20.12.1935
Sameinað þing: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

1. mál, fjárlög 1936

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það er ekki langt mál, sem ég að þessu sinni mun flytja fram út af brtt. þeim, sem fram eru komnar við fjárl. og hefi nokkuð með að gera.

Ég get verið hv. fjvn. þakklátur fyrir, að hún hefir séð, að sanngjarnt var að taka upp till. þá, sem áður var flutt um kaup á jörðunum í Mýrdalnum. er sæta ágangi Hafursár. Nú er till. komin sem bókstafur k undir 64. brtt. á þskj. 891. Hv. fjvn. hefir verið það ljóst, að ekki varð hjá því komizt, að ríkið tæki nokkra ábyrgð á þeim framkvæmdum, sem þarna voru gerðar, sem að nokkru leyti miðuðu til bóta hvað samgöngur snerti, en hafa hinsvegar orðið til þess, að þessar umræddu jarðir, þrjár að tölu, liggja undir skemmdum, nema tekið sé í taumana og býlin færð saman og búið til eitt eða tvo býli úr þeim öllum.

Annars vil ég harma það, að hv. fjvn. hefir ekki getað fallizt á að taka hinar till. með, og ekki heldur að mæla með till. frá mér, sem ég bar fram við 2. umr. fjárl., sem sé um að hækka framlagið til Síðuvegarins úr 3 þús. kr. upp í 6 þús. kr.

Það einkennilega kom til í þessu máli, að þó að vegamálastjóri legði fyrir ráðherra till. um, að til þessa vegar skyldi varið miklu hærri upphæð þá var ekki sett í frv. stj. hærri upphæð en þessar 3 þús. kr., sem er algerlega ófullnægjandi. Hv. fjvn. hefir ekki séð sér fært, eða a. m. k. ekki treyst sér til þess að laga þetta. Ég taldi þó, að hún mundi geta tekið öðruvísi í málið, þegar henni var sýnt fram á nauðsyn þessa. Þessi till. er ekki sérstaklega borin frum til þess að hækka óheyrilega það framlag, sem lagt er í sýsluna til vegagerðar. En minni fjárhæð en 6 þús. kr. kemur naumast að notum, en með 6 þús. kr. framlagi má ætla, að þessi vegarkafli, sem nú er hálfgerður, verði fullgerður.

Hv. 1. frsm. fjárl. er því miður ekki viðstaddur, en ég hafði ætlað mér að hafa nokkur ummæli um þennan veg og reifa málið á ný, og vænti ég, að hinir aðrir flokksmenn hans, sem hér eru viðstaddir, skili því til hans.

Það blandast engum, sem til þekkir, hugur um, að brýn nauðsyn ber til þess að fullgera þennan veg, og sama máli gegnir um hina aðra brtt., 10. lið á þskj. 890, þar sem farið er fram á að hækka framlagið til Mýrdalsvegarins úr 5 þús. kr. upp í 8 þús. kr. Þarna í Mýrdalnum stendur einnig svo á, að þetta framlag kemur ekki að haldi nema það sé hækkað eins og ég legg til.

Það getur meira að segja komið til, að þegar allur vegurinn frá Rvík austur í Skaftafellssýslu er fær og engar hindranir af vötnum, þá verði ekki á vissum kafla í Mýrdalnum kunnizt áfram. Þessar 5 þús. kr. eru alls ónógar, en það minnsta er 8 þús. kr.

Ég hafði vænzt þess, að fjvn. tæki þessar till. upp. en hún hefir enn þá ekki gert það. Sérstaklega hefði mér fundizt það vel við eigandi, eins og ég benti á við 2. umr., samanborið við það, að n. hefir tekið upp allmikla vegakafla fyrir áhrif frá hinum og þessum þm., sem að vísu hafa haft betra eyra hjá hv. fjvn. heldur en þm. V.-Sk. Ég veit, að vegamálastjóri hefir ekki verið um þetta spurður, en það er lagt til þessara vega í þúsundatali. Ég vænti þess að hv. frsm., sem fær þessi orð mín send, taki vel í þessi atriði, þó að nokkuð sé orðið áliðið hjá nefndinni til þess, að taka upp till.

Þá skal ég aðeins með fáum orðum víkja að till. minni undir XXXII lið við 16. við. 34 lið. Þar sem farið er fram á lítilsháttar styrk til handavinnukennslu í Vestur-Skaftafellssýslu. Á undanförnum árum hafa verið veittar um 500 kr. einu kvenfélagi til þess að halda uppi námskeiði í handavinnu. Nú hafa risið upp kvenfélög víðar, sem taka þetta sama fyrir og hafa haldið uppi námskeiðum án þess að fá styrk til þess. Það eru eitthvað 3 eða 4 kvenfélög, sem hafa risið upp á síðustu árum, og hafa þau öll beitt sér fyrir kennslu í handavinnu. Tel ég því sjálfsagt, að þeim sé veittur styrkur til þessarar starfsemi sinnar og fer fram á 500 kr. hækkun, og skuli styrkurinn veittur til kvenfélaga í V.-Skaftafellssýslu, í staðinn fyrir þessu eina kvenfélagi, sem naut hans áður óskipts. Ég vænti þess, að hv. fjvn. líti sanngjörnum augum á þetta og lofi till. að ná fram að ganga.

Ég býst við, að þessi till. eða aðrar líkar þessari nái fram að ganga, þó að þær komi svona seint fram. Ég lýsti því við 2. umr., að svona till. gæti komið fram, svo að það má segja, að hv. fjvn. sé hún ekki ókunnug. Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa lengra mál; ég á sjálfur ekki fleiri brtt. heldur en nú hafa verið greindar og vil því lofa öðrum að fá orðið, sem eftir eiga að tala.