18.12.1935
Neðri deild: 102. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2292 í B-deild Alþingistíðinda. (3288)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Mál þetta er komið frá hv. Ed. og hefir nú legið fyrir hjá landbn. þessarar deildar. Landbn. er ekki öll samferða eða sammála um afgreiðslu þessa máls. 4 af 5 nm. leggja til, að frv. nái fram að ganga, þó eru tveir þeirra með fyrirvara. En 1 nm., hv. þm. Ak., mælir gegn frv. þessu.

Frv. miðar að því að greiða fyrir verzlun með kartöflur og aðra garðávexti frekar en nú á sér stað. Er í því falin heimild til handa ríkisstj. að taka í sínar hendur þessa verzlun við útlönd frá 1. maí næstk., en gert er ráð fyrir, að salan verði frjáls innanlands. Þá er verzluninni gert að skyldu að taka við öllum kartöflum, sem bjóðast og ætlaðar eru til sölu innanlands, að svo miklu leyti sem geymslumöguleikar og aðrar ástæður leyfa. Er lögð áherzla á það í frv., að verzluninni sé ekki skylt að kaupa meira en tök eru á að geyma. Meiri hl. n. lítur svo á, að svo mikill vandi sé og áhætta að geyma mikið af kartöflum saman, að ekki sé rétt að gera ráð fyrir og ekki ástæða til, að falli meira en þarf í forsjá verzlunarinnar, en þykir þó rétt að skylda hana til að taka við því, sem býðst, meðan framboðið er mest — á haustin — og mönnum er þörf að koma þessari vöru út og frá sér. Er þá gert ráð fyrir, að þeir sitji fyrir, sem næst búa verzlunarstaðnum.

Þá er ákvæði í 5 gr., sem heimilar grænmetisverzlun ríkisins að reisa geymslu og markaðsskála hér í Rvík. Þetta er mikið nauðsynjamál fyrir framleiðsluna, og hefir því iðulega verið hreyft hér áður á Alþ., en aldrei náð fram að ganga. Er gert ráð fyrir, ef ágóði verður af verzluninni, að honum verði varið til að koma upp slíkum skilum í öðrum kaupstöðum. Ef verulegur árangur verður af þessari tilraun, má fara svo áður en mjög langt liður, að vegna ráðstafana þessara aukist svo innlend framleiðsla garðávaxta, að hlutverk verzlunarinnar um verzlun með erlendar kartöflur og garðivexti falli niður og ekki þurfi að flytja þessa vöru inn í landið, en að því er einmitt stefnt með frv. þessu.

Án þess að ég ætli mér að fara út í einstakar gr. frv., þar sem ég geri ráð fyrir, að þm. hafi kynnt sér það, þá vil ég aðeins minnast á ákvæði til bráðabirgða, þar sem gert er ráð fyrir að verja ákveðinni upphæð af fé ríkissjóðs á næstu 3 árum til verðlauna fyrir aukna kartöfluframleiðslu, og er þá búizt við, að náð verði því framleiðslumagni, að ekki verði skortur á innlendri vöru þessarar tegundar.

Landbn. hefir orðið sammála um að bera fram nokkrar brtt. við frv., og skal ég skýra þær lítilsháttar.

Við 1. gr. gerum við breyt. við það ákvæði, sem snertir innflutning á kartöflum með skipum og skotið er til álits tollstjóra, að við bætist „eða lögreglustjóra“. Þótti okkur réttara að taka það fram, þar sem tollstjóri er aðeins í Rvík.

Í 2. gr. frv. stendur: „Grænmetisverzlun ríkisins skal annast innflutning og verzlun kartaflna og annara garðávaxta.“ Þetta er svo undantekningarlaust ákvæði og svo fast að orði kveðið, að okkur þótti rétt að bæta inn í frvgr. „samkv. lögum þessum“, af því annarsstaðar í frv. er gert ráð fyrir, að sala þessi fari gegnum annara hendur, eða bændum sé frjálst að selja til neytenda og innlendra verzlana. — Þá er brtt. við 5. gr. þar sem ákvæði var sett inn í Ed. um, að geymsluskála hér í Rvík mætti aðeins byggja, ef bæði hæstv. ríkisstj. og fjvn. áliti það rétt. Okkur þykir nægilegt, að hæstv. ríkisstj. samþ. þetta ein og ekki ástæða til að skjóta þessu til hv. fjvn., sem hér er aðeins samankomin lítinn hluta ársins, og yrði þá e. t. v. að kalla hana saman til að afgr. þetta mál, sem yrði óþarfur kostnaðarliður.

Í ákvæði til bráðabirgða stendur svo, að eigi megi veita verðlaun fyrir framleiðslu annara kartaflna en þeirra, sem seldar eru til neyzlu. N. álítur þetta ákvæði mjög óheppilegt, vegna þess að ef svo væri, að engin verðlaun yrðu veitt fyrir það, sem gengi til heimilisneyzlu, yrði framboð á kartöflum óeðlilega mikið og selt meira en rétt er til þess að ná í verðlaunin, og yrði þá síðari hluta ársins að kaupa aftur til heimilisþarfa, — auk þess, sem mætti fara í kringum þetta ákvæði, því það væri nægilegt, að A. seldi B. kartöflur og B. seldi svo aftur A. til að ná í verðlaunin. Fyrir þessa óeðlilegu verzlun vill n. komast og leggur því til, að þetta verði niðurfellt.

Þá eru fram komnar brtt. frá þeim þm., sem skrifað hafa undir nál. með fyrirvara, hv. þm. A.- Húnv. og hv. þm. Hafnf., sem skrifaði undir með fyrirvara um 1. gr., og hv. þm. Ak., sem er á móti frv. — Sé ég ekki ástæðu til að sinni að segja fleira um þetta mál.