20.12.1935
Sameinað þing: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

1. mál, fjárlög 1936

Jörundur Brynjólfsson:

Ég hefi leyft mér að bera hér fram brtt. við 22. gr. fjárl. ásamt hv. samþm. mínum, um að heimila ríkisstj. að kaupa Kaldaðarnestorfuna í Árnessýslu, ef aðgengilegir skilmálar fást um verð og greiðslu. Þetta er eitt af höfuðbólum sýslunnar, liggur vel í héraði og ríkið á þarna lönd við, sem það hefir tekið á móti upp í áveitukostnaðinn og tilætlunin mun vera að reisa á nýbýli. Land jarðarinnar er mjög stórt og frjótt og liggur vel, svo þarna væri hægt að koma fyrir fjölda nýbýla, ef það væri keypt til viðbótar við það land, sem ríkinu hefir þegar verið afhent á þessum slóðum. Tel ég því vel til fallið, að ríkið kaupi þessa jarðeign, ef aðgengilegir skilmálar fást einmitt með tilliti til býlafjölgunar. Ég skal geta þess hér sem aukaatriðis, þó það kunni að hafa nokkra þýðingu á sínum tíma, að í landi jarðarinnar er hinn bezti sjálfgerði flugvöllur, sem til er á landinu, og mætti með litlum tilkostnaði gera hann vel úr garði. Þegar frá líður er ekki gott að segja, hverja þýðingu það kann að hafa.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Vona ég, að stólarnir skili þessum orðum mínum til þeirra, er þá eiga að skipa, er þeir koma, og efast ég þá eigi um áhrifin, ef í engu er brenglað mínum röksemdum.