30.11.1935
Efri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2290 í B-deild Alþingistíðinda. (3279)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það var hv. 4. landsk., sem gat um það, að ekki væri ástæða til þess að borga fyrir það, þó menn ræktuðu ofan í sjálfa sig. Ég held, að þetta sé ekki rétt, og við gerum það a. m. k. að sumu leyti nú, að borga fyrir ræktun nytjajurta, sem koma heimilunum að gagni, og mér virðist, að í þessu tilfelli sé ekki síður ástæða til þess en í mörgum öðrum, þar sem það er viðurkennt, að sú nytjajurt, sem hér er um að ræða, er mjög holl. Og ef menn fengju ekki verðlaun fyrir það, sem ræktað er til heimilisnotkunar, þá held ég, að það yrði til þess, að menn seldu þessa framleiðslu sína nær alla, en hirtu ekki um að leggja hana til heimilisins, og keyptu þá kannske eitthvað annað í staðinn, sem ekki væri eins hollt eða notadrjúgt. Ég held því sannast að segja, að það sé skökk stefna að hlynna ekki jafnt að því, sem menn rækta ofan í sjálfa sig, og því, sem menn selja öðrum.

Hv. 1. þm. Eyf. gat um það, að það mundi engan draga um þau verðlaun, sem gert er ráð fyrir í brtt. þeirri, sem ég flyt. Ég veit náttúrlega ekki, hvað þeir eru stórir upp á sig þarna í Eyjafirðinum, en þetta nemur þó 13 kr. fyrir þá menn, sem aðeins eru í lágmarkinu, og eftir því, sem veitt hafa verið verðlaun til jarðræktar, þá þættu það sæmileg verðlaun. En ef maður tekur dæmi um þá, sem ekki næðu verðlaununum eins og þau eru ákveðin í frv., en eru rétt við þau, t. d. með 9 tunnur, þá næmi þetta 27 kr. fyrsta árið, og mundi það þykja allsæmilegur styrkur.

Hv. 10. landsk. hefi ég ekki neinu að svara. Hann hefir lýst því yfir, að hann teldi það hlutfallslega réttara, að lágmarkið væri 5 tunnur, og það getur verið, að það sé nokkuð til í því, miðað við þann styrk, sem áður hefir verið veittur til stækkunar á kálgörðum. En þar er miðað við frekar góða uppskeru, en ef miðað er við lakari uppskeru, þá láta 3—4 tunnur nærri. Ég verð að halda fast við það, að þeim, sem eiga erfitt með ræktun og hafa minna um sig, séu gerð sömu skil og hinum, sem hafa betri möguleika, annaðhvort efnalega eða aðstöðulega, og þess vegna tel ég sjálfsagt að hafa þetta lágmark, sem ég hefi stungið upp á í minni brtt.