16.12.1935
Efri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2325 í B-deild Alþingistíðinda. (3320)

199. mál, Kreppulánasjóður

Páll Hermannsson:

við 2. umr. þessa máls var þess getið, að allshn. myndi koma fram með brtt. við 3. umr. Það hefir nú verið gert. Það er sameiginlegt með öllum þessum brtt., að þær eru ekki efnisbreyt., heldur tilfærslur milli greina, viðaukar, eða nánari fyrirmæli.

1. brtt. er millifærsla. Þótti réttara að taka ákvæði úr 3. gr. og setja inn í 1. gr., af því að þau áttu þar betur heima.

Um 2. brtt., við 3. gr., er það að segja, að hún er afleiðing af hinni brtt. að nokkru leyti, en líka smáformsbreyting. Þar er ætlazt til, að stjórn Kreppulánasjóðs veki athygli hreppsnefnda og bæjarstjórna á fyrirmælum frv., og þau sveitar- og bæjarfélög, sem ætla að nota fyrirmæli frv., gefi sig fram, en ekki verði kallað eftir skýrslum frá þeim sveitar- og bæjarfélögum, sem ekki nota sér ákvæði þess.

3. brtt. er við 8. gr. Efni hennar er að taka fram, hvaða tryggingar verði fyrir væntanlegum skuldabréfum. Verða þær tryggingar alveg hinar sömu og í kreppulögunum: Þau skuldabréf, sem sjóðurinn fær frá lántaka, og ábyrgð ríkissjóðs. Ennfremur eru þar ákvæði um það, að hin nýja stjórn Kreppulánasjóðs gefi þau út.

4. brtt. er við 11. gr. og er aðeins leiðrétting. Í lögunum stóð, að ekki þyrfti að senda skýrslur um fyrirtæki, sem bæjar- og sveitar félög reka. En réttara þótti að fá skýrslur um þetta, þar eð slíkur rekstur getur haft áhrif á hag sveitar- og bæjarfélaga.

Í 5. brtt. er gert ráð fyrir, að síðustu gr. myndi sérstakan kafla: Almenn ákvæði. Þar eru ákvæði um kostnað o. s. frv. Eftir frv. á ríkissjóður að greiða stjórnarkostnað. Annan kostnað á Kreppulánasjóður að greiða eftir brtt. Þá er og tekið þar fram, að þar sem ekki sé um ný ákvæði að ræða, skuli farið eftir lögum um Kreppulánasjóð. Ætlazt er til, að svo verði gengið frá þessari útlánastarfsemi til bæjar- og sveitarfélaga, að kröfur þær, sem ekki komu fram, falli úr gildi og séu þar með úr sögunni.