20.12.1935
Sameinað þing: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

1. mál, fjárlög 1936

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég ætla að drepa á það, er hv. 1. þm. Skagf. sagði í gær í sambandi við brtt. n. um framlagið til hafnargerðar á Ísafirði. Taldi hann, að með 20 þús. kr. framlagi væri Ísafjarðarhöfn mun betur sett heldur en aðrar hafnir, og mundi þó jafnvel eiga að fá greidda vexti af skuldum hafnarsjóðs að einum fjórða hluta, eða sem svarar ríkissjóðsframlaginu. Ég vil ekki láta þessi ummæli standa ómótmælt í þingtíðindunum. Því fer fjarri, að hér sé rétt frá skýrt. Þegar ríkisábyrgð var heitið og samningar gerðir um lántöku, mun hafa komið til orða, að dreift yrði á langt tímabil framlagi ríkissjóðs, eða allt að 12 árum, sem er sá tími, er lánið á að greiðast á. Ég held það sé ekki ofmælt, þó sagt se, að bæjarstj. hafi verið veittur ádráttur um, að ríkissjóður tæki þátt í vaxtagreiðslum hlutfallslega við sitt framlag; um þetta eru þó ekki til bréf í ráðuneytinu. Ég átti tal um þetta efni við fjvn.,og hún var því mótfallin, að ríkissjóður færi inn á þá braut að taka þátt í slíkum vaxtagreiðslum. Var því horfið að því ráði að hækka framlagið til þessarar hafnargerðar og stytta þannig þann tíma, sem ríkið greiðir á sitt framlag, en greiða ekki neitt upp í vexti. Fjvn. mun hafa talið það varhugavert fordæmi að fara inn á þá braut að taka þátt í slíkum vaxtagreiðslum; viðurkenni ég, að hún hefir þar nokkuð til síns máls, enda fer fjarri því, að um nokkuð slíkt sé að ræða í sambandi við þessa till. Kostnaðurinn við hafnargerðina á Ísafirði mun vera um 400 þús. kr. Upp í það er ríkissjóður enn ekki búinn að greiða nema 5000 kr. Ógreitt er því af framlagi ríkissjóðs, sem á að vera 1/4 kostnaðar, um 100 þús. kr. Til þess að sýna, að það fer fjarri því, að Ísafjörður njóti í þessu efni betri kjara en aðrir staðir, skal ég benda á nokkur dæmi.

Á Akranesi er kostnaður við bryggjugerðina talinn 590 þús. kr. Af því er ríkissjóður þegar búinn að greiða 125 þús. kr.; ógreitt mun vera um 10 þús. kr., ef allt er tekið með, en samþykki ríkisstj. mun ekki liggja fyrir um síðara hluta verksins.

Til hafnarinnar á Ísafirði á ríkissjóður eins og áður er sagt að greiða 1000 þús. kr., eða 20 þús. á ári í fimm ár.

Til hafnargerðarinnar á Skagaströnd er búið að kosta um 200 þús. kr., og þar af hefir ríkissjóður þegar greitt 50 þús., og í þessum fjárl. er gert ráð fyrir 8 þús. kr. framlagi.

Framlag ríkissjóðs til Sauðárkrókshafnar er gert ráð fyrir, að skiptist á 10 ár, enda er þar um margfalt meira verk að ræða. Á framlagið að nema 23 þús. kr. á ári.

Hafnargerðin á Húsavík er áætlað, að kosti 450 þús. kr. Til hennar eru ætlaðar 25 þús. kr. í þessum fjárl. og gert ráð fyrir, að það haldi áfram.

Ég vildi benda á þessi dæmi til að sína, að það er rangt, að Ísafjörður sé nokkuð sérstaklega vel settur í þessu efni; hann er það ekki, nema síður sé.

Ég hygg, að ég geti látið vera að ræða hér einstakar brtt. að svo stöddu, a. m. k. þangað til sérstakt tilefni gefst til.