12.12.1935
Efri deild: 93. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (3389)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það þarf í raun og veru talsvert ímyndunarafl til þess að sjá, að þetta sé sama málið og undanfarið hefir verið að þvælast hér fyrir á Alþingi, og flutt var hér í d. í þingbyrjun. Í þessum brtt. við frv., sem nú liggja hér fyrir — í raun og veru til 1. umr. —, eru svo róttækar breyt., að það er um gersamlega nýtt mál að ræða. Það, sem tengir þessi tvö frv. saman, er þó sú hugsun, að ríkið eigi sjálft að gefa út skólabækur. Um það hefir mikið verið deilt á undanförnum þingum, en ekki annað af því, sem hér liggur fyrir í þessum till. — Ég hefi ekki fellt mig við þær uppástungur, að ríkið gæfi út skólabækur, og ætla ekki að endurtaka rök mín og annara gegn því. Ég sé ekki, að það skapist nýir möguleikar, þó að ríkið taki við bókaútgáfunni; og þó að það sé sýnt reikningslega á pappírnum, að útgáfan verði svo og svo mikið ódýrari hjá ríkinu en ella, þá er það bara af því, að ýmsum kostnaðarliðum er sleppt úr þeirri áætlun. Þetta á sem sagt allt að gerast á undursamlegan hátt. En reynslan hefir hinsvegar alltaf sýnt það, að slíkar framkvæmdir sem þessar eru miklu dýrari hjá ríkinu en einstaklingum. Þessi hugsun, sem hér hefir verið rótfest í sambandi við útgáfu skólabóka, er af mörgum talin svo sjálfsögð, að það er eins og þeim finnist ekki unnt að starfrækja þetta kerfi nema undir umsjá ríkisins; og það er náttúrlega hægast að útbýta ókeypis bókum á þann hátt. En ég hygg, að þetta kerfi sé ómögulegt eins og það er hugsað, og að það verði bara útgjaldabaggi á ríkissjóði. Aðalatriðið í þessu máli er að leita nýrra ráða til þess að útvega börnunum ódýrari skólabækur en áður; og ég get náttúrlega ekki sagt annað en allt það bezta um þann lofsverða tilgang. Og sannleikurinn er sá, að skólabókakostnaður barna er út yfir alla skynsemi. Ég hefi ekki athugað eða fylgzt með því, hvað hann muni vera mikill á síðari árum, en það er augljóst, að hann er geysilegur. Í hvert sinn sem börn þurfa að flytjast milli bekkja í skólum, þá þurfa þau einnig að skipta um kennslubækur. — En nú er ef til vill bætt úr þessu að einhverju leyti, því að ég veit ekki betur en að fræðslumálastjóri og skólanefndir hafi tök á að ákveða hversu margar bækur eru notaðar í barnaskólunum. Enda er gert ráð fyrir því í þeim útreikningi, sem liggur til grundvallar fyrir væntanlegri útgáfu skólabóka, að kennslubókum verði ekki fækkað, eftir að hið nýja fyrirkomulag kemst á, heldur að þær verði ódýrari en ella.

Þó það sé máske ekki í samræmi við þingsköp að tala almennt um þær brtt., sem hér liggja fyrir, við þessa umr., þá verð ég nú samt að ganga nokkuð inn á þá fjáröflunartill., sem í frv. felst. Þetta útgáfukerfi byggist á þeirri hugsun, að lagður verði almennur skattur, jöfn upphæð, á öll heimili, sem eiga börn á skólaskyldualdri, til

þess að standast kostnað af því að útbýta ókeypis skólabókum til allra skólabarna. Hér er að vísu aðeins talað um skólabækur. En ég sé engan eðlismun á því að útbýta þeim ókeypis heldur en einhverju öðru, sem börnin hafa þörf fyrir, t. d. fæði, föt, skótau o. s. frv. Það mætti láta ríkið stofna og reka skótausverksmiðju, engu síður en prentsmiðju, og ennfremur klæðaverksmiðju og prjónastofu, til þess að útbýta svo þessum vörum ókeypis til barnanna. Og ef það reynist vel, þá má halda lengra, og miða þetta ekki einungis við börnin, en lofa fullorðna fólkinu einnig að njóta þessara ókeypis vöruúthlutana.

Hér er verið að innleiða alveg nýja aðferð. Það á að leggja sérstakan skatt á borgarana til þess að kaupa fyrir þá peninga ákveðnar vörutegundir og útbýta þeim svo gefins. Ég sé engan mun á því, hvort hér er um bækur að ræða eða annað verðmæti. Og ég get ekki heldur séð, hvers vegna bækurnar eiga að verða ódýrari af því, að andvirði þeirra er innheimt með þessum skatti. Hvers vegna má ekki lofa ríkisprentsmiðjunni að gefa bækurnar út og selja þær? Hér er um tvær leiðir að velja. Hver er munurinn á þeim? Hvers vegna þarf frekar að fara fyrri leiðina en hina? Það er sá eini munur á þeim, að samkv. skattaleiðinni verða ýms heimili að borga meira en fyrir sig, - þau borga einnig fyrir aðra. Það er líka ef til vill aðaltilgangur hv. flm. En ég skil ekki, hvers vegna þessi skattálagning á fremur rétt á sér vegna gjafa á skólabókum heldur en öðrum góðum hlutum. - Það kann að vera, að einhver sérstök blessun muni fylgja þessum 5-8 króna skatti, en ég sé ekki, hvaða sparnaði þetta veldur við útgáfu skólabókanna. Það kann að vera sprottið af misskilningi hjá mér. Bókamarkaðurinn eykst ekkert; það selst ekki meira af bókunum, hvort heldur andvirðið er innheimt með skatti eða með segjum kr. 1.25 fyrir hvert eintak. Hér er bara um tvennskonar aðferðir að ræða á innheimtunni. Önnur leiðin er sú, að innheimta gjaldið af heimilunum, hin er sú, að ríkisprentsmiðjan gefi bækurnar út og börnin kaupi þær sjálf. Munurinn er ekki annar en sá, að í fyrra tilfellinu er lagt bann við því, að bækurnar séu seldar aftur; með því er útilokað, að eitt barnið geti notað bækurnar á eftir öðru, nema þær séu látnar af hendi gefins, og það mun börnunum ekki vera bannað, en ekki er þeim það skylt samkv. frv. - Þegar það er nú einu sinni komið inn í meðvitund fólksins, að bækurnar séu gefnar af því opinbera, þá heldur það fastar á þeim og þá breytast máske útreikningarnir fyrir þessari skólabókaútgáfu. Annars getur vel verið, að ýms atriði í frv. leiði út í rökvillur, eins og þetta; ég hefi ekki athugað það svo. En ef kerfið er rétt reiknað út, þá eiga að koma jafnmiklir peningar inn upp í útgáfukostnaðinn, hvort sem þeir eru innheimtir með skatti eða að hver bók er borguð fyrir sig.

Annars mun ég ekki fara út í hvert einstakt atriði í þessum ýtarlegu till., enda var ég ekki í n., sem um það hefir fjallað. Ég skal játa, að ég hefi máske ekki krufið þetta mál fyllilega til mergjar. En mér virðist það ekki annað að en útfærsla á tveimur höfuðatriðum, að ríkið gefi út skólabækur og innheimti sérstakt gjald til að standast útgáfukostnaðinn.

Hv. meiri hl. menntmn. leggur til, að gerðar verði breyt. á ákvæðum frv. um stjórn skólabókaútgáfunnar. Mér finnst það vera aukaatriði, og skipun n. er einnig aukaatriði. Útgáfukostnaðurinn er aðalatriðið. - Ég skal fúslega játa, að ég er ekki svo kunnugur útreikningum um útgáfukostnað bóka, að ég geti fyllilega gagnrýnt þetta kraftaverk, sem hér á nú að láta gerast á því sviði. Og enda þótt ég ætti ekki að verða fyrstur manna til þess að efast um, að kraftaverk gerist enn á meðal vor, þá er ég nú samt dálítið hræddur um, að það reynist ekki í þessu falli. Mér skilst svo, að ef ríkið á að leggja í þessa bókaútgáfu, þá þurfi að leggja fram til þess nokkur hundruð þús. krónur, og að þá hljóti jafnframt að koma til greina vaxtatap á því fé o. s. frv. Hinsvegar kemur gjaldið ekki inn fyrr en smásaman; hlýtur því að leggjast á þetta töluverð vaxtabyrði. Í því sambandi get ég sagt það, að ég skil ekki almennilega, hvernig á að vera hægt að koma þessu öllu í kring undir eins, á parti úr ári, skilst mér. Því það er náttúrlega mikið verk að undirbúa útgáfuna, prenta, hefta og binda og senda út allan þennan sæg af bókum. (MG: Má ekki nota upplög gömlu bókanna?). Jú, með samþykki útgáfustj. má kaupa upplög bókanna, sem fyrir eru, og það mundi auðvitað létta þessa útgáfu. En ætla má, að ekki yrðu ódýrari þær bækur, sem gefnar hafa verið út undir hinu óhentuga einstaklingsfyrirkomulagi, svo það þyrfti samt sem áður að leggja fram töluvert mikla peninga til að byrja með. Ég skildi ekki, hvernig hv. frsm. hugsað sér, að þetta fé gæti komið inn á örstuttum tíma; mér virðast útreikningarnir allir miðaðir við margra ára bil. Það er gert ráð fyrir 12 þús. skólaskyldum börnum í landinu og að þau þurfi 2000 eintök af hverri bók á ári. Skilst mér þetta miðað við 6 ára tímabil og að fyrsta upplagið eigi að endast í 3 ár. Kennslubókaskatturinn er áætlaður 40 þús. kr. á ári, og verði kostnaðurinn við útgáfu allra bókanna 120 þús. kr., þá líða 3 ár þangað til það fé er allt komið inn, og þá er komið að því, að út þarf að gefa nýtt upplag og leggja til peninga fyrir það aftur. Mér skilst því, að oftast nær hljóti að hvíla skuld á þessari útgáfustarfsemi. Það hefir að vísu ekkert að segja annað en það, að nokkur vaxtakostnaður bætist við þann kostnað, sem annars þarf að reikna með. Áætlun ríkisprentsmiðjunnar á útgáfukostnaðinum ætla ég ekki að draga í efa, að sé rétt. Það fyrirtæki hefir enga ástæðu til að áætla kostnaðinn lægri en það álítur rétt, fremur þvert á móti, þar sem skoða má þetta sem einskonar tilboð af þess hendi. Hinsvegar sé ég ekki, að gert sé fyrir neinum kostnaði við dreifingu bókanna, nema fyrstu útsendingu; hitt á e. t. v. allt að gerast ókeypis.

Það fer nú stundum svo með þessa útreikninga, að þeir standast ekki í framkvæmdinni, og ég býst því við, að það sé a. m. k. varlegra að hugsa sér, að kostnaðinn við hið nýja fyrirkomulag, sem hér er um að ræða, verði talsvert veginn að koma í veg fyrir, að fyrirkomulagið kunni að vera hentugt. Það yrði þá bara að hækka gjaldið, ef kostnaðurinn reyndist meiri. N. hefir nú lagt til, að gjaldið geti orðið hærra heldur en upphaflega var stungið upp á, eða að það nemi 5-8 kr., og þykir mér líklegt, að það yrði sett í hámarkið. Byggi ég það á helzt til lítilli trú á, að þetta gangi nú allt saman eins og klukka, þegar það á að fara af stað.

Í niðurlagi aths. er sagt frá því, að ekki sé með þessu verið að setja á neina einokun á útgáfu skólabóka, mönnum sé frjálst að kaupa bækur, getnar út af einstökum mönnum, ef menn óska. En ef þessi hugmynd er framkvæmd út í æsar og þegar gefnar út allar þær námsbækur, sem fræðslumálastj. telur nauðsynlegar, þá er mér ekki vel ljóst, hvað á að gera við þessar aukakennslubækur, nema þá rétt ef börnin langar til að hafa eitthvað að lesa utanhjá. Mér skilst skrá fræðslumálastj. eiga að ná yfir allar kennslubækur, sem notaðar eru í barnaskólum landsins, svo ég sé ekki, að það verði neitt með aðrar námsbækur að gera og best við, að fáir vilji verða til að gefa þær út. Það er því bezt að segja eins og er, að það verður náttúrlega um einokun að ræða, ef þetta plan verður framkvæmt; það má ræða um, hvort það sé heppilegt fyrir því. Ég fyrir mitt leyti er ekki svo mjög hræddur við, þó fræðslumálastj. ákveði, hvaða kennslubækur eru gefnar út. Ég best ekki við, að hún færi að útiloka bækur, nema þær séu með einhverjum ákveðnum „tendens“, eða neitt slíkt. Ég hefi verið fylgjandi því, að fræðslumálastj. hefði vald til að segja fyrir um, hvaða bækur skuli notaðar í barnaskólum, því það er óhæft að vera alltaf að skipta um bækur og leggja með því stórum aukinn kostnað á heimilin.

En fyrir utan það, sem hér er fyrst og fremst um að ræða, að haga útgáfu kennslubóka handa barnaskólum eins og í frv. segir, er frv. að tvennu leyti talsvert víðtækara. Það er blandað inn í frv. hlutum, sem ég held, að spilli fyrir aðalefni þess. Það er ekkert á móti því út af fyrir sig, ef menn vilja á það fallast og finnst eitthvað svo dæmalaust skemmtilegur skipulagningarilmur af því, að gefa út og dreifa barnaskólabókunum á þann hátt, sem hér er stungið upp á. En frv. fer á tvennan hátt út fyrir þann ramma. Annarsvegar má fela ríkisprentsmiðjunni að gefa út hitt og þetta annað og verzla með allar mögulegar skólanauðsynjar. Er þannig bætt ofan á hitt einskonar ríkisverzlun með öll þessi kennslutæki.

Hitt atriðið, þar sem farið er út fyrir aðalefni frv., er í 6. lið till., er heimilar að láta þessa aðferð ná til annara almennra skóla í landinu, þannig að árgjaldið hækki og bókum sé útbýtt til þeirra eins og barnaskólanna. Mér finnst, að ef ég hefði verið með aðalhugmynd frv., þá hefði ég þó verið á móti þessari útvíkkun, því þarna er um skóla að ræða, sem eru allt annarar tegundar heldur en barnaskólarnir. Barnaskólarnir eru skylduskólar og því er hægt að reikna nokkurnveginn út þeirra bókaþörf, sem helzt nokkurnveginn óbreytt í hlutfalli við mannfjöldann í landinu. Hinir skólarnir eru aftur á móti frjálsir skólar, sem geta verið mikið sóttir í eitt skipti, en lítið sóttir í hitt skiptið, og því er held ég miklu erfiðara við þá að eiga í þessu tilliti. Mér skilst, að þessi hækkun á skólabókagjaldinu eigi ekki að lenda á þeim heimilum, sem börn eiga í barnaskólum, nema þau eigi líka börn í öðrum skólum, annars færi þetta að verða dálítið einkennilegt. En nú eru margir aðeins eitt og eitt ár í framhaldsskólunum, og þykist ég því vita, að það yrði dálítið erfiðara að fást við framkvæmd þessa fyrirkomulags að því er þá snertir heldur en barnaskólana, þar sem aðsóknin er beinlínis lögbundin. Ég held því, að það væri mjög heppilegt fyrir þá, sem hugmyndinni fylgja, að nema þetta hvorttveggja burtu úr frv. að svo komnu. Það er alltaf tækifæri til, ef þetta reynist vel, að víkka út ákvæði frv. síðar, enda yrði þá komin reynsla fyrir, á hvern hátt bezt væri að leysa þann aukna vanda, sem af því leiddi að láta þetta ná til þeirra skóla, sem miklu óvissari eru að öllu leyti heldur en barnaskólarnir. Ég held, að það yrði ákaflega mikil vinna og sparðatínsla við að finna út, hvaða heimili eiga nemendur í hinum ýmsu skólum og hvaða gjald hvert um sig á þannig að greiða. Mér skilst, að gjöldin yrðu að vera þrennskonar: fyrir þau heimili, sem eiga aðeins nemanda í barnaskóla, þau, sem eiga nemanda bæði í barnaskóla og öðrum skólum, og í þriðja lagi þau, sem eiga nemanda í einhverjum skóla öðrum en barnaskóla.

Það má að vísu segja, að þetta sé allt saman meinlaust, af því aðeins sé um heimild handa hæstv. ríkisstj. að ræða, og því verði það ekki framkvæmt fyrr en ráðlegt þykir. En ég álít, að Alþingi eigi að segja vilja sinn um þetta á hverjum tíma, enda er ekki mikil fyrirhöfn að breyta l. síðar, ef menn vilja.

Ég fyrir mitt leyti mun hvorki greiða atkv. með frv. óbreyttu né brtt., af ástæðum, sem ég hefi áður tjáð. Ég er yfirleitt á móti því, að ríkið taki þessa hluti að sér, en tel rétt, að fræðslumálastj. hafi aðstöðu til að sjá um, að heimilunum sé ekki íþyngt meira en nauðsynlegt er með kennslubókakaupum. Ég álít, að bækurnar verði ekki ódýrari, þó ríkið gefi þær út, og er ekki að svo stöddu viðbúinn að ganga inn á að leggja á ákveðinn skatt í þessum ákveðna tilgangi. Ég álít ekki á einu sviði hentugra en öðrum að kljúfa þannig út úr tilteknar þarfir ríkisins og leggja á vegna þeirra sérstök gjöld. Um þetta urðu dálitlar umr. í fyrra í sambandi við hátekjuskattinn, og lýsti ég þá, hvað mikil fjarstæða það væri að halda, að hægt væri að halda ákveðnum opinberum gjöldum sér og greiða með þeim sérstaklega ákveðnar þarfir ríkissjóðs. Öll slík gjöld renna vitanlega beint í ríkissjóð, sem svo aftur greiðir þann kostnað, sem þau eiga að mæta. Mér finnst ekkert annað en óráð að kljúfa þannig út úr það, sem í sjálfu sér er bara hluti af ríkissjóðnum sjálfum.

Í aths. till. er haldið fram, að útgáfukostnaður kennslubókanna geti komizt niður í 1.20 stykkið. Því er þá ekki lagt til, að bókunum sé bara útbýtt fyrir það verð? Það lægi miklu beinna við. Þá væri ekki orðið um svo mikil þyngsli að ræða fyrir neitt heimili, að ástæða væri til að dreifa kostnaðinum milli heimila. Hann væri þá orðinn hreint aukaatriði fyrir hvert einasta heimili, samanborið við ótal aðra kostnaðarliði, og því engin ástæða til að ná honum með sérstöku gjaldi, í stað þess að hvert heimili greiði bara fyrir sín börn.

Ég held það sé þá ekki fleira, sem ég kæri mig um að taka fram.