fá þá til þess að sameina sig um þetta. Ég hefi því átt tal um málið við þá í dag. Og er þar ekki nema um tvær leiðir til samkomulags að ræða. Önnur er sú, að taka nöfn þeirra Trausta Ólafssonar og Péturs Guðmundssonar upp í frv. og gera þá að einkaleyfishöfum eins og hina, sem þegar hafa verið teknir upp. En hin er sú, að þeir tveir, sem einkaleyfið eiga að fá, veiti hinum tveimur, þeim Trausta Ólafssyni og Pétri Guðmundssyni, sömu réttindi og þeir eiga að öðlast með frv. Um þetta var samin yfirlýsing í dag. En Trausti Ólafsson taldi hana lítilsvirði, því að þeir hefðu komizt svo langt í samningum í dag við hina væntanlegu sérleyfishafa, að þeir teldu sig hafa hag af því, að frv. næði fram að ganga. Gæti mál þetta samizt á þann veg, að þeir tveir, sem keypt hafa inn vélarnar, komist í samband við hina, þá er ekki rétt að fara að leyfa hinum að flytja inn vélar líka. Hitt held ég að væri betur ráðið, að sameina þá alla um einkaleyfið á þann hátt, að þeir, sem einkaleyfið fá að lögum, taki hina tvo í félag með sér, því að á því leikur ekki tveim tungum, að Trausti Ólafsson hefir yfir mikilli þekkingu að ráða, sem að gagni má verða í þessu efni, og einnig hitt verður ekki vefengt, að málarameistararnir, sem hér eiga hlut að máli, eru einhverjir hinir beztu í þessum bæ. Forstjórinn fyrir Málaranum er og talinn mjög duglegur kaupsýslumaður. Eins og málið stendur nú, er því áreiðanlega bezt komið, að þessir ágætismenn sameini sig allir sem einn maður um það. Að því tel ég mig hafa leitt rök.