20.12.1935
Sameinað þing: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

1. mál, fjárlög 1936

Einar Árnason:

Ég hefi ásamt samþm. mínum flutt hér brtt. þess efnis, að heimila ríkisstj. að kaupa Syðstabæ í Hrísey. Ég býst nú við, að allir hv. þm. viti, hvar Hrísey er, að hún er á miðjum Eyjafirði, en það kann ýmsum að vera ókunnugt um staðhætti þar og ásigkomulag eyjarinnar. Hún liggur þarna í skipaleið og er talin vera um 12 km2 að stærð, svo þetta er ekki svo lítið land, og skiptist það á milli tveggja jarða, sem heita Syðstibær og Yztibær, þar sem annar bærinn er norðarlega á eynni, en hinn syðst. Jörðinni Syðstabæ, sem hér er um að ræða, fylgir nálega 3/4 af eynni, eða 9 km2 lands, og er mikið af því vel fallið til ræktunar. Í landi Syðstabæjar hefir nú risið upp allfjölmennt þorp. Íbúar eyjarinnar eru um 400, og búa þeir allir í þessu eina þorpi, þar sem komin eru upp um 60 íbúðarhús og um 30 útgerðarhús. Ennfremur er þar hafskipabryggja og stórar síldarstöðvar, enda hefir verið þar síldarsöltun flest undanfarin ár. Þorpið liggur suðvestan á eynni, þar sem höfnin er bezt; yfirleitt liggur eyjan mjög vel fyrir útgerð, enda hefir um langan aldur verið mikil útgerð þaðan, bæði á síldveiðar og þorskveiðar. Nú ganga þaðan til fiskveiða 12 —14 stórir vélbátar, og auk þess um 20 minni opnir bátar. Útflutningur sjávarafurða hefir verið mjög mikill frá Hrísey, svo andvirði þeirra hefir jafnvel komizt uppi í eina millj. kr. yfir árið. Á síðustu árum hefir verið hafin allmikil ræktun á eynni, enda er hún vel til þess fallin, svo búpeningi hefir fjölgað mjög. Einnig er byrjað að leggja veg um eyna, sem liggur að ræktunarlandinu. Það er því ekki annað hægt að segja heldur en að þarna sé mjög álitlegur framtíðarstaður, bæði með tilliti til ræktunar og útgerðar, enda hefir þorpið vaxið mjög hin síðustu ár, og er nú orðið sérstakur hreppur.

Nú stendur svo sérstaklega á um þessar mundir, að eigandi Syðstabæjar vill gjarnan selja jörðina með öllu, sem henni fylgir. Og það mun vera vilji hreppsbúa yfirleitt, að ef sala fer fram, þá komist þessi eign í hendur þess opinbera, því það mundi vera mjög óheppilegt, ef þessi jörð, með öllum gögnum hennar gæðum, lenti í braski. Lóðaleiga er þarna allmikil, sem gengur vitanlega til eiganda jarðarinnar, og mundi því falla í hlut ríkissjóðs, ef hann keypti jörðina. Það er farið fram á í till. okkar, að kaupin fari því aðeins fram, að það náist sæmilegir samningar um verð og aðra skilmála. Ég hygg, eftir því, sem ég bezt veit, að einmitt nú sé gott tækifæri til þess að fá þessa álitlegu eign keypta. Ég þykist þess fullviss, að ef þetta tækifæri er látið ónotað, þá muni seinni tíminn sýna það, að þessi jörð kemst í hátt verð. Ég vænti, að hv. alþm. geti fallizt á að veita ríkisstj. þessa heimild, þar sem ganga má út frá því sem vísu, að hún ráðist ekki í kaupin nema fullkomlega sé fyrir því séð, að ríkissjóður hafi engin þyngsli eða skaða af þeim. — Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta meira, en vænti þess, að till. fái góðar undirtektir.