16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2242 í B-deild Alþingistíðinda. (3230)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Jóhann Jósefsson:

Fyrir stundu síðan var útbýtt til þm. seðli, um að 3. umr. fjárl. yrði næstkomandi miðvikudag, og skyldu þm. vera búnir að skila brtt. við þau til skrifstofustjóra í síðasta lagi fyrir kl. 9 annað kvöld. Nú er það vitað, að 3. umr. fjárl. er afdrifamikil fyrir afgreiðslu fjárl., og ýmislegt, sem tekið er aftur við 2. umr., mun verða tekið upp. Ég vil því beina til hæstv. forseta í viðbót við það, að því hefir verið lofað, að Sjálfstfl. fengi að hafa sína reglulegu fundi, hvort hann sjái ekki, að Sjálfstfl. er þetta nauðsynlegt, til þess að hann geti borið sig saman við sína nm. í fjvn., og annað það að bera sig saman um brtt., sem einstakir þm. koma fram með, eins og gert var fyrir 2. umr. Þá var a. m. k. í Sjálfstfl. talað um það, hvaða brtt. þm. ætluðu að koma fram með. Kvöldið í kvöld virðist mér vera einasti tíminn, sem hægt er fyrir Sjálfstfl. að hafa nokkurt næði, til þess að athuga þetta mál, þar sem menn eiga að hafa skilað brtt. fyrir kl. 9 annað kvöld, og ég geri ráð fyrir, að á morgun verði þrotlausir deildarfundir.