18.12.1935
Neðri deild: 102. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (3292)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Pétur Ottesen:

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um ræðu hv. þm. Mýr.1) Það fékkst viðurkennt af honum, að orðalag 10. gr. væri óviðunandi og greinin þyrfti að orðast upp, þótt hann teldi, að málinu lægi svo mikið á, að ekki væri hægt að koma leiðréttingu að á þessu þingi.

Annars finnst mér það ekki bera vott um mikla þrautseigju hjá hv. þm. Mýr., þótt nokkrir erfiðleikar steðji að, að fara nú með þetta mál inn á einkasölubraut, og það því síður, sem við höfðum í fyrra fengið framgengt tveim mjög svo mikilvægum, ef ekki hinum mikilvægustu atriðum í þessu máli, banni á innflutningi á kartöflum og greiðslu flutningskostnaðar til þeirra bænda, sem erfitt eiga með að koma framleiðslu sinni á markað sökum fjarlægðar. Á þeim grundvelli hefði okkur átt að vera hægt að leiða málið til sigurs. En hv. þm. Mýr. hefir nú sogast inn í einkasöluhringiðuna, og skal ég ekki ámæla honum fyrir það, en álít þó, að hann hefði getað látið ógert að taka upp nýja og lakari stefnu í þessu máli.