21.12.1935
Sameinað þing: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

1. mál, fjárlög 1936

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það eru nokkrar brtt., sem ég vil minnast á áður en atkvgr. fer fram. Það er þá fyrsta brtt. á þskj. 884, frá minni hl. fjvn., á þá leið, að af því atvinnubótafé, sem veitt er úr ríkissjóði samkv. fjárl., skuli varið 1/4 til þess að kaupa innlendar matarafurðir til greiðslu upp í verkalaun við atvinnubótavinnu. Um þessa till. vil ég það segja, að ég tel það tvímælalaust æskilegt, að hægt sé að greiða eitthvað af atvinnubótavinnu í framleiðsluvörum að nokkru leyti, en ég held það sé dálítið vafasamt að ákveða í fjárl., að greiða skuli vissan hluta vinnulaunanna í vörum. Það er nú svo, að þetta er nokkuð misjafnt, eftir því hvar atvinnubótavinnan er unnin, hvernig er að koma þessu fyrir. Það er eðlilegt og sjálfsagt eins og nú árar að taka upp þessa greiðsluaðferð, en mér finnst óhjákvæmilegt að athuga fyrst, hver hlutföll, eru eðlileg í þessu efni, áður en nokkru er slegið föstu um það í lögum. Það mætti benda á í þessu sambandi, að eftir slíka athugun gæti maður hugsað til að láta slíka aðferð ná til fleiri launagreiðslna en atvinnubótakaupsins. Það er kunnugt, að ríkissjóður hefir að greiða mikið meira af vinnulaunum en til þeirra, er vinna í atvinnubótum, þar á meðal til hins stóra starfsmannahóps ríkisins, og mundi það muna miklu, ef hægt væri að koma þeirri reglu á að greiða yfirleitt laun úr ríkissjóði í framleiðsluvörum að einhverjum hluta. Ég tel hreint ekki fráleitt að athuga þetta. Ég sé ekki í þessu efni mun á þeim launum, sem brtt. ræðir um, og öðrum launum, sem greidd eru úr ríkissjóði. Þessa vegna held ég, að málið verði að bíða nánari og víðtækari athugunar.

Þá er brtt. á sama þskj. um að verja 120 þús. kr. til þess að bæta upp verð á kjöti af framleiðslu ársins 1935. Í þessu sambandi má jafnframt minnast á brtt. frá hv. 10. landsk. og hv. þm. V.-Húnv. um sama efni. Um þessar báðar brtt. er það að segja, að það er vitað mál, og hefir áður verið tekið fram undir umr., að um þær er eins ástatt og brtt. sama efnis, sem borin var fram við fjárl. í fyrra, að það er ekki eðlilegt, að uppbót á kjöti sé ákveðin meðan mikill hluti vörunnar er enn óseldur og verður ekki seldur fyrr en eftir áramót, og þess vegna ekki vitað um fullnaðarútkomu sölunnar, þar sem ókunnugt er um verð á því kvantum, sem óselt er um áramót. Eins og hv. þm. muna, var mikið um þetta deilt á síðasta þingi, og þá færðar fram gildar ástæður fyrir því, að ákvörðun kjötuppbótarinnar ætti að bíða þar til varan væri seld. Þau rök eiga við nú engu síður en þá. Hv. fyrri þm. Skagf. var að segja, að eðlilegt væri, að bændur fengju eitthvað af þeim skattahækkunum, sem nú væru lögleiddar. Ég álít varla þörf á því að endurtaka það, að það er alls ekki rétt, að bændur fái ekki neitt af hinum nýju tekjuliðum. Það má benda á, að til fóðurtrygginga eiga að fara 25 þús. kr., til nýbýla 200 þús. kr., til kartöfluverðlauna 30 þús. kr., til mjólkurbúa um 55 þús. kr., til frystihúsa 20 þús. kr. og til greiðslu af fasteignaveðslánum bænda 75 þús. kr. Það er því í meira lagi ofsagt, að ekkert fari til bænda, svo þau rök geta ekki gilt fyrir þessari till. minni hl. fjvn. En sem sagt, ég tel, að sömu rök gildi nú til þess að fresta beri ákvörðun á verðuppbótinni og ég bar fram í fyrra og reyndust þá að vera rétt.

Þá er það ein brtt. á þskj. 890, XXV. liður, frá þeim hv. 11. landsk., hv. 1. og hv. 2. þm. Rang., um að verja 150 þús. kr., en til vara 80 þús. kr. af atvinnubótafé til Hellisheiðarvegar, og er gengið út frá, að sú vegagerð skuli byrjuð austan frá, við Suðurlandsbraut í Ölfusi. Það er út af fyrir sig að ýmsu leyti gott um till. að segja. Hér kemur fram meiri áhugi fyrir vegagerðinni en þegar verið er að ræða um benzínskattinn sem fjáröflunarleið fyrir austurleiðina. Ég tel alveg sjálfsagt, að varið sé til Austurvegar af atvinnubótafé eftir föngum, án þess að það sé bundið í lögum. Það hefir talsvert verið um það rætt, hvort heldur leggja skuli veginn um Urðir eða þrengslin, en enn hefir ekki verið ákveðið, hvor leiðin farin verði. Sérstaklega ef vestari leiðin er farin, er hér um að ræða mjög nærtæka vinnu fyrir Hafnarfjörð og Rvík, og ætti því að vera auðvelt að verja atvinnubótavinnunni allmikið til þessa vegar. Og ég vil segja það, að ég mun stuðla að því, að svo verði gert sem verða má án þess nokkur lagaákvæði heimti það. Ég hefi alltaf talið Suðurlandsveg mikið lífsspursmál; hann er ein af lífæðum þjóðfélagsins, því meðan ekki fæst öruggt vegasamband milli Suðurlandsundirlendisins og Rvíkur er hvorttveggja mjög illa sett.

Þá eru ekki fleiri brtt., sem ég ætla að tala um. Það skal verða athugað um greiðslu einhvers hluta af launum úr ríkissjóði með framleiðsluvörum. Um kjötuppbótina er sama að segja og í fyrra, og atvinnubótavinnunni verður beint til Suðurlandsvegarins svo sem hægt er, þó ekkert verði lögfest um það.