19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2191 í B-deild Alþingistíðinda. (3174)

190. mál, málning úr íslenzkum hráefnum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég verð að byrja á því að láta í ljós samúð mína með hv. 2. þm. S.-M. út af þeim miklu mannraunum, sem hann hefir lent í í sambandi við þetta frv. Hér hlýtur að hafa verið um verulega miklar mannraunir að ræða, þar sem hann, sem aldrei skiptir skapi, virtist vera ofsareiður. Og ekki nóg með það, að á hann væri ráðizt, heldur fengu meðnm. hans sömuleiðis að kenna á árásarmönnunum. Mér virðist, að það beri vott um, að hér eigi hlut að máli dugandi menn þar sem þeir sækja mál sitt af svona miklu kappi. annars finnst mér ekkert á móti því, þó að menn sæki mál sín fast við þingnefndirnar, á meðan þeir beita n. ekki líkamlegu ofbeldi. Og mér finnst það hreint og beint ekki ná nokkurri átt, að útiloka menn frá því að skýra mál sín fyrir n. Þær hafa vitanlega alveg óbundnar hendur með það, hvað þær taka til greina af málflutningi manna og jafnframt hitt, hve oft þær veita mönnum áheyrn. Ég verð því að segja það, að ég var hálfundrandi á ummælum hv. frsm., en hinsvegar veit ég það, að þau hafa verið sögð undir hinum djúpu áhrifum, sem hann komst í þegar hann fór að tala um hinar miklu mannraunir sínar. Annars er ég hissa á því, hversu nærri hv. þm. tók sér þessar heimsóknir, því að ég hélt, að hann væri svo vanur allskonar hörku í þessum vonda heimi, að hann færi ekki að láta svona smáhluti raska hugarró sinni.

Um einkaleyfisbeiðendurna skal ég ekkert segja. Ég veit, að þeir eru allir dugandi menn. Ég verð að bæta því við út af ræðu hv. 2. þm. S.-M. að mér þykir það undarlegt ef þeir hafa komið ókurteislega fram, en það er ekkert undarlegt, þó að menn gangi dálítið fast fram í sínu máli.

Ég ætla ekki að gera upp á milli þessara manna, en vil lýsa því sem minni skoðun, að ég er á móti því að veita einkaleyfi. Þar með er að vísu ekki sagt, að ég sé á móti því að veita einkaleyfi undir vissum kringumstæðum, en mér finnst þetta einkaleyfi svo víðtækt, að það nái ekki nokkurri átt. Ef hér hefði verið um það að ræða að fá einkaleyfi á ákveðinni aðferð til þess að vinna málningu, eða vinna úr ákveðinni jarðtegund, þá hefði ég kannske getað fallizt á það, en að enginn fái að snerta neitt efni í íslenzkri jörð til þess að búa til málningu úr, nema einhverjir ákveðnir menn, álít ég hreinustu fjarstæðu.

Ég var ekki mótfallinn því þegar lágu tvær einkaleyfisbeiðnir fyrir síðasta þingi um að gera ákveðnar vörutegundir að verzlunarvöru erlendis. Annað einkaleyfið var samþ., en hitt var fellt. Það var um það, að gera ísl. vikur að verzlunarvöru í útlöndum, en hitt var um að gera ísl. múrhúðun að verzlunarvöru. Mér fannst þau einkaleyfi vera innan mjög þröngra takmarka og eiga fullan rétt á sér. En mér hefði aldrei dottið í hug að samþ. einkaleyfi handa einhverri matreiðslukonu til þess að búa til mat úr íslenzkum jurtum.

Ég vil, út af því, sem hæstv. forsrh. var að segja um, að það þyrfti að ýta undir, að hægt væri að búa sem mest til úr íslenzkum hráefnum, benda á, að þetta er ekki til þess að ýta undir slíkt. Við skulum segja, að á þessum einkaleyfistíma fyndi einhver maður upp mjög góða aðferð til þess að vinna málningu úr þessum efnum. Er það þá ekki alveg dæmalaust, að sá maður má ekki vinna málningu, þó að hann með því gæti komið í veg fyrir innflutning dýrum erlendum hráefnum. Hann verður að fara til einkaleyfishafanna og vita, hvort þeir vilja þiggja hans aðstoð til þess að gera þetta.

Ég hefði að vísu ekki óskað þess, að hv. frsm. hefði fellt neitt niður af sinni raunasögu, en hinsvegar hefði hann átt að bæta einhverju við um það, hvar þessu máli væri komið, hvað þessir einkaleyfisbeiðendur hefðu gert í þessu efni. (IngP: Ég skýrði frá því). Það var víst eitthvað lítið. Það var ekkert um það, hvort þeir væru búnir að afla sér véla, hvað vélarnar mundu kosta, hvort þeir hefðu fé til þess að koma upp nægilega fullkomnum vélum. Þó að þeir hafi komið með málaða fjöl, þá hefir það ekkert að segja; hún hefir vel getað verið máluð með útlendri málningu.

Hæstv. forsrh. talaði í þessu máli og mælti með frv. með þeim rökum, sem ég get ekki fallizt á, því að það var einhver sú ómengaðasta einokunarræða, sem ég hefi heyrt. Það var ekki annað hægt að leiða á ræða hæstv. forsrh. en það, að ekki ætti einungis að veita einkaleyfi til 5 ára í senn, heldur um aldur og æfi, og það á öllum vörutegundum, því að rök hæstv. ráðh. voru þau, að það væri venjulegt, þegar sett væri á stofn fyrirtæki í einhverri grein, þá kæmu önnur og þau berðust og stönguðust þangað til eitthvert biði lægra hlut. Mér finnst, að niðurstaðan af þessari röksemdafærslu hljóti að verða sú, að aðeins eitt fyrirtæki eigi að verzla með hverja vörutegund. Ef þetta væri svona einfalt, mundi það vafalaust spara miklar deilur. Það hefir sína kosti, að aðeins einn fáist við framleiðslu á vissri vörutegund og selji hana, en það hefir líka sína ókosti. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort hann haldi virkilega, að t. d. íslenzk smjörlíkisgerð mundi vera komin lengra áleiðis, ef aðeins eitt einasta fyrirtæki hefði verið verndað gegn útlendum og innlendum keppinautum og alveg mátt ráða sér í því efni. Ég get svarað því fyrir hæstv. ráðh. Hún hefði vitaskuld verið komin miklu styttra. Það er einkenni einokunartímanna, að þá Stöðvast allar framfarir. Það er samkeppnin, sem leggur að vísu mörg fyrirtækin í valinu, en hún veldur framförum í hverri grein. Út frá hugsunarhætti hæstv. forsrh. skil ég vel, að hann er með því að veita þetta einkaleyfi, eins og öll önnur.

Ég skal svo ekki lengja mál mitt miklu meira. Mér þykir vænt um, ef samkomulag næst um það, að allir þessir ágætu og duglegu menn, sem þarna eiga hlut að máli, komi sér saman um að starfrækja þetta fyrirtæki. Ég ber bezta traust til þessara manna að gera eins gott úr þessu og hægt er. En mér þykir það bara fjarstæða að vera að veita einkaleyfi.

Ég vil aðeins hreyfa því í þessu sambandi, af því að ég veit ekki, hvað mikið liggur á bak við, að ég sé ekki betur en ef frv. verður samþ. óbreytt, þá séu það hinir upphaflegu umsækjendur, sem fái einkaleyfið, og engir aðrir. Ég sé ekki betur, ef þeir fá þessi spil í hendurnar, en að þeir geti spilað úr þeim eins og þeim sýnist, og það geti hvorki ráðh. né stj. í heild ráðið neinn í því efni. Alþingi hefir veitt þessum mönnum einkaleyfið, og þeir hafa þessi spil á hendinni, en annað mál er það, ef á bak við liggja samningar, sem hæstv. ráðh. sagði að vísu ekki nema með óákveðnum orðum, þannig, að búið væri að ná samkomulagi við þessa menn. En ég kynni betur við, að nöfn þessara fjögurra umsækjenda væru líka tekin upp í frv., a. m. k. yrði um þetta samið áður en frv. verður gert að lögum.

Ég get ekki greitt atkv. með þessu frv., jafnvel þótt allir leyfisbeiðendurnir fengju að annast þessa framleiðslu, því að ég álít þetta einkaleyfi allt af víðtækt og stríða á móti þeim reglum um frjáls viðskipti, sem ég vil, að sé haldið uppi sem allra mest.