19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2199 í B-deild Alþingistíðinda. (3182)

190. mál, málning úr íslenzkum hráefnum

Sigurjón Á. Ólafsson [óyfirl.]:

Út af nokkrum aths., sem komið hafa fram, sumpart við það, sem ég hefi sagt, ætla ég að segja nokkur orð. - Hæstv. forsrh. vill halda uppi vörn fyrir einkaleyfin, sem ég leyfi mér að mótmæla frá mínu sjónarmiði. Hann vill verðlauna menn, sem byrja á slíku sem þessu. En ég veit ekki, hvort hér er um svo áhættusaman atvinnurekstur að ræða, að nauðsynlegt sé að verðlauna hann umfram það, sem gert er í löggjöf fyrir alla þá, sem byrja á nýjum iðnaði. Ég veit ekki betur en að Alþingi hafi tekið upp þá stefnu að styðja allan nýjan iðnað, og það eru sæmileg verðlaun. Í öðru lagi er reynt að lyfta undir nýjan iðnað með fjárveitingum, og hefir verið stofnaður sjóður í því skyni. Og ég held, að benda mætti á ýmislegt, sem byrjað hefir verið á að framkvæma, og alls ekki hefir verið verndað á þennan hátt.

Það hefir einnig komið fram í umr., að það eru ekki eingöngu þessir menn, sem komið hafa auga á, að þessi efni eru til í íslenzkum jarðvegi. Það hefir verið upplýst, að 2 menn eru að setja upp verksmiðju. Ég veit um einn mann til, sem varið hefir tíma og fjármunum til þess að leita þessa sama. Þetta virðist því hafa verið í hugum allmargra, en svo á aðeins að verðlauna 2 af þessum mönnum með sérleyfi, - og hvernig ætli verði þá um samkeppnina eða verðlækkun á þessari vöru? Hæstv. forsrh. segir, að á því sé engin hætta, þessir menn verði alltaf í samkeppni með vöru sína. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvernig ástandið muni verða, ef þessir menn framleiða eins og við þurfum og lokað verður fyrir innflutninginn, sem er sjálfsögð afleiðing, ef fullnægt er þörf landsmanna. Og hvar er samkeppnin þá? Hún er engin. (MJ: Er það ekki það bezta?). Þessum mönnum er þá gefin aðstaða til að setja það verð, sem þeim líkar, en ég vil nota samkeppnina, þegar það er hægt, til að girða fyrir möguleikana til að okra, en það verður ekki gert með svona einokunarlögum. Ég man ekki, hver það var, sem sagði, að eftir þessu frv. væri öllum frjálst að vinna úr þessum efnum. En til hvers er að vinna úr þeim, ef ekki má selja framleiðsluna? Ég býst ekki við, að menn vinni úr þessu efni til þess að mála einn hesthúskofa eða eitt bátkorn. Svona röksemdir get ég ekki fallizt á.

Þá hefir mönnum orðið tíðrætt um, að hægt væri að þvinga fram, að ekki yrðu aðrir með vöru sína hér á markaðnum en sérleyfishafarnir og þeir, sem nú eru að setja upp verksmiðju hér. En mér er sama, hver leiðin er farin, því mín stefna er sú, að ég vil ekki veita neinum sérleyfi, hvorki einum eða tveimur einstaklingum. Þetta mál mundi þó horfa öðruvísi við, ef hér væri um að ræða félagsskap allra málara, og þó væri hægt að selja framleiðsluna dýrt. En eins og málið liggur fyrir, eða eins og frv. er nú, er gert ráð fyrir, að það verði aðeins tveir úr málarastéttinni, sem eiga að hafa leyfi til að selja öllum hinum. Hv. 1. þm. Reykv). vildi halda því fram, að ég væri að hylla frjálsa samkeppni, en ég skal bæta því við, að ég tel hana ekki gallalausa, en það er satt, að hún getur haft örlítið brot af kostum, en það hefir auðvaldið líka séð, að hún getur drepið auðvaldsþjóðfélagið sjálft, og ég, sem vil þetta skipulag feigt, syrgi það ekki, þó samkeppnin sé notuð til þess. Ef frjáls samkeppni er í algleymingi, Þá er leiðin opin til þess að éta hvern annan upp, og það hefir sína kosti, því að á meðan er vöruverðið lágt og vöruvöndun meiri, og ég hefi alls ekki á móti því, að þeir geti hjálpað hver öðrum til að eyðileggja sitt skipulag.

Ég býst við, að þetta mál gangi sína leið, og við því er ekkert að segja, en ég vil endurtaka það, sem ég sagði minni fyrri ræðu, að ég álít heppilegast, að það dagaði uppi.

Ef þetta einkaleyfi verður samþ., fær Alþingi beiðni frá fleirum. Ég veit ekki, hvaða stefnu hv. þm. hafa hugsað sér að taka, en það verður gaman að sjá, hvort menn verða þá eins örir og fúsir til að fylgja þeim beiðnum og gefa fleiri slík leyfi. En vitanlega er eðlilegt, að iðjuhöldarnir reyni að koma ár sinni fyrir borð á þennan hátt. - Skal ég svo ekki orðlengja frekar nú.