05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2215 í B-deild Alþingistíðinda. (3199)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég er samþykkur þeim tilgangi, sem liggur á bak við þetta frv., sem sé þeirri hugsun, að það eigi að hvetja erlenda ferðamenn til þess að koma hingað til lands. Það er enginn vafi á því, að þegar mjög amar að skortur á erlendum gjaldeyri, þá er á þann hátt stóraukinn möguleiki á að bæta úr því.

Við höfum ekki haft mikið af þeim tekjum að segja, en ef litið er út um lönd, þá er, meira að segja hjá stórþjóðunum, ferðamannastraumurinn ein megintekjulind. Það má til dæmis nefna, að eins stórar þjóðir og Frakkland og Ítalía komust í örðugleika vegna þess, hve heimsstyrjöldin dró úr ferðamannastraumnum, því hann var orðinn svo stór liður hjá þeim, hvað þá hjá minni þjóðum, eins og t. d. Sviss og Noregi, sem áttu við mjög verulega örðugleika að stríða út af því, hve ferðamenn voru fáir. Það er líka alkunnugt frá deilum Þjóðverja og Austurríkismanna, hversu Þjóðverjar beittu Austurríkismenn því vopni, að koma í veg fyrir ferðamannastraum til Tyról.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það þó Ísland hafi ýmsa ókosti sem ferðamannaland, svo sem hafið - það eru alltaf nokkuð margir ferðamenn, sem eru mótfallnir löngum sjóferðum - svo er veður hér oft illa fallið til þess að laða ferðamenn hingað, að landið hefir þrátt fyrir þetta ýmislegt til að bera, sem gerir það einstakt í veröldinni. Það hefir náttúrufegurð, ég vil ekki segja, að hún sé meiri en almennt gerist, en hún er svo sérkennileg, að það þarf langt að leita til að finna náttúrufegurð, sem er svipuð. Vegna þess hve landið er bert og skóglaust, eru hér dæmalaust hreinar línur og litir, svo menn sjá ekki annað eins annarsstaðar.

Ég er sannfærður um, að ef hægt væri að beina ferðamannastraum hingað til Íslands, þá yrði það mjög mikilvægt afkomuatriði fyrir þjóðina. Þeir gallar, sem talið er hættulegt, að verði á skapgerð þjóðar, sem mikið þarf að taka á móti erlendum ferðamönnum, tel ég ekki líklegt, að kæmu mikið fram á íslenzku þjóðinni. Það er sagt, að Sviss hafi liðið undir þessum göllum. Það er satt, það elur upp sérstaka skapgerð að taka á móti ferðamönnum og bukka sig og beygja fyrir þeim, en ég held, að það sé ekki hættulegt fyrir íslenzka skapgerð, því það er margt í íslenzku eðli, sem stríðir sterklega á móti því. Það er lítil hætta á, að Íslendingar verði síbukkandi, og ég er ekkert hræddur við þennan galla; en ég verð þó að segja það, að ef nokkuð miðar í þá átt, þá er það þetta frv.

Ég er á þennan hátt samþykkur þeirri hugmynd, sem felst á bak vil frv. En það er ákaflega táknandi fyrir stefnu hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarflokka hér á hinu háa alþ., að þegar þeim verður þessi hugmynd ljós, þá er farin þessi leið, sem hér kemur fram í þessu frv. Þeim dettur engin önnur leið í hug en sú, að leggja á nýja skatta og koma á stofn nýju ríkisfyrirtæki. Nú hefir þó fyrir áhuga einstakra manna nokkuð áunnizt um þetta á fyrirfarandi árum, og það er sagt frá því í grg. þeirri, sem frv. fylgir, að landsmenn muni fá um 200 þús. kr. árlega frv. útlendum ferðamönnum, og þetta sýnir, að dálítið hefir þó verið unnið að þessu af einstaklingum. Ég get verið samþykkur því, sem segir í áliti n., að kraftarnir séu enn fulldreifðir og of litlir og ekki nógu mikið gert til þess að hæna ferðamenn að landinn, en játning þess, að kraftarnir séu of litlir og of dreifðir, leiðir ekki nema í sérstaklega gerða heila þá hugsun, að ríkið eigi að taka þetta að sér og koma að einokunarlöggjöf og setja upp nýja ríkisstofnun, þegar á að vinna að því að hæna erlenda ferðamenn til landsins. Og það er ekki eingöngu, að setja eigi upp nýja ríkisstofnun, heldur á líka að banna einstaklingum að vinna áfram að þessum málum. En hvers vegna ekki, ef þeir hafa ekki trú á einstaklingunum til þess að vinna þessum málum gagn, að setja upp skrifstofu sína til þess að hæna útlenda ferðamenn að landinu og láta einstaklingana líka vinna að því? Menn geta kannske sagt um ferðamannaskrifstofurnar hér, eins og t. d. ferðamannaskrifstofuna Heklu, að það sé óhætt að róast á þær, en ég vil minnast á það, að ferðamannaskrifstofur úti um heim eru sérstaklega alþjóðleg fyrirtæki, og það eru til í þessari grein einhver þau alþjóðlegustu fyrirtæki, sem til eru í veröldinni, eins og t. d. ferðamannaskrifstofa í London, sem hefir skrifstofur í fjölda mörgum borgum vítt úti um heim. Ég hefi ekki farið um nema lítinn hluta af veröldinni, en æfinlega, hvar sem ég hefi farið, hefir í hverri borg verið skrifstofa frá þessu fyrirtæki og starfsdeildir þaðan á hverri járnbrautarstöð og við hvern lendingarstað. Menn munu nú vilja segja, að ekki sé svo komið hér á landi, en hv. allshn. veit þó, að þessi skrifstofa hefir starfað hér á landi. Ég vil nú spyrja hv. meiri hl. allsh., hvort hún hefir gert sér grein fyrir því, hvort þessi fyrirtæki muni vilja láta reka sig á burt, án þess að gera þann usla á móti, sem ferðaskrifstofa ríkisins vegur ekki á móti. Getur hv. allshn. ekki látið sér detta í hug, að þessi skrifstofa, sem á að annast um stóru farþegaskipin, geti unnið á móti ferlamannastraum til Íslands, ef ferðaskrifstofa ríkisins vinnur á þann hátt, sem hér er fyrirhugað? Ég held, að ef beina á ferðamannastraum til landsins, þá sé það skilyrðið að ná í lið með sér þeim stórfyrirtækjum, sem annast um þetta úti um víða veröld, og fá þau til að beina straumnum sem mest hingað.

Það getur vel verið, að hvorki Cook's skrifstofuna né aðrar muni mikið um þó, þó þær fái ekki að reka þessa starfsemi hér, en þessi fyrirtæki hafa sínar grundvallarreglur, sem þær starfa eftir og láta ekki breyta á móti að ósekju. Og ég gæti trúað eins og nú er víða tilhneiging til að draga allt undir ríkið, að þeir sæju þar vísi að öðru meira og hugsuðu sér, að bezt væri að stemma á að ósi og láta sjá það strax í byrjun að það borgi sig ekki að byggja starfsemi þeirra út. Mér finnst, að þetta gæti verið hættulegt og framúrskarandi fjarstætt, að ætla sér að efla og auka ferðamannastraum til landsins með því að banna þeim, sem áhuga hafa á því og í það vilja leggja, að gera nokkuð til þess.

Hv. 1. þm. Skagf. tók fram margt af því, sem ég vildi minnast á, t. d. það, að leggja skatt á þá útlenda menn og innlenda líka, sem ferðast með áætlunarbílum. Það þarf enginn ætla sér að telja nokkrum trú um, að það sé hægt að leggja 5% á hvaða fyrirtæki sem er án þess að starfsemi þess líði við það, og auðvitað kemur þetta fyrr eða síðar fram í hækkuðum fargjöldum. Þegar þessar ferðir eru settar undir opinbert eftirlit, sem á að sjá um, að ekki sé meira tekið í fargjöld heldur en nauðsynlegt er, þá er ekki nema um tvennt að velja: Eftirlitið er ekki í lagi og bifreiðaeigendur geta tekið of mikið, eða farseðlarnir hækka. Það er ekki hægt að greiða 5% án þess að það komi einhversstaðar við. Það er ekki hægt að leggja 50 þús. kr. á ári á bifreiðaferðir með áætlunarbifreiðum án þess að þess sjái stað. Mig minnir, að í grg. standi, að þetta eigi að koma í veg fyrir lækkun, en eigi ekki að leiða til hækkunar, en það er sama, hvort er, því sparaður eyrir er græddur eyrir, og það er ekki til að hlúa að ferðalögum í landinu að hækka fargjöldin með nýjum skattaálögum.

Eftirlitið með gistihúsum sýnir vel myndina af því, hvernig fer þegar ríkið hefir reksturinn með höndum. Þá eru engin takmörk á því, hvernig beita má hnefunum. Þá er bara að setja menn fyrir skrifstofurnar og láta þá hafa vald til að vaða uppi eins og þeim sýnist. Ef forstjóra ferðaskrifstofunnar líkar ekki að fullu við starfshætti einhvers gistihúss, þá hefir hann heimild til að svipta eiganda þess réttinum til að reka það og loka því - það er hvorki meira né minna! (JJ: Það er svo sem ekkert!). Nei, það er svo sem ekkert! Það má bara reka eigandann út, ef hann breytir ekki eftir því, sem skrifstofan vill vera láta. Hér er ekki gert ráð fyrir, á hvern hátt hann verði rekinn út, en ég held, að þessi atvinnurekstur og þessar eignir hljóti að vera eins og aðrar eignir verndaðar af stjórnarskránni, og ekki sé hægt að svipta menn þessum eignum án þess að skaðabætur komi fyrir, og þá gæti svo farið, að þessi ráðsmennska yrði nokkuð dýrkeypt.

Hv. 1. þm. Skagf. minntist á þetta einstaka ákvæði, að ferðaskrifstofan gæti ákveðið, að erlendir ferðamenn yrðu látnir sitja fyrir innlendum mönnum í gistihúsum. Þetta er nú meira en lítil afskiptasemi, - og hvernig á að framkvæma þetta? Ætla þeir, ef ferðamannaskip kemur hingað, að fara t. d. á „Hótel Borg“ og reka þá út, sem fyrir eru? Eða ætla þeir, þegar þeir t. d. vita, að skip leggur af stað frá Englandi, að halda svo auðu af herbergjum, að víst sé, að það nægi, og leigja svo þessi herbergi allan tímann þangað til skipið kemur?

Ég þykist vita, að þetta verði aldrei annað en dauður bókstafur, en þessu er svo undarlega háttað og er svo geipilega skriðdýrslegt, að ef þetta á að vera afleiðing þess, að Ísland verði ferðamannaland, þá borgar það sig ekki. Þarna kemur einmitt fram það, sem margir hafa óttazt, að Íslendingar yrðu að skriðdýrum, ef landið yrði ferðamannaland. Ef farið er svo langt að reka innlenda gesti úr gistihúsum vegna erlendra ferðamanna. þá er byrjað á þann freklegasta hátt sem hægt er í þessu efni. En ég veit, að þetta yrði aldrei hægt að framkvæma vegna almenningsálitsins.

Það er talað um í grg., að hér muni hafa verið okrað á erlendum ferðamönnum. Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Skagf., að við höfum engan áhuga fyrir því að fá hingað erlenda ferðamenn til annars en að græða á þeim peninga. Einstaka þjóðarvinir eru auðvitað undantekning, en yfirleitt er ferðamannastraumur ekkert annað en böl, sem menn leggja á sig til þess að hafa upp úr því fé, og sem ekkert annað er við að gera, og þá er auðvitað sjálfsagt að stilla öllu í það hóf, að sem mest sé upp úr því að hafa. Ekki að okra á ferðamönnunum, því þá fælast þeir frá, og ekki heldur að setja verðið svo lágt á það, sem þeir þurfa, að ekkert sé upp úr því að hafa, og við þetta verða þeir menn að vera, sem vanir eru og vita, hve langt má fara.

Ég vil benda á í sambandi við það, hvort okrað muni á útlendingum með bifreiðaferðir, að ég held að aldrei hafi komið fram kvartanir um það efni, og til að sýna fram á, að þetta stafar ekki af því, að ekki sé litið eftir verðlagi, má geta þess, að ár eftir ár komu fram kvartanir um, að vitagjöld hér væru of há, svo há, að ef skip ættu að koma hér við, þá væri nauðsynlegt að færa þessi gjöld niður. Ég flutti frv. um að lækka þessi gjöld um helming, og var það að sjálfsögðu samþ. Þessi félög, sem eru svona nákvæm að þau láta sig það máli skipta, hve vitagjöldin eru há, sem þau munar þó sannarlega ekki mikið um, þau hafa aldrei gert kvartanir um taxta á bifreiðum, og sýnir það, hve fjarri sanni það er, að okur á fargjöldum fyrir erlenda ferðamenn hafi hér spillt fyrir. Maður skyldi halda, að það kæmu þó einhverjar kvartanir fram, áður en þetta væri farið að spilla svo fyrir, að það væri farið að draga úr ferðamannastraumnum. Ég verð að hafa það fyrir satt, að hér sé bara reynt að firma ástæður fyrir máli, sem í raun og veru er erfitt að finna ástæður fyrir. Ég get fallizt á, að hér séu ekki fyrir hendi hjá einstaklingum þau samtök eða geta, sem þarf til þess að hrinda þessu stórkostlega máli í framkvæmd, því að þetta mál getur orðið stórmál fyrir þjóðarbúið. Þess vegna verður nauðsynlegt að hafa þarna einskonar samvinnu á milli þess opinbera og þeirra krafta útlendra og innlendra um þetta, þannig að hver aðili leysi sitt verkefni af hendi. Ég get hugsað mér strax sem verkefni þess opinbera upplýsingastarfsemi í útlöndum. Slíku má koma í kring, bæði gegnum ríkisútvarp og sendisveitir. Einstaklingar, sem hafa með þetta að gera, munu að sjálfsögðu annast þetta meðfram, t. d. gegnum þær stóru útlendu ferðaskrifstofur, sem yfirleitt hafa samvinnu margar saman á einhverjum mest áberandi stað í hverri borg um að setja auglýsingar sínar upp í hinum stóru auglýsingagluggum með myndum alstaðar að úr heiminum frá þeim stöðum, sem þær vilja beina sínum ferðamannastraum til. Það þarf að búa svo um, að Ísland verði auglýst þar einnig, með því að sýna þar fagrar myndir frá Íslandi á viðeigandi hátt. Þetta gætu umboðsmenn þessara ferðaskrifstofa annazt, sérstaklega ef ríkið stuðlaði að því að láta þá hafa efnið í þessar auglýsingar. Það er alveg bersýnilegt, að ef gerð væri íslenzk filma, þá mætti koma á hana ákaflega miklu af fögrum landslagsmyndum. Það sjást hér í búðargluggum í Rvík myndir, sem mundu hafa stórkostlegt auglýsingagildi með tilliti til ferðamanna hingað til lands sem auglýsingar í gluggum auglýsingaskrifstofanna.

Annað, sem ég gæti hugsað mér sem hlutverk ríkisins, er að haga samgöngum og samgöngubótum a. n. l. eftir þörfum ferðamannastraumsins. Það er t. d. alveg sjálfsagður kafli, þar sem þyrfti vegna ferðamannastraumsins að vera mjög greiðar samgöngur, leiðin að Geysi og öðrum náttúrufyrirbrigðum, svo sem til Sogsins, og þá má ekki gleyma Gullfossi. Einnig ber að greiða fyrir því, að ferðamönnum verði kleift að Beta virt fyrir sér hina tröllauknu náttúru landsins. Að mínu áliti þyrfti ríkið að stuðla að því, að fremur yrði hraðað vegagerðum, sem kæmu að notum í því skyni, t. d. að taka upp að Hvítárvatni. Þetta gæti ríkið án þess að leggja á sig nokkurn skatt sérstaklega. Þessum framkvæmdum þyrfti bara að aka til hvað tíma snertir, því að þessar vegabætur verða hvort sem er framkvæmdar. Ég gæti hugsað mér sem hlutverk ríkisins, sem það gæti ofur vel, að það veitti styrk eða lán til þess að ýta undir, að komið verð upp verulega góðum gistihúsum á næstu stöðum í byggð við ýmsa mikilfenglega staði í óbyggðum, sem eru aðlaðandi fyrir ferðamenn.

En það er þó kannske allra fyrsta skilyrðið fyrir því, að ferðamannastraumur komi til landsins, að Eimskipafélag Íslands hafi verulega hraðskreitt skip í förum á milli landa. Ég hefi orðið var við ýmsa enska ferðamenn, sem ekki eru auðmenn, heldur skrifstofumenn, kennarar, starfsmenn ýmissa fyrirtækja og aðrir slíkir, sem hafa þetta hálfs mánaðar og upp í þriggja vikna sumarfrí. Þetta sumarfrí notar þetta fólk til að fara eitthvað sér til gamans. Þarna eru milljónir af mönnum, körlum og konum, sem er um að gera fyrir okkur að ná í örlítinn hluta af til að ferðast hingað til lands. Það gæti orðið stórkostlegur auður fyrir Ísland að ná í tiltölulega mjög lítinn hluta af þessu fólki, þó ekki væri meira. Þetta fólk kæmi aðeins til stuttrar dvalar. Það kærir sig ekki um mikinn lúxus, og það má ekki selja því dýrt. Það gerir ekki mjög háar kröfur, og okkar hótel mundu verða við þess hæfi.

Ef þetta fólk kemur hingað í sumarfríi sínu, þá verður það að sæta þeim hörmulegu kjörum að liggja megnið af tímanum, sumt alveg dauðsjóveikt, í mjög ófullkomnum döllum, sem fara nú á milli Íslands og útlanda. Þegar það kemur svo aftur heim til sín er spurt um ferðir þess, þá segir það: Jú, landið er indælt, en ég vil samt ekki ráðleggja ykkur að fara til Íslands í sumarfríinu, því að menn hafa meira gaman af öðru í sumarfríinu en að liggja veikur meira en helming tímans.

Ég er alveg sannfærður um, að verulega hraðskreitt skip, sem væri eins og tvo til tvo og hálfan sólarhring á milli Englands og Íslands, og yrði að vera stærra skip en þau, sem nú eru hér, það væri eitt hið mest áríðandi í þessu efni, eitt hið fyrsta skilyrði fyrir því, að peningar þeir, sem þetta fólk, sem ég nefndi áðan, ver til þess að skemmta sér í sumarfríinu, kæmu hingað til okkar að einhverju leyti. Og það fé, sem ríkið setti í að koma upp og viðhalda slíku skipi, það mundi skila sér með góðum rentum og renturentum til þjóðarbúsins. Norðmenn hafa gert mikið að þessu. M. a. styrkti ríkissjóðurinn þar með hundruðum þús. útgerð skips, sem fór í þessu skyni á milli Englands og Noregs, sem var svo fullkomið ferðamannaskip, að það var eitthvert fínasta hótel Noregs. Og það fé skilaði sér margfalt aftur til þjóðarinnar. Í Noregi eru margir staðir, sem eru aðlaðandi fyrir ferðamenn, svo sem Sogn, Harangur, Voss og margir staðir í vesturhluta Noregs.

Þau skip, sem haldið hafa uppi beinum ferðum á milli Íslands og Englands, eru mjög leiðinleg skip. Það eru einkum skip Sameinaða gufuskipafélagsins, sem halda uppi þessum ferðum. Það, að ekki eru hentug skip í þessum förum, svo t. d. enskir ferðamenn geti fengið með þeim góðar ferðir á milli landa, er svo mikil tálmun þess, að ferðamannastraumur komi hingað til landsins, að gagnvart þeirri tálmun standa allar ferðaskrifstofur og annað slíkt alveg máttlausar. Í sambandi við þetta góða skip, sem ég tel í þessu tilliti nauðsyn á, að við eignumst verðum við þá líka að hafa sæmilega gististaði fyrir ferðamenn. Ég er sannfærður um, að ef ríkið ekki lætur sig þetta mál skipta, þá dregst um af framkvæmd þess. En ef það lætur þetta mál til sín taka, þá munu áreiðanlega vera til menn, sem vildu setja upp slíka gististaði, sem ég hefi nefnt. Það er ekki sagt, að undir eins þurfi að byggja gistihús upp við Hvítárvatn fyrir mörg þús. manns. En það yrði að vera gott, það sem það væri, og mætti svo þreifa sig áfram um fyrirkomulag á þessum hlutum, hvernig haga skyldi byggingum þessara gistihúsa. Þetta yrðu hús, sem notuð væru aðeins að sumrinu, og mætti því byggja þau úr ódýrara efni en ella þyrfti að vera. En þó að þau yrðu ekki ætluð til að nota þau í vetrarhörkum, þá yrði samt að vera hægt að hita þau upp.

Þó að ég hafi talað um umhverfið kringum Hvítárvatn, þá eru vitanlega margir aðrir staðir, sem hafa tröllaukna náttúrufegurð, svo sem Hveravellir o. fl. staðir.

Af því, sem ég nú hefi sagt, er hv. þm. ljóst, að ég er ekki frv. þessu fylgjandi eins og frá því er gengið. Ég hygg, að þetta mál hafi ekki verið nógu vel íhugað. Ég held, að í sambandi við þetta mál hafi verið miklu meira hugsað um að koma upp einni skrifstofu enn, - kannske til þess að koma einhverjum vissum mönnum í stöður - heldur en að athuga málið frá rótum, og að þess vegna liggi á því að koma skrifstofunni upp. Svona skrifstofa, sem egna mundi á sig aðrar ferðaskrifstofur, hún stæði alveg máttlaus gegn þeim. Gæti hún helzt annazt upplýsingastarfsemi.

Annars þarf, til þess að koma þessum málum í gott horf, stórt sameiginlegt átak allra aðilja, sem ég hygg, að mætti lánast jafnvel á erfiðum tímum, ef ríkið sýndi sig velviljað þessu stóra máli og gerði veigamiklar framkvæmdir í því.