21.12.1935
Efri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2334 í B-deild Alþingistíðinda. (3367)

173. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég á hér brtt. við brtt. hv. meiri hl. samgmn., á þskj. nr. 920. Í brtt. er misprentun, eða líklega öllu heldur misritun, þar stendur: „Þó mega fólksflutningsbifreiðar, sem rúma 6 farþega eða fleiri“ o. s. frv., en á að vera: „Þó mega fólksflutningsbifreiðar, sem rúma fleiri en 6 farþega“. — Meiningin með þessari brtt. er sú, að þeir, sem eiga stórar fólksflutningabifreiðar, geti ekki fengið leyfi til að flytja fólk í föstum áætlunarferðum á sunnudögum á milli Þingvalla og Reykjavíkur. nema þeir hafi sérleyfi á þeirri leið aðra daga vikunnar. Hinsvegar á það, þrátt fyrir þessa brtt., að vera óbundið um bifreiðar, sem taka 6 menn eða færri, hvernig þær haga ferðum á þessari leið. Það er hart, að þeir, sem fengið hafa sérleyfi til 3 ára og tekið hafa á sig skyldur til að halda uppi ferðum á virkum dögum á þessari leið, jafnvel þó að þeir hafi þá oft haft enga farþega að flytja, að þeir séu nú látnir verða fyrir þeim búsifjum að mega ekki hafa sérleyfið áfram einnig á sunnudögum til þessara flutninga, þ. e. a. s. af stærri bílum. Hins vegar er fólksflutningaþörfin svo mikil á sunnudögum á þessari leið, að sjálfsagt er að veita smærri bifreiðum, sem rúma allt að 6 farþega, fullt leyfi til flutninga á þessari leið þá daga. — Þá er í öðru lagi á þessu þskj. brtt. við brtt. hv. meiri hl. samgmn. um það, að orðin „Alþýðusamband Íslands einn“ falli niður úr 2. lið brtt. n. Það verður ekki séð, að minnsta ástæða sé til þess, að Alþýðusamband Íslands tilnefni mann í n., sem á að annast bifreiðaflutninga eða um veitingu sérleyfa um þá flutninga á hinum ýmsu leiðum. Það er vitanlega af pólitískum ástæðum að till. er gerð um að Alþýðusamband Íslands tilnefni þennan mann. Ég hygg, að það muni verða misþakkað, ef á að þröngva þannig manni upp á serleyfishafa í þá n., sem á að gera till. um þessi efni póstmálastjórnarinnar. En hinsvegar er ekki nema eðlilegt, að sérleyfishafar, til þess að gæta sinna hagsmuna og til þess að tryggja, að sem bezt samkomulag fáist á milli hinna ýmsu bifreiðastöðva um fólksflutningana, fái að tilnefna samkvæmt mínni brtt. þrjá menn í n., í stað tveggja, sem hv. meiri hl. samgmn. leggur til, að þeir tilnefni í n., í brtt. á þskj. nr. 899. — Ég sé, að fram er komin brtt. frá hv. 1. þm. Eyf. um það, að bifreiðastjórafélagið „Hreyfill“ skuli ekki tilnefna neinn mann í n. Ég legg til, að þetta ákvæði verði fellt úr frv. Því að jafnvel þótt þetta félag hafi engar áætlunarferðir, þá hygg ég, að með því að láta það hafa heimild til að tilnefna einn mann í n., muni takast betri samvinna á milli þeirra, sem hafa áætlunarferðir á ýmsum leiðum, og þeirra, sem hafa smærri bifreiðar.

Annars er það næsta undarlegt, að þessar brtt. skuli vera komnar fram, því að póstmálastjóri hafi samið frv., eins og það var í upphafi, og frv. var auk þess samþ. í hv. Nd. óbreytt. Þegar frv. kom til samgmn. þessarar d. tjáði hann mér, að hann hefði engar óskir fram að bera um breyt. á því. En svo er farið að koma með ýmsar brtt. við það af þeim, sem engin sérleyfi hafa og engra hagsmuna hafa að gæta um sérleyfisveitingar um áætlunarferðir. Póstmálastjóri kvaðst geta gengið inn á þá brtt., að sérleyfi yrðu ekki veitt til fastra áætlunarferða á heildarleiðunum: Reykjavík—Gullfoss, Reykjavík—Geysir og Reykjavík-Reykjanesviti. En hann sagði, að til þess þyrfti ekki neina lagabreytingu, því að þessi sérleyfi yrðu alls ekki veitt. Póstmálastjóri gat verið því sammála, að þessi þriggja manna n., sem sérleyfishafar nú hafa rétt til að kjósa sbr. 3. gr. gildandi l. nr. 62 28. jan. 1935, gerði sínar till. til póstmálastjóra samkvæmt heimild l. og að bætt yrði við kannske einum manni í n. En þegar ég talaði við póstmálastjóra, þá sagði hann, að hann vildi ekki lækka fulltrúum sérleyfishafa í þessari tillögun. Það væri mjög æskilegt, að sérleyfishafar hefðu 3 fulltrúa í þessari n., því að með því móti gæti einn verið tilnefndur af þeim, sem hafa áætlunarferðir um Austurland, einn af þeim, sem hafa áætlunarferðir um Norðurland og til Borgarness, og einn af þeim, sem hafa áætlunarferðir um Suðurland. Með þessu móti mundu verða meiri líkur til betri samkomulags og nánari samvinnu á milli sérleyfishafa, ef einn fulltrúi í þessari n. væri kosinn af sérleyfishöfum til áætlunarferða á Austurlandi. — Þess vegna legg ég til, að sérleyfishafar megi tilnefna 3 menn í þessa n., en Alþýðusamband Íslands engan.