20.12.1935
Sameinað þing: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

1. mál, fjárlög 1936

Magnús Torfason [óyfirl.]:

Ég á ekki nema eina brtt. við fjárl. að þessu sinni, og sú brtt. er ekki til lækkunar á útgjöldunum. Hún er þess efnis, að við 43. lið 16. gr. frv. bætist aftan við liðinn þessi aths: Þar af 1200 krónur til Árnýjar Filippusdóttur. En alls eru veittar á þessum lið 2500 kr. til sambands sunnlenzkra kvenna. Hugsunin er sú, að þetta fé verði notað til húsmæðrafræðslu á Suðurlandsundirlendinu. eða fyrir þrjár sýslur: Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellsýslu. Ástæðan til þess, að ég flyt þessa brtt., er sú, að það eru nokkuð skiptar skoðanir í stjórn samb. sunnl. kvenna um kennslukonuna. Sumar í stjórninni mæla með henni, en aðrar ekki. Til þess liggja vitanlega sérstakar ástæður, en það er einkamál félagsstj., sem ég fer ekki út í, eða geri uppskáar hér á þingi. Ég skal aleins geta þess, að sumar konurnar, sem eru í stjórninni, mæla fastlega með þessari kennslukonu, svo sem vænta mátti. Hún er ein af þeim fáu konum, sem stundað hafa verklegt nám bæði utanlands og innan. Og ég hygg mér sé óhætt að segja, að hún sé langfjölkunnugust af kennslukonum í þeim greinum. Ekki aðeins, í matartilbúningi og allskonar handavinnu, heldur er hún ágæt við fimleikakennslu og til að kenna ýmsar sér greinar í handiðn og listiðnaði. Svo að hún er einhver fullkomnasti kennari, sem völ er á í þessum greinum. Auk þess er hún ágætlega vel fallin til þess að kenna börnum og umgangast fólk yfirleitt, þannig að öllum, sem kynnast henni, þykir vænt um hana. Hún er sérstaklega góð í sér, einkanlega við þá, sem veikir eru eða vanmegna, og auk þess frábærlega væn kona og mæt á allan hátt, og þykist ég í engu ofmælt hafa. — Ég vænti því, að þessi brtt. mín verði samþ., og þar með létt áhyggjum og ábyrgð að stjórn samb. sunnl. kvenna í þessu efni.

Þetta er, eins og ég áður gat um, eina brtt., sem ég flyt einn. En svo á að leita, að ég lafi aftan í brtt. þeirra stórfurstanna, Jóns Baldvinssonar og Jónasar Jónssonar, á þskj. 890. XXXIX um að heimila stj. að verja fé til ríkissjóði til launagreiðslu tveggja dómara í hæstarétti, ef dómurum verður fjölgað á árinu 1936 samkv. lögum um hæstarétt. Þessi till. er því beint áframhald af því, sem samþ. var í lögum frá síðasta þingi um skipun hæstaréttar. Þar stendur, að dómarar skuli vera 5 í hæstarétti, og ég skil það sem beint loforð um, að svo eigi að verða í framkvæmdinni, hvenær sem því verður við komið. Nú verð ég að játa, að það horfir að vísu ekki byrlega um fjárhag ríkissjóðs, og því nokkur ástæða til þess fyrir stj. að hliðra sér hjá þeim kostnaði, sem af því leiðir. Hinsvegar er svo margt á reiki um fjárhag ríkisins, að vel gæti það komið fyrir, þegar líður á næsta ár, að svo rætist úr um fjárhaginn, að þessa ráðstöfun mætti framkvæma. Þess vegna tel ég rétt að setja slíka heimild inn í fjárl., á meðan þessir dómarar eru ekki skipaðir. En ég get lýst því yfir, að ef hinar fjárhagslegu horfur skyldu eitthvað vænkast, þá mun ég flytja beinharða till. um, að þessir dómarar verði skipaðir í réttinn samkv. hæstaréttarlögunum. Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta. Það er svo einfalt mál.

En að síðustu þykir mér rétt að geta þess, að við framh. 1. umr. fjárl. fór hv. 1. fékjörinn þm. nokkrum orðum um 1. þingkjörinn þm. Það hefði máske verið ástæða til þess fyrir mig að svara því nokkrum orðum, en ég ætla ekki að gera það í þetta sinn, jafntímafátt og orðið er fyrir þinginu. enda væri mér suma, þó að fleiri hlustuðu á það en þessar fáu hræður, sem hér eru á pöllunum. Þess vegna mun ég sleppa því nú, ef ekkert sérstakt tilefni gefst til þess frekar.