21.12.1935
Sameinað þing: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

1. mál, fjárlög 1936

Pétur Ottesen:

Ég á hér þrjár brtt. Hin fyrsta er um það, að framlagið til flóabáta hækki um 1500 kr. og að hækkunin bætist við Akranesbátinn Fagranes. Þetta er eini flóabáturinn, sem engan styrk hefir fengið síðastl. ár. Hélt þessi bátur þó uppi daglegum ferðum milli Akraness og Reykjavíkur lengst af á síðastl. sumri, en fór annars þrisvar í viku, en þessar tíðu ferðir eru fyrst og fremst farnar vegna þarfa mjólkurframleiðenda á svæðinu utan Hafnarfjalls. Ferðir Hvalfjarðarbátsins, sem notið hefir nokkurs styrks að undanförnu, hafa nú lagzt niður, en flutningar þeir, sem hann annaðist, færzt yfir í Fagranesið. Samgmn. hefir því fært styrk þann, sem Hvalfjarðarbáturinn hefir haft, yfir á Fagranesið, 1500 krónur. Þessi bátur annast nú, auk alls annars, alla flutninga fyrir bændur í neðri hluta Borgarfjarðarsýslu, en til þess að koma mjólkinni í söluhæfu ástandi á markaðinn, verður að flytja hana daglega meðan heitt er í veðri, en sá flutningur er dýr. Ég hefi því flutt brtt. um að hækka styrkinn til Fagranessins upp í 3 þús. kr. Eins og áður er sagt, er það vitanlega mjög áríðandi fyrir bændur að geta komið mjólkinni daglega hingað til Reykjavíkur, því að þá er hægt að selja hana beint til neytendanna, og það gildir þá 8 —9 aura meira á hvern lítra, því að annars verður að vinna úr mjólkinni. Að senda mjólkina svona daglega verður vitanlega mun dýrara en ef hún væri ekki send nema annan eða þriðja hvern dag, en eins og ég tók fram, þá er það bændunum óumflýjanleg nauðsyn vegna verðmismunarins.

Þá á ég enn brtt. á þskj. 890, við brtt. á þskj. 881,50, viðvíkjandi Fiskifélaginu. Þegar fjvn. var að gera ráðstafanir til að færa niður útgjaldaliði fjárl., þá hafði sezt yfir tvennt, er snerti Fiskifélagið. Í fyrsta lagi það, að styrkurinn til þess var lækkaður um 5 þús. kr. á síðastl. ári, en sambærilegur styrkur til Búnaðarfélags Íslands var þá látinn standa óhreyfður. Auk þessa var þess ekki gætt, að það kostaði 3 þús. kr. útgjöld fyrir félagið, að söfnun aflaskýrsla var færð yfir á það. Þetta sást fjvn. yfir, en ef þetta hefði verið athugað, geri ég ráð fyrir, að það hefði haft áhrif gagnvart niðurfærslu n. hjá félaginu. Nú hefði ég viljað tala við hæstv. atvmrh. um þetta, en hann er ekki mættur á fundinum. (MG: Það eru takmörk fyrir því hvað menn geta vakað). Ég skil varla í því, að ekki megi leggja sömu vökur á ráðherra og aðra þm., og ég fæ alls ekki séð, að þeir geti á nokkurn hátt skorazt undan að taka þátt í þeirri vinnu, sem forseti telur forsvaranlegt að leggja á þingmenn yfirleitt.

Það verður mjög þröngt fyrir dyrum hjá Fiskifélaginu að bera uppi þá starfsemi, sem það hefir með höndum fyrir fiskimenn þessa lands, ef styrkurinn verður færður niður eins og tillögur liggja fyrir um. Því er svo háttað, að félagið hefir þrjá fasta starfsmenn í þjónustu sinni, fyrir utan þá menn, er í skrifstofu vinna, fiskifræðing, vélfræðing og efnafræðing. Það, sem ég nú vildi skjóta til hæstv. atvmrh., fyrst hann er nú kominn, er það, hvort hann sæi sér ekki fært að láta t. d. einhverja aðra stofnun taka þátt í launagreiðslu einhvers þessara manna, til þess að létta á Fiskifélaginu. Þetta vænti ég, að hæstv. ráðh. taki til athugunar.

Þá hefi ég og flutt brtt. um það, að eftirlit og birting veðurfregna verði lögð undir Fiskifélag Íslands. Að undanförnu hafa verið veittar 5 þús. kr. til þessa. Ég legg því til, að upphæð þessi renni til Fiskifélagsins, og að liðurinn sem slíkur falli niður. Þetta vænti ég, að hæstv. Alþingi geti fallizt á.

Þriðja brtt. mín er um það, að endurgreiða skemmtanaskatt af þeim skemmtunum, sem Slysavarnafélagið heldur til ágóða fyrir slysavarnir.

Eins og ég benti á í öðru sambandi, er nú á síðari árum mjög unnið að því að efla og auka slysavarnirnar. Er mikill áhugi vaknaður fyrir þessu starfi, og er allmikið orðið ágengt í málinu. Ein aðalleiðin til öflunar fjár, sem síðan er notað til þess að koma upp björgunarskipum og setja upp björgunarstöðvar, er sú, að halda skemmtisamkomur og verja ágóðanum til slysavarnanna. Nú hvílir á öllum slíkum skemmtisamkomum nokkuð hár skattur til ríkissjóðs. Fjvn. hefir borizt erindi frá kvennadeild Slysavarnafélags Íslands um það, að þessi skattur verði felldur niður af nefndum samkomum. Félagið munar þetta allmiklu, en mér finnst þessi félagsskapur eiginlega yfir það hafinn að borga þennan skatt, og þess vegna sé réttmætt að fella hann niður. Ég vænti því, að hv. Alþingi geti fallizt á þessa ósk kvennadeildarinnar. — Ég hefi svo ekki fleira að minnast á, því hv. 1. þm. Skagf. hefir f. h. okkar sjálfstæðismanna í fjvn. lýst viðhorfi okkar til fjárl.