18.12.1935
Neðri deild: 102. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2298 í B-deild Alþingistíðinda. (3290)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Jón Pálmason:

Ég var ekki kominn hér á fund. þegar hv. frsm. talaði og gat því ekki heyrt hans ræðu, en eins og menn hafa tekið eftir, varð ágreiningur í landbn. um þetta mál, og skal ég víkja að því almennt, og síðan einstökum atriðum, sem fram koma í mínum brtt., og loks að öðru leyti að málinu í heild. Einn nm., hv. þm. Ak., hefir klofið n. og leggur til, að þetta frv. verði alveg fellt. Hv. þm. er ekki viðstaddur, en ég skal geta þess, sem hv. þdm. er ef til vill ekki ljóst, að hann byggir þessa afstöðu sína fyrst og fremst á því, að það hafa verið sett lög um þetta efni fyrr á þessu þingi, sem nú stendur yfir, og það mun líklega vera einsdæmi í þingsögunni, að á sama þinginu sé farið fram á að afnema lög, sem sett voru á fyrri hluta þess, en það er gert með þessu frv., því að það fer fram á afnám á lögum, sem sett voru á fyrri hluta þessa þings. Ég skal taka það fram, að ég hafði mikla tilhneigingu til þess að taka sömu afstöðu í þessu máli eins og hv. þm. Ak. í n., en það sem gerði það að verkum, að ég tók ekki sömu afstöðu, var það, að hér er boðin fram af hálfu hæstv. stj. töluverð fjárupphæð til styrktar kartöfluræktinni. Af því að svo standa sakir, að ég sé, að þannig er farið með fé hér á þinginu í sambandi við ýms önnur mál, að það er ekki ástæða fyrir okkur framleiðendur að hafna þessu boði, þá fannst mér það ekki vera réttmætt frá minni hálfu, enda þótt ég teldi þetta frv. mjög galla, að slá á þessa hönd, sem fram er rétt til styrktar þeirri framleiðslu, sem hér um ræðir. Það er vita, að kartöfluræktarskilyrðin í landi okkar eru það góð, að það ætti að vera auðvelt að framleiða ekki aðeins allar þær kartöflur, sem þjóðin þarf að nota með sömu neyzlu í landinu og verið hefir, heldur miklu meira, því að þjóðin getur haft þörf fyrir að nota miklu meiri kartöflur en hún nú notar. Frá þessu sjónarmiði er sjálfsagt, að löggjafarvaldið hlynni að því, að allar þær kartöflur og allt það grænmeti, sem þjóðin þarf, sé ræktað í landinu, en í því sambandi þarf að athuga þá leið, sem bezt væri að fara í þessu efni. Fljótt sagt, er ég andvígur þeirri leið, sem hér er stungið upp á, að fara að stofna einkasölu á erlendum kartöflum og láta ríkið taka að sér mikla verzlun í þessu sambandi. Ég tel tvímælalaust hægt að ná þeim tilgangi, sem þarf að ná, án þess að ganga inn á þessa braut. Þess vegna er það mín till., að þessi einkasöluheimild á innfluttum kartöflum sé numin burt úr þessu frv., hún er alveg óþörf, sérstaklega vegna þess, jafnvel þótt ekkert annað kæmi til greina, á stjórnarvaldið eitt hefir það alveg í hendi sér samkvæmt öðrum lögum og líka samkvæmt 4. gr. þessara laga að takmarka innflutning þessarar vöru, til þess að hún hlaðist ekki á markaðinn til samkeppni við innlenda framleiðslu. Till. mín fer fram á að afnema þessa einkasöluheimild úr frv. Geri ég ráð fyrir, að þessi verzlun sé sett á stofn aðallega í þeim tilgangi, að með þeim hætti sé hægt að koma upp geymslustöðum fyrir innlendar kartöflur. Þegar þetta er athugað, þá liggur það í augum uppi, að ég tel það ekki miklu skipta í þessu sambandi, þótt slík verzlun sé sett upp, aðeins ef þeirri takmörkun er haldið í þessu efni, sem frv. gerir ráð fyrir í 7. gr., að innlendir framleiðendur hafi leyfi til þess að selja sínar afurðir, en séu ekki skuldbundnir á neinn hátt til þess að fela ríkisverzlun þessa sölu, eins og nú á sér stað að mjög miklu leyti bæði með kjöt og mjólk. Skal ég ekki fara út í þá brtt., sem flutt er af einum nm. til þess að afnema þessa heimild, það gefst tækifæri til þess síðar við þessa umr. En að því, er snertir það atriði, sem hv. þm. Borgf. var að tala um, viðvíkjandi verðlagsnefndinni, þá vil ég taka það fram, að mér virðist það ekki skipta mjög miklu máli, þótt hún sé skipuð á þann veg, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., því að það er ekki nema um einn mann að rata af hálfu neytendanna, og að því, er verðlagsákvæðið snertir, þá held ég, að höfuðóánægjan með starfsemi þessara n. sé ekki sprottin af verðlagsákvæðinu fyrst og fremst, heldur af annari þeirri starfsemi, sem þessar n. hafa framkvæmt í sambandi við þau mál, sem þeim er falin yfirstjórn á. Frá þessu sjónarmiði lagði ég ekki til, á breytt yrði ákvæðinu um þessa verðlagsnefnd, en að því yrði haldin með þeim skilgreiningum, sem í frv. eru. En hinsvegar ætlast ég til þess, eins og brtt. mín ber vott um, að síðari setning 12. gr. falli niður, en hún gerir ráð fyrir, að einhverri ríkisstofnun eða S. Í. S. sé falið að hafa þessa verzlun með höndum.

Skal ég svo ekki fara nánar út í þennan hluta brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 840, en snúa máli mínu að því stóra atriði, sem hér er aðalatriðið í þessu sambandi, og það er, hvernig skuli haga þeirri styrkveitingu, sem ráðgerð er til þess að létta fyrir framleiðendum, að því. er þessa vöru snertir. Í frv. er gert ráð fyrir, að veittar verði árið 1936 30 þús. kr. til verðlauna, á árinu 1937 20 þús. kr. og 10 þús. kr. 1938. Það er ætlazt til þess samkvæmt þessu ákvæði, að þessum verðlaunum sé skipt niður á það, sem framleiðslan eykst um frá því, sem hún var á þessu ári. Ég veit ekki, hvort hv. flm. þessa frv. hefir gert sér það ljóst, hversu margir annmarkar hljóta að koma fram á þessari leið, sem hér er gert ráð fyrir að fara. Í fyrsta lagi er ófullkomin skýrsla um það, hver framleiðslan er á þessu yfirstandandi ári, því að þótt þessi framleiðsla sé talin fram, þá er ég viss um, að það framtal er í mörgum tilfellum gert af handahófi. Svo koma aðrar ástæður til greina, sem gera það að verkum, að þetta er mjög varhugaverð leið. Í fyrsta lagi er talað um, að það skuli aðeins veita verðlaun út á þá aukningu, sem er seld og sem fer fram úr 5 tunnum. Þetta ákvæði, sem miðað er við 5 tunnur, verkar þannig, að það verða mjög fáir einstakir framleiðendur, sem fá nokkuð af þessum verðlaunum. Það verða fáir bændur, sem eru nú flestir að verða einyrkjar, sem hugsanlegt er, að fái þessi verðlaun, sem hér um ræðir, heldur verða það félög og þeir menn, sem sérstaklega tækju það fyrir sem atvinnugrein að fara að auka í stórum stíl framleiðsluna á þessari vöru, enda gerir þetta frv. ráð fyrir því, að það vera stærri félög, sem gefi sig við þessari starfsemi og hljóti þessi verðlaun. Þá verða það ekki síður kauptúnin heldur en sveitirnar, sem starfa að ræktun á kartöflum í stórum stíl, til þess að eiga kost á verðlaununum. En þess ber að gæta, að þetta ákvæði um það, að ekki skuli veitt verðlaun fyrir aðra aukningu en þá, sem er seld, er óframkvæmanlegt í „praksis“, þegar til kemur, vegna þess að bændur geta selt hverjum öðrum eins og þeim sýnist og fengið verðlaun fyrir allar kartöflurnar. (BÁ: N. leggur á móti því). Ég er að tala um þetta eins og það er í frv. sjálfu, og þannig liggur það fyrir hér. Svo er annað, sem athuga hér í þessu sambandi, og það er það, að óneitanlega verður það að teljast mjög óeðlilegt að grípa svona inn í á þessu sviði af handahófi og upp úr þurru og veita verðlaun fyrir þá aukningu, sem fram kemur frá því, sem orðið er. það hefir verið svo, að ýms búnaðarsambönd í landinu hafa lagt mikið kapp á að auka framleiðsluna á þessari vöru eftir því, sem þau hafa getat. Hefir þessu sumstaðar verið mjög vel tekið, enda þótt ekki hafi enn náðst það takmark, sem ætlazt var til. Hugsum okkur nú, að tveir bændur hefðu sett sér það mark, t. d. í fyrra, að auka kartöfluuppskeruna, t. d. um 10 tunnur hvor. Gerum ráð fyrir, að annar bóndinn hafi verið duglegur fyrirhyggjumaður og komið þessu í verk á þessu ári, en segjum svo, að einhverjar orsakir hafi orðið þess valdandi, að hinn hafi ekki getað komið þessu í framkvæmd á þessu sama ári, en að honum tækist það á næsta ári, þá ætti hann að fá verðlaun fyrir alla kartöfluaukninguna bara fyrir það, að hann var ekki eins duglegur í þessu efni og hinn var. Svo eru það ýms önnur atriði í þessu sambandi, sem gera það að verkum, að ég tel þessa leið ófæra. Ég teldi það miklu nær sanni að grípa til þess að auka jarð ræktarstyrkinn samkvæmt jarðræktarl., og það kæmi öllum þeim að gagni, sem auka sína jarðrækt. Í öðru lagi er ýmislegt í þessu sambandi, sem gerir það að verkum, að menn gætu kannske ekki, þrátt fyrir ríka viðleitni til aukningar á þessari framleiðslu, átt kost á því að fá þessi verðlaun, t. d. vegna óhagstæðs tíðarfars á vissum svæðum landsins. Annars eru skilyrðin fyrir kartöflurækt yfirleitt sæmilega góð hér á landi, og er hún nú án efa sá þátturinn í starfsemi íslenzkra bænda, sem einna bezt borgar sig, og það er alls ekki af því, að kartöfluræktin borgi sig ekki, að hún hefir ekki verið meiri undanfarin ár en raun ber vitni um, heldur eru aðrar orsakir sem þar koma til greina, og mættu þeir menn hugsa rækilega um það, sem á síðari árum hafa mest barizt fyrir því að teyma, ef ég mætti svo að orði komast, vinnandi fólk burt úr sveitum landsins, því að það er einmitt ein aðalorsökin fyrir því, hversu kartöfluræktin hefir víða verið lítil upp á síðkastið. — Til þess að hafna því ekki á nokkurn veg, að þessi styrkur, sem boðinn er, verði notaður til þess að greiða fyrir viðskiptunum og greiða fyrir því, að þessi framleiðsla verði aukin, þá legg ég til, að þessu verði snúið upp í að greiða fyrir flutningnum innan lands milli markaðsstaðanna, því að það er sannleikur, að viðskiptin með þessa vöru milli seljanda og neytenda hafa fyrst og fremst strandað á því, hve dýrt er að flytja þessa vöru milli landshluta í hlutfalli við það verðgildi, sem liggur í ákveðnu magni af vörunni, því að hún er, eins og kunnugt er, fyrirferðarmeiri og þyngri en flest önnur vara í hlutfalli við verð á hverri einingu. Nú er það víst, að í stærri kaupstöðunum, Reykjavík, Hafnarfirði og Ísafirði, og víðar á landinu, er markaður fyrir meiri innlenda framleiðslu af þessari vöru en þar er notað, og þessi markaður hefir verið notaður fyrir meiri útlenda framleiðslu af þessari vöru en nokkurt við er í, og stafar þetta af því, að flutningarnir eru svo örðugir. Þess vegna kemur það sér bezt, að þessu fé, sem hér um ræðir, sé varið til þess að styrkja flutninga innanlands, bæði á sjó og landi, og greiða þar með fyrir því, að ekki þurfi að nota erlendar kartöflur í bæjum landsins.

Ég vona, að ég hafi nú gert grein fyrir því, hvað það er, sem veldur því, að okkur nm. greinir á, og ég veit, að þeir fáu hv. þm., sem hér eru, skilja, að það er síður en svo, að það sé nokkur tilhneiging frá minni hálfu til þess að drepa þetta mál, heldur vakir það fyrir mér í þessu efni að koma þessu í það horf, að það geti komið að því gagni og náð þeim tilgangi, sem til er ætlazt, því að á þessu sviði, sem öllum öðrum, tel ég, að löggjafarvaldið eigi að gera sitt ýtrasta til þess að þjóðin geti notað það, sem hægt er að framleiða í landinu sjálfu, svo að hún þurfi ekki að kaupa eins mikið og gert hefir verið af erlendum vörum.