30.11.1935
Efri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2291 í B-deild Alþingistíðinda. (3280)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Það er rétt hjá hv. frsm., að ágreiningurinn um frv. fólst ekki í því, hvort standa skuli „má“ eða „skal“, hvort það skuli taka einkasölu eða að það sé heimilt. Þetta var sagt við 1. umr. og einnig í n., svo það er alveg upplýst, að ágreiningurinn er um það, hvort verzlunin eigi að vera frjáls innanlands eða hvort hún eigi að vera í höndum verzlunar ríkisins, og mér finnst margar stoðir renna undir það, að hið síðara sé hentugra fyrirkomulag, m. a. vegna þess, að ef ríkið hefir alla verzlunina, þá veit það á hverjum tíma, hversu mikið liggur í vörzlu hennar af birgðum, og eftir því getur hún hagað innflutningi sínum frá útlöndum. En ef ríkisstj. veit ekki hversu miklar birgðir eru til í landinu, þá rennir hún alveg blint í sjóinn með pantanir frá útlöndum, og gæti þá bæði komið fyrir, að hún keypti of mikið af þessari vöru, sem er mjög viðkvæm og þolir ekki langa geymslu, og eins hitt, að hún yrði uppiskroppa með hana, og er hvorttveggja jafnslæmt. — Ég geri ráð fyrir því, að verzlunin þyrfti að hafa útibú í stærri kauptúnum kringum landið, en ég teldi næganlegt, að í smábæjunum hefði hún aðeins umboðsmenn til þess að taka við vörunni. Það væri engin meining að fara aðsenda kartöflur t. d. frá Hornafirði til Reykjavíkur og svo þaðan aftur austur á firði. Verzlunin gæti látið umboðsmenn sína miðla vörunni á þá staði, sem stytzt er að flytja hana, og ætla ég, að því þyrfti ekki að fylgja nein sérstök skriffinnska. Þetta tel ég veigamesta atriðið, að verzlunin geti alltaf vitað, hversu miklar birgðir eru til í landinu, svo að hún geti hagað verzlun sinni og innflutningi frá útlöndum eftir því. Það mætti náttúrlega hugsa sér, að þessu mætti ná með því að skylda menn til þess að tilkynna ríkisverzluninni jafnóðum og þeir tækju við eða keyptu kartöflur frá framleiðendum eða legðu inn til kaupfélaga eða kaupmanna, til þess að hún hefði einhverja hugmynd um birgðirnar. En ég er hræddur um, að það kynni að gleymast og að hið eina örugga sé því, að ríkisverzlunin taki við þessu öllu saman.

Hv. frsm. hefir mælt á móti till. þeirri, sem hv. þm. Dal. hefir flutt, og hefi ég þar engu við að bæta. Ég álít það misráðið að samþ. verðlaun fyrir svo litið sem hann gerir ráð fyrir í sinni brtt., og jafnvel fyrir það, sem þeir leggja til í sínum brtt., hv. þm. S.-Þ. og hv. 1. þm. Skagf.