05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2204 í B-deild Alþingistíðinda. (3195)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

óyfirl.: Þetta mál, sem flutt er af meiri hl. allshn., hefir legið fyrir n. til athugunar, og á því tímabili var talað við ýmsa menn, sem þessum málum eru kunnugir, sumpart menn, sem hafa fengizt við þessa starfsemi, sem hér um ræðir, og sumpart aðra menn, sem kynnzt hafa þessu máli að meira eða minna leyti. En n. var ekki sammála um afgreiðslu málsins, og fyrir það eru fram komin tvö nál., frá meiri og minni hl. Ágreiningur sá, sem er á milli nefndarhlutanna, er aðallega á, að frv. gerir ráð fyrir afskiptum ríkisins af þessu máli. Hinsvegar kemur það glögglega fram í áliti hv. minni hl. n., að hann telur ýmsa vankanta á því fyrirkomulagi, sem hann segist ekki geta fylgt af „princip“-ástæðum. En ég geri ráð fyrir, að álit hv. minni hl. í þessu efni komi frekar fram við þessa umr. En hitt blandast n. ekki hugur um, að hér sé mjög merkilegt mál á ferðinni, en eins og ég hefi drepið á, greinir minni og meiri hl. n. á um aðferðina í þessu máli.

Ég býst við, að allir séu sammála um það, að hér sé um verulegar tekjur að ræða fyrir ríkið, ef hægt væri að laða hingað meira en verið hefir straum erlendra ferðamanna, og munu flest menningarlönd gera mikið til þess að hæna að sér erlenda ferðamenn með það fyrir augum, að þeir skilji eftir peninga í þeim löndum, sem þeir ferðast um. Þetta er mjög merkilegt mál fyrir okkur Íslendinga, þar sem það er vitanlegt, að landið okkar hefir mikla möguleika til þess að verða ferðamannaland sökum náttúrufegurðar sinnar. En þótt ferðamannastraumurinn hafi að vísu aukizt að talsverðu leyti á seinni árum, þá er samt augljóst, að eitthvað verður að gera til þess að glæða hann enn meir, og frv. bendir á, með hvaða móti þetta er kleift, án þess þó að það hafi í för með sér veruleg útgjöld fyrir ríkið. Ég mun nú ekki fara til í einstök atriði frv., því að bæði talar frv. máli sínu og eins sú ýtarlega grg., sem frv. fylgir. En reynslan hefir sýnt, að við hefðum alls ekki verið við því búnir að taka á móti ferðamannastraumnum frá útlöndum, því að sá litli vísir, sem fengizt hefir hér undanfarið í þessu efni, hefir verið gerður af einstökum mönnum, og hafa þær framkvæmdir verið af vanefnum gerðar sem eðlilegt er, þar sem þessir menn hafa ekki haft vald yfir einu og öðru, sem óumflýjanlega þarf að vera fyrir hendi til þess að móttaka ferðamanna geti orðið sem ákjósanlegust. Talið er, að nokkur brögð hafi verið að tilhneigingu til þess að hafa ferðamennina að féþúfu af þessu leyti, meira en ástæða er til. Skal ég ekkert um það fullyrða, hvort þessi orðrómur hefir við mikil rök að styðjast, en þó vil ég taka það fram, að kunnugir menn hafa sagt, að oft hafi verið teknir af miklir peningar af ferðamönnum, sem hingað hafa komið. Jafnframt því sem gera þarf gangskör að því að auka ferðamannastrauminn til landsins á allan hugsanlegan hátt, þarf að stemma stigu fyrir því, þó unnt sé að okra á ferðamönnum meira en góðu hófi gegnir. Eitt aðalatriðið í þeirri viðleitni, sem miðar að því marki að auka straum erlendra ferðamanna hingað til lands, er ráðstafanir til þess að bæta úr gistihúsakosti landsmanna, en honum hefir verið talsvert ábótavant undanfarið, svo sem kunnugt er. Það liggur í augum uppi, að stefna hér að því að gera erlendu ferðafólki vistina hér á landi sem bezta, með því að bjóða því upp á sæmileg gistihús á þeim stöðum, sem fegurstir þykja og mesti ferðamannastraumurinn liggur um. Í þessu sambandi má ennfremur geta þess, að víða er þörf á betri vegum en nú eru á fjölförnustu svæðunum, sem ferðamannastraumarnir liggja eftir. Má þar til nefna, að ákjósanlegt væri, að akvegurinn austur að Geysi, okkar ómetanlega gimsteini, væri bættur svo sem nauðsyn krefur, ef vel á að vera. Vitanlega þarf að leggja og bæta marga fleiri vegi á landinu, eins og t. d. vegasamband milli Þingvalla og Sogsins o. s. frv. Vitanlega þurfum við líka sómasamleg farartæki, og hygg ég, að það sé nokkurn veginn vissa fyrir því, að við getum flutt ferðamennina á þá staði, sem þeir helzt vilja sjá. Hin hlið þessa máls snýr að „agitation“ út á við, til þess að hæna ferðafólkið til landsins. Frv. bendir á ráðstafanir, sem miða í þessa átt, og má þar til nefna útvarpið, fyrirlestra, samband við erlendar ferðamannaskrifstofur o. s. frv. Meiri hl. n. álítur, að hér liggi svo víðtækt verkefni fyrir hendi, að það sé ókleift fyrir einstaklinga að koma því í framkvæmd á viðunandi hátt. Þetta er skoðun okkar meiri hl. í þessu máli. Til þess að standa undir a. m. k. nokkru af þeim kostnaði, sem þetta hefir í för með sér, gerir frv. ráð fyrir að skattleggja fastar áætlunarferðir með 5% gjaldi. N. hefir ekki átt kost á að kynna sér til hlítar, hversu miklu þetta nemur. En gera má ráð fyrir, að sú stj., sem hefir skrifstofu þessa fyrirtækis með höndum, þyrfti ekki miklu meira fé til rekstrar fyrirtækisins en hægt væri að afla á þennan hátt.

Í grg. frv. má sjá, að þetta mál hefir verið tekið föstum tökum í nærliggjandi löndum og að ríkisvaldið í þeim löndum hefir gert þýðingarmiklar ráðstafanir í þessu efni, enda þótt þær séu á nokkuð annan veg en hér er ætlazt til. Það má. geta þess, að í þessum löndum hefir þótt nauðsynlegt að sameina alla þá starfskrafta, sem fengizt hafa við móttöku erlendra ferðamanna, í eitt, til þess að reyna að forðast árekstra á milli þeirra aðilja, sem hér eiga hlut að máli.

Okkur Íslendingum er áreiðanlega óhætt að taka nágrannaþjóðir okkar, sem allar eru miklu auðugri en við, til fyrirmyndar í þessu efni, og þar sem það er vitanlegt, að einstakir menn hafa yfirleitt ekki yfir nægilegu fjármagni að ráða í þessu efni, þá er það auðsætt, að flest rök hníga undir það, að ríkið taki að sér starfsemi þá, sem hér um ræðir, og reyni að koma henni í höfn, heilu og höldnu.

Eins og ég hefi þegar drepið á, er öll n. sammála um það, að þetta mál, sem hér um ræðir, sé mjög þýðingarmikið fyrir þjóðina. Ágreiningurinn er einvörðungu um aðferðirnar, sem nota þarf í þessu efni. Hv. minni hl. er sem sagt mótfallinn afskiptum ríkisvaldsins af þessum málum, en það telur meiri hl. hinsvegar nauðsynlegt, ef málinu eigi að vera vel borgið í framtíðinni.

Okkur virðst 1. og 2. gr. svo skyldar að efni, að í raun og veru gætu þær orðið sem ein grein, og leggjum það til. Auðvitað breytist greinatalan eftir því.

Í 6. gr. töldum við rétt, að væru skýrari ákvæði en eru um gisti- og veitingahús. Í brtt. okkar við þá gr. er gert ráð fyrir, að erlendir gestir eigi aðgang að þeim stöðum fram yfir innlenda gesti, að öðru jöfnu. Það skiljum við þó ekki svo, að innlendar maður, sem búinn er að panta greiða eða rúm, eigi að víkja fyrir útlendingi úr herbergi eða rúmi, heldur að útlendingar gangi fyrir að öðru jöfnu, ef ferðamannaskrifstofan æskir eftir plássi fyrir þá. Þetta skoðum við sem gestrisnisskyldu. Þess vegna er einnig ferðamannaskrifstofunni gert að skyldu að gera pantanir vegna útlendinga til gistihúsanna með nægilegum fyrirvara, svo ekki þurfi að eiga sér stað árekstur milli erlendra og innlendra ferðamanna.

Þá eru brtt. ekki fleiri. N. taldi yfirleitt vel frá frv. gengið og sættir sig við það með þessum breytingum, að öðru leyti en því, að minni hl. n. vill ekki, að ríkið reki þessa stofnun, og skal ég ekki að svo stöddu fara frekar út í það mál.