05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (3205)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Magnús Jónsson. [óyfirl.]:

Ég vildi aðeins út af orðum hæstv. forseta, sem hann beindi til hv. d. um það, hvernig umr. á að haga, segja það, að hann hefir á réttu að standa. Það á ekki við samkv. þingsköpum að ræða mál almennt við 2. umr. En sannleikurinn er sá, að þetta tíðkast samt sem áður, og ákvæði þingskapa hafa að þessu leyti í raun og veru verið dauður bókstafur. Vil ég í þessu sambandi segja, að ég er ekki viss um, að það tefji fyrir málum. Það er orðið algengt að hleypa málum gegn um l. umr. umræðulaust, og eftir að n. hefir haft málið til meðferðar eru svo teknar upp frekari umr. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta spari tímann heldur en teygi hann, því að það vill jafnan verða svo, þegar umr. eru komnar á stað, að þær vilja verða nokkuð langar.

Ég skal ekki tefja umr. fram úr hófi. Það voru aðeins nokkur orð út af ummælum hv. frsm. meiri hl. í sambandi við það, hvernig ákveða beri fargjöld með bifreiðum. Hann telur fargjöldin oft hafa verið óeðlilega há. Það fer allt eftir því, við hvað er miðað. Hann virðist miða við nauðsynleg ferðalög innlendra manna, og er það þá sjálfsögð krafa, að taxti bifreiðanna sé sem lægstur. En þegar um erlenda ferðamenn er að ræða, er allt öðru máli að gegna. Þá á ekki að miða við annað en það, hvort fargjöldin séu svo há, að þau dragi úr ferðamannastraumnum, eða ekki. Við höfum ekkert með þessa menn að gera annað en að græða á þeim. Og það ber heldur ekki á því, að undan okkur hafi verið kvartað í þessu efni.

Viðvíkjandi því, að ein bifreiðastöð hafi ráðið mestu af þessum bifreiðaferðum, verð ég að segja það, að ég skil ekki, hvað þetta kemur Alþingi við. Þetta frv. miðar að því að fá peninga inn í landið með erlendum ferðamönnum, en Alþingi kemur ekkert við, hvernig þessir peningar skiptast. Ef einhver bifreiðastöðin reynist svo vel rekin, að hún fær flestar af þessum ferðum sé ég ekki ástæðu til, að Alþingi sé að amast við því. Mér er sama, hvort þetta fé gengur til umboðsmanna eða bifreiðastöðva. Aðalatriðið er, að þjóðarbúið hafi ágóða af þeim. Ég efast ekki um, að oft væri hægt að fá bifreiðar með ódýrara verði en gerist og gengur, ef klókur maður gengi milli stöðvanna og reyndi fyrir sér. En svona er þetta alstaðar. Ef ég hefi þurft að nota bifreið, hefi ég oft frétt eftir á, að hana hefði mátt fá ódýrar annarsstaðar. Það er ekki aðeins hér á landi reynt að hafa sem mest upp úr erlendum ferðamönnum. Við eigum margt eftir að læra í því efni.

Ég ætla ekki að fara hér út í það böl, sem leitt getur af miklum ferðamannastraum til landsins. Það er svo sem ekki að öllu leyti æskilegt að fá allan þennan lýð hingað og sumir drættir í skapgerð manna, sem af honum mótast, eru allt annað en eftirsóknarverðir. Ef ekki er hægt að hafa fé upp úr ferðamönnunum, er ekki óskandi eftir þeim. Oft bera þeir landinu ranga söguna. Sumir segja t. d., að hér sé fullt af ísbjörnum, að hér sé „plenty ice and snow“, eins og einn skrifaði á bréfspjald heim til sín.

Það getur verið, ef frv. verður samþ., að ég beri fram brtt. til 3. umr. Þó að ég sé ekki á móti því, að þessi leið sé farin, álít ég samt, að hægt sé að gera nokkrar umbætur. En málið hefir ekki verið nægilega rannsakað enn sem komið er.