20.12.1935
Sameinað þing: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

1. mál, fjárlög 1936

Jón Pálmason:

Ég skal ekki eyða tíma í að ræða um fjárl. almennt, enda er ekki ástæða til þess að gera það núna. En ég ætla að víkja með örfáum orðum að þeim brtt., sem ég hefi leyft mér að bera fram á þskj. 890, en þær snerta allar mitt kjördæmi. 1. brtt. rómv. 4. a. og b., við 12. gr., 3, fer fram á, að læknisvitjanastyrkur hækki um 200 kr. og þeim verði varið til læknisvitjana í Vindhælishreppi fyrir norðan Björg. Það hefir á undanförnum árum verið veittur styrkur til þeirra héraða víðsvegar um land, sem erfitt eiga um læknisvitjun. Og í þessu tilfelli hagar svo til, að það er um 50 —80 km. frá Blönduósi til þess héraðs, sem hér er farið fram á að veita styrk til. Ég hefi átt tal við landlækni um þetta, og hefir hann gefið mér þær upplýsingar, að víða sé veittur læknisvitjanastyrkur þar, sem er þægilegri aðstaða heldur en á þessum stað. Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta. En ég veit, að hv. þm. sjá, að þeir eru í ósamræmi við sjálfa sig. ef þeir greiða atkv. gegn því, að styrkur sé veittur til þeirra, sem eru verr settir heldur en sumir þeir, sem þegar hafa hlotið styrk í fjárl. þeim, sem nú liggja fyrir.

Næsta till. mín er undir rómv. 14, og er hún um það, að til Skagastrandarhafnar verði veittar 12000 kr. í staðinn fyrir 8000 kr. Mér er sagt, að fjvn. hafi ákveðið þessa upphæð svo lága, vegna þess að miðað hafi verið við skuldir þær, sem standa upp á ríkissjóð fyrir hafnargerðir, sem byggðar hafi verið undanfarin ár. Ég lít svo á, að þessi regla sé ekki sanngjörn, þegar litið er á það, að þær hafnargerðir fá hæstan styrk, sem byrjað hefir verið á áður en kreppan skall á. En í því tilfelli, sem hér er um að ræða, var ekki byrjað á verkinu fyrr en kreppan var skollin á, og hefir orðið að vinna það með lánsútvegun. Það hefir sýnt sig, og mun sýna sig betur síðar, að það eru meiri líkur til þess, að hafnargerðin komi að tilætluðum notum, eftir því sem mannvirkið hefir betri aðstöðu. Og þar sem það er meira vit í því að leggja töluvert fé í hafnargerð þarna heldur en á mörgum öðrum stöðum, þá er því fremur ástæða fyrir þingið að vera ekki tregt á framlög til þessa mannvirkis, enda er ekki farið fram á meira en það, að framlagið sé hækkuð um 1/3. Allar till. til hækkunar framlags til þessa mannvirkis voru felldar í fyrra, en einar 8 þús. voru veittar fram yfir það, sem ákveðið var í byrjun aukaþingsins 7933.

Ég er þakklátur fjvn. fyrir að hafa tekið upp í 22. gr. ábyrgðarheimild fyrir 18 þús. kr. láni til vatnsveitu á Skagaströnd, og er þar svo stillt í hóf, að ég vona, að það komi að fullum notum. Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en ég vænti þess, að þessi brtt. mín fái góðar undirtektir.

3. brtt. mín er undir rómv. 17 á þskj. 890, og fer hún fram á hækkun á framlagi til endurbóta á bátabryggjunni á Blönduósi, sem skemmdist í ofviðri um veturnætur 1934. Það er ákveðið, að veittar verði 11 þús. kr., sem áætlað er að sé ? af viðgerðarkostnaðinum. Þó að upphæðin sé í fjárlagafrv. 10 þús. kr., þá hefir fjvn. bætt við 1 þús. í samræmi við það, sem ákveðið var í vor leið. Viðgerðin, sem framkvæmd var í sumar, kostaði 34 þús. kr., og það er áætlað, að til viðbótar þurfi 25 þús. kr., 5 þús. til viðgerðarinnar og 20 þús. kr. til þess að setja framan við bryggjuna. En samkv. upplýsingum, sem legið hafa fyrir fjvn., er brýn þörf á því, að þetta sé gert sem fyrst, svo að menn verði ekki í vandræðum með mannvirkið. Aðgerðin á bryggjunni mun fara 6 þús. kr. fram úr áætlun þeirri, sem gerð var í fyrra, og mundi þá framlag ríkissjóðs eiga að nema 2 þús. kr. Aðaltill. mín er miðuð við það, að verkinu sé lokið og lagt sé í að gera bryggjuhausinn framan við bryggjuna. Í sumar var talsvert til af við frá aðgerðinni, og mætti nota hann. En varatill. er miðuð við það, að ljúka við að steypa bryggjuna fram úr, og miða ég við það, þar sem ég geri það að till. minni, að 13 þús. komi í staðinn fyrir 11 þús.

Ég veit, að hv. dm. skilja, hvernig á stendur, og að þeir muni haga atkv. sínum eftir því.

Síðasta brtt. mín er undir rómv. 22, og er hún um það, að taka upp 1500 kr. fjárveitingu til fjós- og hlöðubyggingar við kvennaskólann á Blönduósi. Á síðasta þingi var styrkur til skólans lækkaður um 3 þús. kr., en 1500 kr. veittar til þessara bygginga, sem þarf að framkvæma þar. En nú var áætlað, að sú bygging kostaði 6 —8 þús. kr., og þar sem styrkurinn til skólans var lækkaður á síðustu fjárl. og ekki hærri styrkur veittur til þessarar byggingar, þá varð það úr, að byggingunni var frestað þangað til á komandi vori, en lengur er það ekki hægt. Með þessari brtt. er farið fram á, að sama upphæð, 1500 kr., verði veitt aftur, svo að fjárveitingin yrði þá alls 3 þús. kr. Og verður þá það, sem ríkið veitir, tæpur helmingur af því, sem byggingin kostar. Það er skiljanlegur hlutur, að þegar búið er að lækka styrkinn til skólans, — en það mun vera einsdæmi, að slíkt hafi verið gert, því það hefir ekki átt sér stað um aðra skóla, — að þá er ekki þægilegt fyrir hann eða sýslufélagið að ráðast í nýjar framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru. Ég skal játa, að ég hafði ekki athugað, að þetta hafði verið fellt niður, fyrr en svo seint, að ég átti ekki kost á því að bera mig saman við fjvn. í heild. Ég hefi átt tal við nokkra fjvnmenn og einnig hæstv. fjmrh., og skildist mér á þeim, að þeir álitu þetta sanngjarnt. Ég vænti því þess, að till. verði samþ. af hv. Alþ.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þessar till. mínar. Ég mun ekki heldur eyða tíma í að ræða fjárl. í heild, enda mun það hafa litla þýðingu, því það mun ráðið, hvernig afgreiðsla þeirra á að vera, og það mun því ekki hafa breyt. í för með sér, þó að þm. ræði þau yfirleitt við þessa umr. Ég vona að lokum, að þessar smávægilegu brtt. mínar fái góðar undirtektir hjá hv. Alþ.