17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2263 í B-deild Alþingistíðinda. (3239)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]: Ég var að vona, að hv. þm. Hafnf. risi hér upp til þess að verja þetta mál, því að honum mun ekki vera það með öllu óviðkomandi. Hv. þm. Vestm. hefir nú hrakið lið fyrir lið allt, sem þessi hv. þm. kom fram með áður. Og í sambandi við þær tölur, sem hann kom fram með viðvíkjandi þeim kostnaði, sem kæmi fram í þessari bók frá ferðaskrifstofu Cook's, er það að segja, að þessar tölur eru, eins og hv. þm. tók fram, frá árinu 1931, og þess vegna ekki að öllu sambærilegar við það verð, sem nú er. Og í öðru lagi er í þessum kostnaði falið allt, sem viðkomandi ferðamaður á að greiða, frá því, að hann stígur á skipsfjöl og þar til hann stígur aftur af skipsfjöl á þeim stað, sem hann ætlar á, hvort sem um er að ræða Hull, Leith eða Hamborg. (EmJ: Þetta er rangt). Það stendur, að það sé allur kostnaður innifalinn í þessu verði. (EmJ: Nei, það er ekki rétt, ég skal sanna það). Hv. þm. sannar það með álíka góðum heimildum eins og þegar hann las upp tölur hér áðan til þess að slá ryki í augu manna, svo að þeir sæju ekki hinn raunverulega kostnað. Ég skal ekki segja, hvað kann að standa einhvers staðar í þessari skrá, það skiptir engu máli upp á heildarkostnaðinn, sem menn greiða, og verð ég að segja, að það er lítið hálmstrá, sem þessi hv. þm. hangir í, ef hann finnur í þessum kafla ákvæði um það, að farþegar eigi að fæða sig sjálfir í þessa 6 —7 daga fram og til baka. Það má vel vera, að það kosti 30—50 kr., en sú upphæð hleypir a. m. k. lítið upp þeim kostnaði, sem þarna er um að ræða. En til þess að fá samanburð á þessu og sjá, hvað hv. þm. er ómerkilegur í sínum málflutningi, skal ég geta þess, að þegar ég bað hann um að lána mér þessa ferðaskrá, þá neitaði hann mér um það. Hann sagði, að ég gæti fengið aðra bók hjá Cook, og þegar ég svo sagði hv. þm., að ég myndi segja hv. þdm. frá þessu, þá fyrst lánaði hann mér bæklinginn, það skal ég játa. Svo fletti ég þessu kveri af handahófi, og tók kostnaðarliði, sem ná yfir ferð frá London, Hull eða Leith bæði til Noregs og Danmerkur. Hv. þm. talaði t. d. um 12 daga ferð til Íslands, en hann talaði um, hve marga daga ferðamaðurinn dveldi hér á landi. En ég tek tímann, sem farþeginn notar til þess að fara frá einhverjum stað á Englandi og þangað til hann kemur aftur; ég tek sem dæmi 12 daga ferð, sem kostar £21:10; hinsvegar stendur í skránni, að 12 daga ferð til Noregs kosti £24:5, en ferð til Íslands kosti £21:10; m. ö. o. er ferðin til Noregs um 80 kr. dýrari en ferðin til Íslands. 27 daga ferð til Íslands kostar £54:15, þ. e. £2 á dag. Svo tók ég næst ferð til Noregs upp úr bókinni; hún tekur 17 daga og kostar £32. Hún er lítið eitt ódýrari, og svo tók ég 15 daga ferð, sem kostar £38:18. Af þessu mega menn sjá, að þegar þessi hv. þm. er að færa rök fyrir sínu máli um það okur, sem hér eigi sér stað á útlendum ferðamönnum, þá tekur hann viljandi tölur aðeins til þess á blekkja, áður en hann hefir komið fram með nokkra sundurliðun á þessum kostnaði, og þegir svo yfir því, að ferð til tilsvarandi landa er dýrari. En hitt er vitanlega annað mál, að það er athugandi, að ferð út af fyrir sig kann að verða dýrari við það, að skipaferðir eru lengri en ella eða að farnar eru langar ferðir í bíl á hinum eða þessum stað o. s. frv. Meiri munur getur komið til greina, og stafar hann af því, hvort viðkomandi ferðamaður m. a. borgar kostnaðinn í pundum, mörkum eða ekki, eins og sest á tveim ferðum til Íslands, sem eru mismunandi dagar. Ég skal því ekki þræta við hv. þm. um það, að það geti ekki komið ýms smáatriði til greina, sem gera það að verkum, að ferðirnar geta orðið mismunandi dýrar. Svo þegir hv. þm. yfir því, sem er í samræmi við annan málflutning hans, að þessi kostnaður, sem hann las upp, er miðaður við einn farþega, en í bókinni stendur, að kostnaðurinn fyrir 1 farþega sé £54: 15 í 27 daga, £49:10 fyrir 2 farþega £46:10 fyrir 3 farþega £42:10 fyrir 4 farþega og £40 fyrir 5. Þessu þegir hv. þm. alveg yfir. Þetta skiptir miklu máli og kemur til greina, þegar dæma á um, hvort ferð slík sem þessi er dýr eða ekki. Ég verð að segja það að, ég fyrir mitt leyti tel það ekki dýra ferð fyrir 1 mann í 27 daga að borga um 44 kr. á dag fyrir alla aðhlynningu og öll fargjöld. Enda þótt það ætti fyrir þessum hv. þm. að liggja að hafa afskipti af þessari tilvonandi Ferðaskrifstofu ríkisins, þá dreg ég samt í efa, að honum mundi takast að fara niður fyrir þann taxta, sem Cook setur á þessar ferðir, og ég efast stórlega um, að þessi heimskunna ferðaskrifstofa, sem hefir skrifstofur í flestum löndum álfunnar, færi að lækka þennan taxta, jafnvel þótt íslenzk ferðamannaskrifstofa risi upp. Það hefir vitanlega engin áhrif í þessu efni. Þeir sem koma t. d. frá Þýzkalandi til Íslands á vegum Bennett's og Cook's, borga taxta þessara skrifstofa fyrir ferðina til Íslands með mörkum, og þeir borga það úti, svo að það kemur í rauninni ekkert málinu við í því sambandi, hver taxti skrifstofunnar hér er að öðru leyti. Þetta getur vitanlega „varierað“ dálítið frá ári til árs eftir dýrleika ýmsra farartækja, fæðis o. s. frv., en það hefir engin veruleg áhrif í heild, hvort þessi íslenzka ferðamannaskrifstofa er starfandi eða ekki. Það eru þess vegna andstyggilegar blekkingar, þegar þessi hv. þm. rís hér upp og ávítar aðra í vandlætingarrómi, þegar hann les svo sjálfur upp rangar tölur.

Hvers vegna kostar jafn mikið að ferðast til Danmerkur og Íslands? Hvers vegna er jafn dýrt að ferðast til Bergen og Harðangurs eins og til Íslands? Er það af því, að Cook vilji okra á ferðum til Íslands? Þessum hv. þm. er oft hælt fyrir sanngirni í umræðum. Ég held, að sú sanngirni hafi orðið sér til skammar í þetta sinn, og þykir mér það leiðinlegt. Þessi hv. þm. má ekki gleyma því atriði, að ferðamenn, sem hingað koma, hafa greitt allan kostnaðinn úti á ferðaskrifstofunum þar, áður en þeir lögðu af stað hingað; þannig eru þeir farþegar,sem hingað koma með stóru skemmtiferðaskipunum, búnir að greiða allan kostnað, þegar þeir koma hingað. Svo er það samningsatriði milli ferðaskrifstofanna úti og umboðsmanna þeirra hér, að hve miklu leyti sá kostnaður, sem farþegarnir borga, skiptist niður á ferðakostnaðinn hér innanlands.

Eins og hv. þm. Vestm. benti á, þá er það vitanlega hagsmunamál fyrir bifreiðastjórana, að ferðamannastraumur aukist hingað til lands, en hvort Ferðamannaskrifstofa ríkisins verður sett á stofn, er þeim vitanlega ekkert kappsmál. Á móti því hefir vitanlega enginn, að sú atvinna, sem af ferðamannastraumnum skapast, skiptist sem réttlátlegast niður. Að bílstjórum hafi verið neitað um að flytja erlenda ferðamenn, eins og hv. þm. Hafnf. gaf í skyn og sagði jafnvel berum orðum, er vitanlega ekki nema hálfur sannleikur. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. getur hugsað sér það, að einstakir bílstjórar geti fengið tilboð um að flytja erlent ferðafólk, sem venjulega kemur hingað í stórum hópum. Það eru vitanlega bifreiðarstöðvarnar, sem mörgum bílum hafa á að skipa, sem koma til greina í því efni. Það er leitað tilboða um flutning fólksins til forstjóra stöðvanna, þeir beðnir um tilboð fyrir hönd stöðvanna, og það alveg án tillits til þess, hvort stöðin er einkaeign eða eign einstakra bílstjóra í félagi. Það er því hrein og bein hugsunararvilla hjá hv. þm. að halda það, að einstakir bílstjórar sem slíkir geti komið til greina með tilboð í flutning ferðamanna, þegar nota þarf fjölda bifreið. Þetta hlýtur hv. þm. að skilja, ef hann athugar það. — Vill ekki hæstv. forseti biðja hv. þm. Ísaf. að flytja sig héðan og hætta þessu gaspri við sessunaut minn, því ég heyri vart til sjálfs mín fyrir málæði hans. Hann hefir að vísu ekki tekið þátt í umr. um þetta mál, og er það sízt að saka, því að hann mun þegar vera búinn að gera sér nógu oft til skammar. (Forseti hringir.) Mér þykir betra, að hæstv. forseti hringi og hvessi sig, heldur en hafa hið leiða mas þm. Ísaf. stöðugt í eyrunum.

Þá var hv. þm. að reyna að læða því inn hjá hv. þdm., að einstakir menn væru útilokaðir frá því að fá atvinnu við fylgdir og flutning hinna erlendu ferðamanna. Eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni um þetta mál, þá sé ég ekkert á móti því, að sett væri löggjöf, sem útilokaði allt slíkt, og sömuleiðis, að settur yrði taxti fyrir gistihúsin. En þetta má hvorttveggja gera, án þess að ríkið taki einkarekstur á öllu því, sem lýtur að ferðalögum erlendra manna hér á landi.

Undir umr. í Ed. mun það hafa verið upplýst, að bílferð til Þingvalla, sem sérstaklega þótti dýr og tekin var sem dæmi um okur á erlendum ferðamönnum hér, var ekki aðeins til Þingvalla, heldur og til Geysis, Gullfoss og Grýlu. Það má vel vera, að sú upphæð, sem fyrir þetta var tekin hafi verið nokkuð há, samanborið við það, sem bifreiðar eru venjulega leigðar hér, en þá ber þess að gæta, að þegar mikið er að gera, þá verður venjulega að greiðast nokkuð hærra gjald en ella, og nægir í því efni að vísa til þess, að við Íslendingar verðum sjálfir að greiða hærra gjald fyrir bifreiðar á sunnudögum, þegar mikið er að gera, en á virkum dögum, þegar lítil eftirspurn er eftir bílum. Þetta er eðlilegt, því á mikil eftirspurn leiðir jafnan af sér hækkandi vert.

Þegar rætt var um það í fyrra hér á Alþingi að skipuleggja fólksflutninga á landi, var það ein af höfuðröksemdum stjórnarsinna, að fargjöld öll myndu lækka, sakir þess að bílstjórarnir, sem sérleyfin fengju, þyrftu ekki að óttast samkeppni frá öðrum. Þeir sætu einir að öllum flutningum. En nú hefir þetta skipazt á þann veg, að hið gagnstæða hefir komið í ljós. Fargjöld hafa hreint og beint hækkað sums staðar um allt að 30%. Það þarf því tæplega að vænta þess, að fargjöld fyrir erlenda ferðamenn myndu lækka mikið, þó að flutningur þeirra komist í hendur ríkisins.

Þá sagði hv. þm. Hafnf., að ég hefði sagt um daginn, að búið væri jafnvel að ráða mann til þess að veita ferðaskrifstofu ríkisins forstöðu. Þetta er ekki rétt hjá hv. þm. Orð mín fellu aðeins á þá leið, að ég hefði heyrt hver ætti að fá þessa stöðu, og hafði ég þar ekki ómerkari mann fyrir men en hæstv. forsrh., sem sagði við mig, að jafnvel hefði komið til orða að fá sænskan mann í þessa umræddu stöðu. Ég vil því leyfa mér að halda því fram, að ummæli mín hafi verið á fullum rökum byggð, þar sem ég hafði forsrh. fyrir mér.

Þá hafa þeir hv. þm., sem að frv. þessu standa, talað um það, að gestir hafi oft haft slæma aðbúð við að búa hjá okkur. Um þetta skal ég ekkert segja með vissu, en ég hélt þó, að bat væri ekki hægt að bera íslenzkri alþýðu það á brýn, að hún væri ógestrisin.

Þá fæ ég heldur ekki séð, að ekki sé hægt að setja ákvæði um það, hvernig menn geti öðlazt rétt til þess að vera túlkar erlendra ferðamanna. Löggjöfin hlýtur að geta sett skilyrði um það, alveg eins og hún setur t. d. skilyrði um það, hvernig menn geti öðlazt rétt til þess á vera kennarar, skjalþýðendur o. s. frv. Um þetta má setja ákvæði, alveg án tillits til þess, hvort ferðaskrifstofa ríkisins er sett á stofn eða ekki. Alveg hið sama er að segja um auglýsingastarfsemina, hún er vitanlega mjög þýðingarmikil, en hana getur ríkið annazt alveg eins án tillits til þess, hvort ríkið rekur ferðaskrifstofu eða ekki, og ég sé ekkert á móti því, að þetta 5% gjald, sem talað er um í 7. gr. frv., gangi til auglýsingarstarfseminnar. Árangurinn af auglýsingarstarfseminni og kynningarstarfseminni verður áreiðanlega alveg hinn sami, hvort sem þessi umrædda ferðaskrifstofa verður sett á stofn eða ekki. — Út af þeim ummælum hv. þm. Hafnf., að okrað sé á erlendum ferðamönnum, vil ég benda honum á, eins og ég í raun og veru hefi gert áður, að það ætti ekkert að vera auðveldara fyrir löggjöfina en koma í veg fyrir slíkt. Og ég segi fyrir mitt leyti, að ég er fús til þess að styðja skynsamlega löggjöf til þess að koma í veg fyrir slíkt, því að það er fjarri mér, að mæla því bót, að okrað sé á þeim, sem hingað koma til þess að kynnast landi og þjóð. Hinsvegar sé ég ekkert á móti því, þó að útlendingar séu látnir greiði eitthvað lítið hærra fyrir flutninga og uppihald en innlendir menn, því að það viðgengst víða erlendis, að erlendir ferðamenn verða að greiða eitthvað hærra fyrir sig en innlendir eru látnir borga. Að sjálfsögðu yrði slíkt að vera innan takmarka alls velsæmis. Að hér sé sérstaklega dýrt að ferðast með bílum, held ég, að ekki sé rétt, samanborið við það, sem víða er erlendis. Ég vil t. d. spyrja hv. þm. Hafnf.. hafi hann komið til London, hvort hann hafi ekki orðið að greiða þar meira fyrir bíla en hann er vanur að þurfa að borga hér fyrir svipaða keyrslu. Þannig er það almennt í enskum borgum, að maður verður að greiða meira fyrir bíla en maður á að venjast hér. Þetta sannar, að taxti bifreiðanna hér, er alls ekki of hár. Það þýðir því ekkert fyrir þennan hv. þm. að koma með slíkar dylgjur sem þessar, að hér sé okrað á erlendum ferðamönnum af bifreiðaeigendum, á minnsta kosti ekki á meðan að hægt er að sanna það, að það sé beinlínis ódýrara að ferðast með bifreiðum hér en víða erlendis. Geti hann afsannað það og sannað hið gagnstæða, þá getur hann kannske talað um okur, en fyrr ekki. Fargjöld með bifreiðum hafa tekið mjög miklum breytingum hér á landi nú hin síðustu ár. Þau hafa lækkað að miklum mun. Þannig minnist ég þess t. d., að fyrst þegar ég kom hingað til Reykjavíkur, kostaði fyrir manninn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur 2 kr., en nú kostar það aðeins 50 au. Þá er ekki langt síðan, að bifreið til Þingvalla kostað 150—200 kr., sem nú kostar 30—10 kr., og þannig mætti lengi telja. Það er hin heilbrigða samkeppni, sem komið hefir fargjöldunum svona niður. Að taxti íslenzku bifreiðanna sé yfirleitt hár, er því alls ekki rétt. Það út af fyrir sig getur því ekki réttlætt það, að ríkið taki þessi mál í sínar hendur.

Mér þykir það óneitanlega leiðinlegt, að það skuli hafa upplýstst undir þessum umr., að það sem vakir fyrir hv. þm. Hafnf. og fylgismönnum hans, er ekki það að vinna á því, að sem bezt geti farið um hina erlendu ferðamenn, sem hingað koma, heldur allt annað, eins og bent hefir verið á.

Eins og ég þegar hefi tekið fram, er ég reiðubúinn að semja við hv. þm. Hafnf. um að fylgja frv., sem miðar að því að bæta sem bezt fyrir hinum erlendu ferðamönnum, en ég mun vinna á móti öllu því, sem gengur í einokunaráttina, hvort sem það er í þessu efni eða öðru.

Hvað snertir hinar þekktu ferðamannaskrifstofur Bennet's og Cook's, þá er ég ekki viss um, á þær taki sömu afstöðu til ferðamannastraumsins hingað til lands eins og þær hafa gert hingað til, ef frv. þetta verður að lögum. Hvort hér starfar ferðamannaskrifstofa eða ekki, er vitanlega ekkert atriði í því sambandi, hvort ferðamannastraumurinn beinist hingað eða ekki. Það eru hinar stóru ferðamannaskrifstofur, sem hafa samband um allan heim, sem ráða mestu bar um. Getur það því verið stórt atriði í þessu sambandi, hvernig þær snúast í málinu.