12.12.1935
Efri deild: 93. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (3387)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hefði gjarnan óskað þess, að hv. minni hl. menntmn. talaði áður en ég tæki til máls, ef um minni hl. er að ræða, vegna þess að ég hefi áður talað tvisvar við þessa umr. og á því ekki eftir nema eina ræðu. — En ég vil leyfa mér að þakka hv. meiri hl. n., að svo miklu leyti sem hann er samþykkur frv. og brtt. við það, og fyrir aðgerðir hans í málinu. Mér þykja minni líkur til, að þær brtt., sem hv. meiri hl. n. flytur, skaði málið á nokkurn hátt. Ég geri því ráð fyrir, að við flm. brtt. við frv. getum gengið inn á þær. Ég hygg, að brtt. n. um skipun útgáfustj. sé athyglisverðust, en ég sé ekki annað en að við getum sæmilega við hana unað. Um aðrar brtt. n. er það að segja, að ég get fallizt á þær og sætt mig við, að framlag heimilanna yrði fært úr 5 kr. upp í 8 kr., af því að það er ekki öruggt, að 5 kr. muni nægja; en hinsvegar er 8 kr. gjald mun lægra en það, sem heimili með einu skólaskyldu barni þarf að greiða nú fyrir skólabækur. Ég tel þetta því mikinn ávinning, þrátt fyrir allt. — Ég skal ekki um það ræða, hvernig séð verður fyrir kaupum á þeim skólabókum, sem nú eru fyrir í landinu, en ég geri ráð fyrir, að þeim, sem þær eiga, verði í engu óréttur gerður, og ber það traust til þeirra manna, sem valdir verða í útgáfustj., að þeir sýni fullkomið réttlæti og sanngirni í því efni. Ég get því fallizt á þá brtt., sem hv. þdm. geta yfirleitt orðið ásáttir um að því er þetta snertir.

Ræða hv. frsm. n. gaf mér ekki tilefni til frekari umr. Hann vék að öðru efni í sambandi við fræðslumálin í landinu, en það mun síðar gefast tilefni til að ræða það frekar.

Ég vænti, að hæstv. forseti gefi mér kost á að taka til máls síðar, ef hv. minni hl. n. gerir einhverjar aths. við frv., sem ég teldi mér skylt að svara. En ég held, að hv. minni hl. hafi ekki nein sérstök ágreiningsatriði fram að bera og muni fylgja þessum till. í aðalatriðum.

Ég get lýst ánægju minni yfir meðferð málsins og vona, að það gangi fram á þessu þingi, þó að nokkur hætta sé á, að það kunni að verða tafið. Það er mikil nauðsyn á, að þeir, sem eiga að njóta góðs af því, geti fengið það sem fyrst.