19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2195 í B-deild Alþingistíðinda. (3176)

190. mál, málning úr íslenzkum hráefnum

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál mikið. Ég tók fram öll þau atriði, sem máli skipta, þegar ég talaði áðan.

Það, sem helzt er haft á móti þessu, er, að hér sé verið að veita einkaleyfi til þessarar framleiðslu og þess vegna sé alveg sérstök aðstaða fyrir þessa menn. Þessu er líkt, að mér skilst, við að geta einkaleyfi á því að framleiða smjörlíki og af og aðrar þessháttar vörur. En það er bara sá galli á þessari samlíkingu, að hún fær á engan hátt staðizt. Það er tvennu ólíku saman að jafna. En jafnframt koma þessir sömu menn, sem andmæla frv., með það, að ef hér væri um það að ræða að veita einkaleyfi fyrir einhverri sérstakri aðferð, þá gætu þeir verið meðmæltir því. En þetta er í raun og veru það, sem verið er að ræða um í þessu máli. Hver vill líkja því saman að vinna málningu úr innlendu efni og hinu, að framleiða öl? Það var vitað af öllum fyrir löngu, að það var auðvelt að framleiða öl og að til þess voru notaðar aðferðir, sem kunnar voru. Sama er að segja um smjörlíkið. En hér er verið að ryðja nýja braut, og það er einmitt það, sem skiptir máli. Þeir, sem hafa rannsakað þetta og eytt fé í það á undanförnum árum, hafa einmitt brotið ísinn og fundið sérstakar aðferðir til þess að vinna málningu úr innlendu efni. Og sú reynsla, sem þeir hafa þannig safnað saman með miklum kostnaði, vilja þeir að komi þeim til góða fyrstu 5 árin, þó undir þeim kringumstæðum, að öllum sé frjálst að keppa við þá á hann hátt að selja erlenda málningu og einnig að vinna málningu úr erlendu efni. Hví skyldum við ekki eiga að verðlauna þessa menn með því að láta þá fá þessa sérstöku aðstöðu, sem þó er ekki sérstakari en það, að það má keppa við þá á allan hátt? Hverja á að verðlauna, ef ekki þessa menn? Ef hv. d. samþ. þetta ekki, þá er það í ósamræmi við það, sem fram kom á síðasta þingi, að gefa nokkrum mönnum einkaleyfi til að framleiða úr vikur. Hér stendur nákvæmlega eins á. Enginn taldi það vera hættulegt, og það var það heldur ekki fremur en þetta. Ég álít því, að þau rök, sem færð hafa verið fram gegn frv., séu miklu fremur rök með því að samþ. frv. Hið eina, sem gert er, er að verðlauna það, að þessir menn hafa gerzt brautryðjendur á þessu sviði og hafa kynnt sér sérstakar aðferðir til að vinna úr íslenzkum hráefnum. Og þetta er gert fullkomlega samkeppnishæft bæði um verðlag og gæði, svo að það getur ekki verið hættulegt. Þetta einkaleyfi er líka svo takmarkað, að það er ekki af þeim ástæðum annars eðlis en frv., sem samþ. var hér í fyrra. Og með því að líkur eru til, að þeir menn, sem hafa rannsakað málið, hrindi því líka í framkvæmd, þá álít ég undir öllum kringumstæðum rangt að neita þeim um þessa heimild. Þar sem talað er um, að þetta hafi átt að vera heimild handa ráðh., en ekki eins og gengið er frá í 1. gr. frv. þá má segja, að ríkisstj. hafi á sínu valdi að koma því í framkvæmd, að þessir 4 menn vinni saman um málið, því að auðvitað er hægt að neita þeim um innflutningsleyfi, til þess að þvinga þá til að vinna saman um þetta mál á sanngjörnum grundvelli.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum þetta að svo komnu. En ég endurtek það, að mér finnst einkennilegt, ef ekki má samþ. frv. eins og það liggur fyrir, því að það hefir ekki verið bent á neitt, sem mælir á móti því.