07.12.1935
Efri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (3208)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 724, enda þótt ég, eins og ég lýsti við 2. umr. málsins, sé í raun og veru vonlítill um, að þetta mál verði leyst í fullnægjandi hátt með þeirri löggjöf, sem hér er á ferðinni. Ég lýsti þá minni skoðun á þessu ferðamannamáli yfirleitt og skal ekki endurtaka það hér, en það eru að ýmsu leyti talsvert aðrar aðferðir, sem þyrfti að gera að mínu viti heldur en að byrja á að setja upp þessa ferðamannaskrifstofu hér. Þetta er áreiðanlega eitt af þeim málum, sem er ekki til mikils að káfa í hér á þingi. Það eru fleiri hliðar, sem verður að snúa sér að, ef þetta á að verða að verulegu gagni. Það má vel fara svo með þetta mál, að það hafi í för með sér talsverðan kostnað fyrir ríkið án þess að það eiginlega beri nokkurn árangur, en verði bara kostnaður, í stað þess að ef hægt væri að sameina þá nauðsynlegu liði, sem hér koma til greina, þá gæti það vel borgað sig, þó að í það færi talsvert fé, vegna þess að það mundi skila sér aftur.

Enda þótt ég hafi þessa skoðun á málinu, þá hefi ég samt sem áður borið fram brtt. við þetta frv. til þess að nema af því það, sem mér hefir þótt óviðkunnanlegast við það. Sérstaklega er það fyrsta brtt., sem er veruleg efnisbreyt., því að með henni ætlast ég til þess, að ríkið taki sér ekki nein einkaréttindi til þess að reka slíka skrifstofu. Mér finnst það vera hrein fjarstæða, þegar á að auka ferðamannastraum til landsins, að vilja leggja niður þá starfsemi, sem hingað til hefir verið framkvæmd í þessu skyni og gæti vel haldið áfram og komið að gagni. Það er einkennilegt, að ætla sér að auka ferðamannastrauminn með því að leggja niður þessa starfsemi. Þetta get ég ekki með nokkru móti gengið inn á og legg því til, að úr 1. gr. verði fellt niðurlag síðustu setningar, nefnilega það, sem gefur ríkinu einkarétt til að hafa þessa starfsemi á hendi, svo að öll sú starfsemi, sem til er í landinu í þessa átt, geti staðið eftir sem áður. Það er bæði til þess, að þeir menn geti beitt sér að þessu, sem nú hafa fengið nokkra kunnugleika á þessu, og sömuleiðis að þær erlendu ferðamannaskrifstofur geti haft hér sína umboðsmenn, ef þær vilja, því að langsterkasta aflið til þess að beina ferðamannastraumnum í ákveðna átt eru áreiðanlega hinar stóru ferðamannaskrifstofur erlendis.

Ég get yfirleitt ekki séð, hvað ætti að geta verið á móti því að leyfa fleirum en ríkinu að hafa þessa starfsemi á hendi. Það mætti kannske benda á það, að með því að ríkið hefði þetta eitt með höndum, þá gæti skrifstofan fengið meiri tekjur, náð þeim tekjum, sem þarna er um að ræða. En ég held, að þetta sé alls ekki höfuðtilgangurinn, að láta þessa litlu skrifstofu bera sig sem bezt. Tilgangurinn hlýtur að vera sá, að ná inn í landið því, sem ferðamenn skilja eftir.

Ég veit um það, að a. m. k. þar sem ég hefi farið um, t. d. í Noregi, þar er í sambandi við ríkisbrautirnar ferðamannaskrifstofa, sem ég minnist vel, vegna þess að ég held, að ég hafi hvergi hitt eins einstaka lipurð eins og þar. Ef maður kemur þarna og hugsar sér að fara 1-2 daga krók um leið og farið er til Osló, þá getur maður fengið þarna mann, sem sæti yfir manni heilan dag, ef maður vildi, til þess að leiðbeina manni á allan hátt. Það er svo hér um bil í öllum löndum, sem ég hefi komið til, að ríkið rekur þetta sjálft án þess að láta sér detta í hug að fá nokkurn eyri fyrir allar sínar leiðbeiningar. Þetta er bara gert til þess að hæna menn að. Svona er það líka á Spáni. Þar er í hverjum einasta bæ skrifstofa, sem veitir ókeypis upplýsingar um allar mögulegar ferðir. Þar var maður með mér meira en heilan dag til þess að útbúa „plan“, sem ég ætlaði að ferðast eftir, og tók ekkert fyrir það, en svo starfa skrifstofur einstaklinga við hliðina á ríkisskrifstofunum. Ríkið gerir sitt til að gefa allar mögulegar upplýsingar, en leyfir um leið öllum, sem geta gert gagn, að starfa einnig að þessu. En það, sem liggur hér á bak við, er þessi eilífi „tendens“, að ríkið hafi allt, en allir aðrir séu reknir burt. Við hlaupum hér yfirleitt langt fram úr því, sem þekkist nokkursstaðar í okkar nágrannalöndum, að hrifsa allt undir ríkið, en reka alla aðra burt. Og þegar ekki er um stærra atriði að ræða en þetta, þá finnst mér, að þessi ferðamannaskrifstofa gæti fyrst starfað við hliðina á þeim skrifstofum, sem eru fyrir, og sjá, hvernig sú samvinna gengur. Þetta er aðalatriðið í minni brtt.

2. brtt. mín felur eiginlega í sér tvö atriði, þ. e. a. s. að fella niður einn málslið í 5. gr., og ég sé, að hæstv. forsrh. leggur til að fella niður einn af þessum málsliðum. Það er sem sé liðurinn um það, að láta útlenda ferðamenn sitja fyrir innlendum mönnum á gistihúsum. Ég sé, að hann hér fram brtt. um að fella þetta niður, og það felst í minni brtt. líka. Hún gengur bara það lengra að ég vil byrja einum málslið fyrr og fella líka niður heimild þá, sem stj. er gefin í þeim málsl. til þess að svipta eigendur gistihúsa og veitingahúsa rétti til þess að reka þau, ef þau láta ekki skipast við umvöndun ferðamannaskrifstofunnar. Ég er ekki svo mikill lögfræðingur, að ég geti fullyrt, hvort þetta fær staðizt, en þegar á það er litið, hverjar þessar sakir eru, þá sér maður, að svo er fyrirskipað, að á gistihúsum skuli gætt hreinlætis, prúðmannlegrar umgengni og góðs aðbúnaðar ferðamanna. Finni skrifstofan, að ekki sé nógu gott lag á þessu, þá vandar hún um við þann, sem rekur gistihúsið, en láti hann sér ekki segjast við það, þá má svipta hann leyfinu. Ég vil fella þetta niður, en vil halda því, að ferðamannaskrifstofan hafi eftirlit með þessu, og finni hún, að ekki sé allt í góðu lagi, þá geti hún skipt sér af því, og það er vissulega nóg, að haft sé eftirlit af hálfu þess opinbera og dregið fram í dagsljósið, ef eitthvað er öðruvísi en það á að vera á gistihúsunum. Hvað gistihús mundi standast það, og hvaða gistihús mundi vilja leiða yfir sig þau traustsspjöll, að ferðamannaskrifstofan yrði að vara menn við þessu gistihúsi, vegna þess að þar skorti svo mjög á hreinlæti og kurteislega framkomu og góðan aðbúnað? Hitt, að geta svipt eigendurna leyfi til að reka þessa eign sína, það er allt of gífurlegt. Ég veit ekki, hvort þetta kemur í bága við eignarréttarheimild stjórnarskrárinnar, en það er nærri því að svipta mann eign sinni, að reka hann úr þeirri stöðu, sem hann er í sökum kunnáttu sinnar, auk þess sem hann hefir fest fé sitt í þessari eign.

Þá hefi ég í þriðja lagi lagt til, að 8. gr. falli niður, og þá er af því, að mér er ómögulegt að sjá annað en að hún sé óþörf. Það er búið að taka það fram í 7. gr., að það eigi að leggja stimpilgjald á farseðla, en svo kemur í 8. gr., að skylt sé að afhenda farþegum, sem fluttir eru í bifreið gegn greiðslu, farseðil, enda sé farseðillinn stimplaður eins og mælt er fyrir í 7. gr., en í 7. gr. er aðeins talað um farseðla með bifreiðum, sem hafa fastar áætlunarferðir. Mér finnst þetta reka sig hvað á annað, því að 8. gr. gerir ráð fyrir, að stimplaðir farseðlar séu afhentir öllum, sem eru fluttir í bifreiðum fyrir borgun, því að í gr. stendur ,enda sé farseðillinn stimplaður“.

Það er vitanlegt, að um þetta má setja nánari reglur, ef með þarf, en það er vitanlegt, að stimpilgjald er ekki hægt að leggja á farseðla, nema þeir séu afhentir. Ég held því, að óhætt sé að segja, að þessi gr. megi falla niður, bæði af því að hún er óþörf og mjög óskýrt, við hvað er átt með henni. Hún gæti átt við, að stimpla skyldi alla farseðla, og 7. gr. væri þá um það, að ákveða gjaldið sérstaklega fyrir farseðla með áætlunarferðum. - Skal ég svo ekki tala frekar fyrir þessum till. að sinni.