20.12.1935
Sameinað þing: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

1. mál, fjárlög 1936

Thor Thors:

Ég á nokkrar brtt. á þskj. 890. Sú fyrsta er merkt V., brtt. við 12. gr., í tveim liðum; a-liðurinn er um 300 kr. hækkun á læknisvitjunarstyrk, sem gangi til Neshrepps utan Ennis. Er full ástæða til að taka þennan hrepp með í 12. gr. Þó að ekki sé þarna mjög langt að færa til læknis, er það mjög erfitt á vetrum, yfir tvær ár að fara, og oft ekki hægt að fara landveg, en sjóferðir mjög dýrar. Þorpsbúar hafa átt við mikil veikindi að búa undanfarið, t. d. hefir barnaveiki geisað þar á staðnum. Þessi upphæð, 300 kr., er svo lítil, að ekki ætti að þurfa að eyða fleiri orðum um málið.

Þá er VIII. brtt. um vegabætur á Snæfellsnesi. Þessi sýsla hefir orðið mjög afskipt um vegafé. 1. brtt. er um það, að framlagið til Stykkishólmsvegar hækki úr 7500 kr. upp í 15000 kr. vegalagning frá Borgarnesi til Stykkishólms var hafin um aldamót og er um 100 km. að lengd, en á þessum 33 árum, sem síðan eru liðin, hefir vegagerðinni ekki miðað áfram betur en það, að enn eru ca. 15 km. eftir. Er þarna um torfæru að ræða á Kerlingarskarði, sem hefjast þarf handa um að bæta strax á næsta sumri, og yfir Gæshólamýri þarf að koma veginum, en það getur ekki kostað minna en 15000 kr.

2. brtt. á þessum lið er um hækkun framlagsins til Ólafsvíkurvegar úr 3000 kr. í 4000 kr. Ég reyndi við 2. umr. að fá þetta hækkað upp í 5000 kr., en varð fyrir vonbrigðum, og stilli ég því till. að þessu sinni í hóf eins og hægt er. Í þessari sömu brtt., b-lið, er farið fram á 7500 kr. framlag til Hellusandsvegar. Þetta er eitt af stærstu kauptúnum landsins, með yfir 600 íbúa, en það er alveg sambandslaust við önnur héruð. Í vegal. hefir nú verið ákveðið að leggja veg milli Ólafsvíkur og Sands. og er því vonandi, að ekki verði þess langt að bíða, að þetta kauptún komist í samband við umheiminn.

Þá er XVI. brtt. á sama þskj., að fyrir 5000 kr. til hafnarbóta á Sandi komi 7000 kr. Hafnargerð þarna hefir staðið lengi, og hafa verið lagðar fram til hennar 77 þús. kr. samtals. Þegar hv. fjvn. samþ. að leggja fram þessar 5000 kr., var talið líklegt, að 15000 kr. myndu nægja til að fullgera höfnina, en í sumar hefir farið fram ný mæling, og hefir það sýnt sig, að 21 þús. muni þurfa til að fullgera verkið. Þessi till. mín miðar því að því, að hægt verði að fullgera þetta verk, sem fjvn. hefir nú í rauninni samþ., að skuli lokið. Hér er ekki um neina nýja fjárveitingu að ræða, heldur aðeins nauðsynlega leiðréttingu, til þess að vilji hv. fjvn. geti náð fram að ganga.

Síðasta brtt. mín á þskj. 890 er merkt XXXIII. Er þar farið fram á hækkun styrks til Sambands breiðfirzkra kvenna úr 250 kr. í 400 kr. Er sú hækkun í sambandi við styrk, sem öðrum kvenfélögum hér á landi er veittur. Þetta kvennasamband hefir m. a. beitt sér fyrir garðyrkjunámskeiðum í héraðinu. Alþingi sýnir nú mikinn áhuga fyrir því að auka garðyrkju í landinu, og vona ég, að sá áhugi komi einnig fram í því, að þessi styrkur verði veittur. Þó að hækkunin sé lítil, sem hér er farið fram á, þá býst ég við, að hún nægi til þess, að sambandið geti haldið áfram að starfa að þessu og jafnframt hafið samskonar kennslu norðan Breiðafjarðar, í Barðastrandarsýslu. En það hefir það ekki getað ennþá vegna fjárskorts. Ég treysti því, að þeir hv. þm., sem eiga hagsmuna að gæta í því kjördæmi, Barðastrandarsýslu, sjái sóma sinn í því að stuðla að því, að þessi brtt. verði samþ. Ég á svo ekki fleiri brtt., sem ég þarf að mæla fyrir. Það sýnist líka næsta tilgangslaust að mæla fyrir brtt., þegar það er aðgætt, hversu fáir það eru, sem hlýða á mál manna.