19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2193 í B-deild Alþingistíðinda. (3175)

190. mál, málning úr íslenzkum hráefnum

Sigurjón Á. Ólafsson [óyfirl.]:

Ég hafði búizt við, að þetta mál kæmi ekki fyrir hér í kvöld, en úr því að svo er, þá ætla ég að segja nokkur orð, sem lýsa minni afstöðu til málsins.

Í þessum umr. hefir verið vitnað í mál, sem lágu fyrir síðasta þingi og voru um einkaleyfi. Ég skal játa, að ég var með einkaleyfi til þess að vinna vikur innanlands og gera að verzlunarvöru erlendis. Ég veit ekki, hver árangur hefir orðið af þessu, en mér fannst skoðun manna á því máli þá vera sú, að rétt væri að lofa mönnum að reyna þetta. Ég var með því af þeim ástæðum, að þetta væri fundið fé, af það gæti borið árangur. Á sama þingi var annað mál til umræðu um einkaleyfi, sem var lagt á móti af ýmsum áhrifamönnum þessa lands, m. a. af því, að það gat verið um svo mikið verðmæti að ræða, sem ekki ætti að lenda í höndum einstaklinga, heldur gæti ríkið sjálft tekið þetta að sér. Ég var á móti því að veita slíkt einkaleyfi.

Nú liggur fyrir frv. um að veita einkaleyfi til innlendrar framleiðslu úr innlendu efni. Það er virðingarvert, að til eru í landinu menn, sem komið hafa auga á, að í landinu eru til efni, sem má vinna úr vöru þá, er hér er gert ráð fyrir. Ég hefi ekki neina sérþekkingu á því, hvort hér er um mjög kostnaðarsama tilraun að ræða. En ég hefi heyrt, að þessi tilraun mundi ekki vera mjög kostnaðarsöm og að frekar ódýrt mundi að vinna þessi efni.

Ég hefði að sumu leyti helzt óskað þess, að þetta mál hefði verið látið bíða, en það er víst ekki um það að tala. En höfuðatriðið fyrir mér er það, að ég vil yfirleitt ekki, að gengið sé inn á þá braut að veita einstökum iðjuhöldum einkaleyfi til innlendrar framleiðslu. Ég er t. d. sammála hv. 1. þm. Reykv. um það, að við hefðum nú ekki smjörlíki með því verði og þeim gæðum, sem við nú höfum það, ef veitt hefði verið einkaleyfi til þess að framleiða það. Af því að menn hafa verið frjálsir að því að framleiða þessa vöru, hafa þeir keppzt um að vanda hang sem bezt og jafnframt lækkað verðið. Nú er það vitanlegt, að einkaleyfi í höndum einstaklinga hafa ósjálfrátt í för með sér þá aðstöðu þeim til handa að leggja það verð á sína vöru, sem þeim vel líkar. Þegar svo er komið, þá er ekki nema ein leið til, sem er í samræmi við stefnu okkar jafnaðarmanna, og það er, að hið opinbera taki framleiðsluna í sínar hendur og setji sanngjarnt verð á vöruna.

Hér er um að ræða vöru, sem við höfum hingað til flutt inn frá útlöndum. Ég man að vísu ekki, hvað það nemur mikilli upphæð af erlendum gjaldeyri, en það mun vera eitthvað nálægt 1/2 millj. sem við höfum orðið að borga fyrir þessa vörutegund. Án málningar er ómögulegt að vera, og þess vegna er ekki nema eðlilegt, að upp rísi raddir um það að reyna að vinna hana í landinu sjálfu, bæði til þess að skapa atvinnu við það, og eins að spara þann gjaldeyri, sem ella mundi fara út úr landinu. En ég vil, eins og ég sagði áðan, að þeim, sem sjá sér möguleika til þess að ráðast í þetta, sé það frjálst, og að engum sé veitt sérstaða í þessum sökum fram yfir annan. Mér virðist, að þessarar stefnu hafi alls ekkert verið gætt í meðferð málsins.

Ég minntist hér á smjörlíkisgerðina áðan. Ég veit ekki til, að neinum hafi verið veitt einkaleyfi til slíks iðnaðar; sama er að segja um konfektgerðina og ölgerðina. Það er hverjum manni frjálst að fást við slíkt, sem treystir sér til að leggja út í það.

Ég skal svo benda á eitt enn. Eftir að hætt var að vinna dúka á heimilunum og ullarverksmiðjurnar risu upp, hefir mikið verið takmarkaður innflutningur á dúkum. Mundi það því vera mjög óheppilegt, ef ein verksmiðja réði verðinu á dúkunum Af þessum ástæðum tel ég mjög varhugavert að veita einkarétt til slíkrar framleiðslu, sem hér um ræðir. Í þessu frv. er enginn varnagli settur við því, að leyfishafarnir geti sett ótakmarkað verð á vöruna. Það eina, sem hér er lagt við, er, að ef leyfishafarnir hafa ekki notað þennan rétt áður en 2 ár eru liðin, þá má svipta þá sérleyfinu.

Fyrir mér skiptir það engu máli, eða a. m. k. mjög litlu, hvort hér eru á ferðinni einhverjir menn með samskonar tilburði um að vinna málningu úr innlendum efnum. Fyrir mér er þessi tilhögun jafnfjarstæð, hvort heldur einkaleyfið er veitt 4 mönnum eða 2. Það er nákvæmlega sama einkaleyfið, þó að fleiri séu komnir inn í það, en hitt er rétt, að ég tel það í raun og veru ekki einskisvert, að þegar við setjum á stofn verksmiðju til þess að vinna málningu bæði úr innlendu og erlendu efni, og þegar reynslan hefir leitt í ljós, að nóg innlent efni er til þess að vinna úr, að það kostar ekki mikið að bæta við vélum til þess að vinna málningu úr innlendu efni samtímis og unnið er úr erlendu efni. Ég hefi hugsað mér, að þetta væri nóg verkefni fyrir tvær litlar verksmiðjur, en ég er alveg á móti því að veita einstökum mönnum, hverju nafni sem þeir nefnast, einkaleyfi til þess að reka hvort heldur er svona fyrirtæki eða einhver önnur. En hinsvegar tel ég rétt og sjálfsagt, að hið opinbera taki slíka framleiðslu í sínar hendur, þegar það er vitanlegt, að það varðar alþjóðarheill.

Ég skal geta þess að lokum, að ég tel, að þetta mál hefði mátt bíða það sem eftir er af þessu þingi, og það hefði verið skemmtilegri meðferð á málinu að láta það hverfa út af dagskrá og koma þar ekki meira það sem eftir er af þessu þingi.