30.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (3300)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Emil Jónsson:

Ég á hér eina brtt., sem ég vil gera grein fyrir. í 3. gr. frv. er fyrirmæli um það, að grænmetisverzlun ríkisins sé skylt að kaupa fyrir innkaupsverð allar kartöflur, sem eru framleiddar hér á landi. Mér finnst, að hér verði að koma sú skylda á móti, að framleiðendum verði gert að skyldu að selja grænmetisverzluninni allar kartöflur, sem ekki fara beint til neytenda. Með þessu einu er hægt að hafa yfirsýn um vöruna, en kapphlaup við verzlanir myndi valda glundroða, og strax og hægt er að fullnægja eftirspurn, gæti það orðið til þess, að verzlanirnar undirbyðu einkasöluna og gætu þannig losnað við birgðir sínar á undan henni. Það gætu legið ýmsar ástæður til þess, að menn seldu verzlunum kartöflur sínar fremur en einkasölunni, einkum þó skuldir manna við verzlanirnar, jafnvel undir raunverulegu innkaupsverði. Ég tel þessa brtt. því nauðsynlega, bæði fyrir einkasöluna og einstaklinga.