07.12.1935
Efri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2233 í B-deild Alþingistíðinda. (3210)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég vildi segja nokkur orð um þetta mál út af aths. hv. 1. þm. Reykv. Hann minntist á nokkur atriði frv. og fleira við víkjandi ferðamannamálunum. En þar sem ég var í fyrravetur í þeirri n., sem undirbjó þetta mál, þá vil ég láta þess getið, hvað fyrir n. vakti, þegar hún lagði það til, að ferðamannaskrifstofa, rekin af ríkinu, væri ein um það hlutverk, að veita erlendum ferðamönnum við töku hér á landi. Ég get tekið undir það, sem hæstv. forsrh. sagði um mistök hjá þeim ferðaskrifstofum, sem hér hafa starfað. Ég hygg, að það hafi aðallega verið þrjár ferðaskrifstofur, allar mjög vanmáttugar. Og engin þeirra hefir haft nokkurt bolmagn til þess að gera nokkuð „propaganda“ erlendis. Þó hygg ég, að sú fátækasta hafi kostað mestu til í því efni, enda þótt hún hefði minnsta getu til þess.

Út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að samkeppnin væri heppilegust á þessu sviði, vil ég benda honum á, að flokksbræður hans trúðu því lengi vel, að samkeppnin væri heilladrýgst við útflutning og sölu á saltfiskinum. En þrátt fyrir marga ára reynslu og kunnáttu í þeim verzlunarháttum, þá komust þeir sjálfir fyrir þremur árum síðan, að þeirri niðurstöðu, að Íslendingar, og hinir einstöku fiskseljendur, væru of smáir og máttlitlir til þess að standast samkeppnina á heimsmarkaðinum. Þess vegna vildu þeir stofna fisksölusamlagið. Og nú er komið það skipulag á fisksöluna, sem ætlazt er til, að verði á ferðamannamálunum, þar sem ein skrifstofa á að veita þeim forstöðu.

Ég vil minna á það, að þegar skipulagi var komið á fisksöluna, þá þótti það nóg til þess að veikja samtökin, þó að ekki væri nema ein fiskverzlun utan fisksölusamlagsins. Ég get sagt hv. 1. þm. Reykv. það, að ég álít, að það hefði vel getað komið til mála að reka ferðamannaskrifstofuna sem einstaklingsfyrirtæki, ef einhver af þeim ferðamannaskrifstofum, sem hér hafa starfað, hefðu farið þannig af stað, að hún gæti talizt nægilega sterk og traust stofnun til þess að vera fær um að hafa yfirumsjón með ferðamannastraumnum. En ég held það sé óhætt að fullyrða, þó að ekki sé fullkomin vissa fyrir, að það sé að öllu leyti kunnugt, að öflugasta ferðaskrifstofan, sem starfað hefir hér á landi og gert að mörgu leyti gagn, hefir selt útlendum ferðamönnum svo dýrt fyrirhöfn sína og leiðbeiningar, að það gengur ósvífni næst. Og ekki er hægt að hugsa sér meira ósamræmi en komið hefir fram í störfum þessarar skrifstofu, ef borið er saman við starfshætti Norsku ferðamannaskrifstofunnar, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði réttilega frá, þar sem norsku ríkisjárnbrautirnar eru látnar greiða sem allra bezt fyrir erlendum ferðamönnum. Þessi framkoma ferðaskrifstofanna hér á landi útilokar það með öllu, að nokkrum geti dottið í hug að styðja þær til starfa, af því það hefir sýnt sig, að þær eru ekki á réttri leið.

Ég vil benda á það, að í Svíþjóð voru tvær ferðamannaskrifstofur; var önnur þeirra rekin undir yfirumsjón ríkisins, en hin sem einkafyrirtæki. Í Svíþjóð eru um 6 millj. íbúa, og þar þótti ekki ástæða til að hafa fleiri ferðamannaskrifstofur. Það sýnist því fullljóst, þegar litið er á smæð og fámenni okkar Íslendinga og þá reynslu, sem við höfum fengið í þessu efni, að það tekur því ekki að skipta slíkum störfum milli margra aðilja. Það vill verða svo í framkvæmdinni, að samkeppnin gerir fyrirtækin of veik og vanmáttug.

Ég álít, að samkv. reynslu þeirra nágrannaþjóða, sem eru okkur skyldastar, þá séum við á réttri leið með því að gera það tvennt, að styrkja Ferðafélag Íslands og starfrækja eina skrifstofu fyrir erlenda ferðamenn. Sú skrifstofa þarf vitanlega að reka fjölbreytta fræðslustarfsemi um landið og þjóðina, bæði utanlands og innan, en þó sérstaklega fyrir útlendinga.

Ég vil taka það fram, að Ferðafélag Íslands, sem hér hefir starfað síðustu missirin, hefir að vísu sótt um lítilsháttar styrk úr ríkissjóði á þessu þingi, og þó að fjvn. hafi ekki séð sér fært að verða við þeirri beiðni að svo stöddu, þá hefir n. fullan skilning á verkefni félagsins og samúð með því. Ferðafélag Íslands hefir tekið alveg rétta línu, með því að kynna sem flestum landið og náttúrufegurð þess, og það hefir byggt mjög myndarlegt sæluhús við Hvítárvatn. Ég verð að segja það, að ef hér væri starfandi ferðamannaskrifstofa fyrir erlenda ferðamenn, sem hefði farið eins myndarlega af stað og Ferðafél. Ísl. hefir gert, þá hefði mátt veita henni einkaréttindi á því sviði. Ég vil taka það fram, að þeir menn, sem hafa beitt sér fyrir stofnun og starfi Ferðafélagsins, hafa unnið þannig og með þeim árangri, að það má vera öllum gleðiefni. - Í Svíþjóð eru um 1/2 millj. manna í ferðamannafélagi, sem byggt hefir fjölda sæluhúsa og ferðamannaskála víðsvegar um landið, og hefir þannig rekið nokkurskonar Rauðakrossstarfsemi fyrir ferðafólk og túrista, en ekki sem gróðafyrirtæki. Svo koma ferðamannaskrifstofurnar, sem hafa hagnað af því að selja ferðamönnum þjónustu sína og fyrirhöfn, og eru fráskildar ferðafélaginu.

Ég skal ekki fara langt út í það, sem hv. 1. þm. Reykv. var að finna að um það aðhald og eftirlit, sem samkv. frv. á að hafa um rekstur gistihúsa. En þó að frv. verði samþ. eins og það nú er, með þeirri ákvörðun, að ferðamannaskrifstofan hafi eftirlit með hreinlæti á gistihúsum, og þó að nú séu í lögum ákvæði um svipað aðhald gagnvart veitingahúsum, þá vil ég benda á, að það er fullkomin þörf á, að skipað verði fyrir um skoðun og eftirlit með þeim skipum og bifreiðum, sem erlendum ferðamönnum er ætlað að nota. En ég geri ráð fyrir, að slíku aðhaldi verði beitt með hófsemi, hvort heldur væri gagnvart gistihúsum eða ferðamannabílum. Það væri náttúrlega ekkert vit í því að svipta menn réttindum til þess að reka gistihús, nema ærnar sakir væru fyrir hendi, eins og hv. þm. tók fram. En þar sem búast má við, að ferðamannastraumurinn aukist mjög í sambandi við endurvakningu Geysis, þá verður að gera harðari kröfur en ella um viðbúnað til móttöku ferðamanna. Við verðum að fá þar gistihús og víðar. Okkur vantar viðunandi þjónastétt, bæði á gistihúsum og á skipunum. Það eru yfirleitt ótal hlutir, ekki sízt þeir, sem í fljótu bragði virðast vera litlir, er við þurfum að bæta úr.

Ég get nefnt dæmi um það, hvað litlir hlutir í þessu efni geta skipt miklu máli. Útlendur maður, sem er kunningi minn, hefir sagt mér tvö dæmi um það, hversu mikil þörf er á því að sýna erlendum ferðamönnum nærgætni á gistihúsum. Hann benti mér á, að á gistihúsum utan Reykjavíkur, vantaði víðast hvar dökk tjöld fyrir glugga. Þó að við Íslendingar séum því vanir að sofa um bjartar sumarnætur, þegar sólin er á lofti um miðnættið, þá heldur birtan vöku fyrir útlendingum, sem eru vanir dimmum nóttum. En okkur dettur ekki í hug, að þetta geti verið neitt verulegt atriði fyrir gestina. Ég býst ekki við, að neinum gestgjafa hér á landi detti það í hug, hvað slíkir smámunir og þetta eru í okkar augum geta haft mikla þýðingu fyrir útlendinga. - Hitt dæmið, sem sami maðurinn benti mér á, er það, að í mörgum gistihúsum hér á landi er engin vatnsleiðsla, eða rennandi vatn, og þá þykir það sumstaðar fullnægjandi að færa gestum t. d. hjónum, eina þvottaskál. Þetta þekkist hvergi erlendis, t. d. í gistiskálunum í Svíþjóð. Þó að þar sé ekki mikið borizt á, þá eru hjónum æfinlega ætlaðar tvær þvottaskálar. Að vísu má kalla þetta smámuni, en þeir hafa þó sína miklu þýðingu. Og það eru þúsund atriði af þessu tægi, sem við eigum eftir að færa í lag og ferðamannaskrifstofan þarf að leiðbeina um og hafa eftirlit með. Það verður dálítið erfitt fyrst í stað, af því að gistingarstaðirnir eru svo dreifðir um landið. Ég hefi fremur kosið að nefna smærri agnúana, af því að ég vil frekar sneiða hjá því að telja fram hina stærri annmarka á þjóðinni í þessu efni; en það, sem ég hér hefi drepið á, ber vott um, hvað við eigum mikið eftir að læra, jafnvel á hinum stærri gistihúsum, í umgengni gagnvart útlendingum. Það má vel vera, að hv. 1. þm. Reykv. sannfærist ekki af því, sem ég nú hefi sagt, um þörfina á því, að hafa eftirlit með gistihúsum. En það hlýtur hann að sjá og viðurkenna, sem reynslan bendir til um allan heim og hnígur í þá átt, að öll stærri verkefni eru nú leyst með samtökum eða „trustum“. Það hefir stundum mikið verið talað um hina marglofuðu frjálsu samkeppni og hvað hún væri farsæl. En hún er bara búin að vera í bili. Ef til vill kemur hún aftur til sögunnar, en þá verðum við sennilega dauðir. - Nú eru það stóru hringarnir, sem ráða í heiminum, og við erum því nauðbeygðir til þess að beita starfsorku okkar í samræmi við það lögmál, á þessu sviði sem öðrum, ekki sízt þar sem við erum byrjendur í því starfi, að gera þetta land að ferðamannalandi.